FRÉTT MENNING 15. SEPTEMBER 2020

Tæplega 95% einstaklinga á aldrinum 16-74 ára höfðu í byrjun árs 2019 lesið fréttamiðla á netinu á síðustu þremur mánuðum. Á sama tímabili höfðu 84,3% hlustað á tónlist á netinu, annað hvort í gegnum vefútvarp eða streymisveitur, og 62,4% þeirra höfðu hlaðið upp eigin efni (texta, myndum, tónlist eða öðru efni) á netið. Þá höfðu 89,7% landsmanna horft á sjónvarpsstreymi eða myndbönd í gegnum netið og 28,1% hafði spilað eða hlaðið niður tölvuleikjum undanfarna þrjá mánuði í byrjun árs 2018.1

Menningarvirkni á netinu var misjöfn eftir búsetu og hlutfallslega fleiri íbúar höfuðborgarsvæðisins notuðu netið til þess að horfa á sjónvarpsstreymi eða myndbönd (92%) heldur en íbúar á landsbyggðinni (85,4%). Munur eftir búsetu var minni hvað aðra menningarvirkni varðar en hlutfallið var þó hærra á meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins í flestum tilfellum.

Menningarvirkni háskólamenntaðara var almennt meiri á netinu en þeirra sem lokið höfðu skyldunámi eða stúdentsprófi. Til að mynda höfðu 91,1% háskólamenntaðra hlustað á tónlist á netinu og 97,8% höfðu lesið fréttamiðla á netinu samanborið við 77,3% og 89,1% þeirra sem lokið höfðu skyldunámi. Undantekning frá þessu var þó spilun eða niðurhal á tölvuleikjum. Í byrjun árs 2018 höfðu 35,8% þeirra sem lokið höfðu skyldunámi spilað eða halað niður tölvuleikjum undanfarna þrjá mánuði en 25,6% og 25,3% þeirra sem höfðu lokið iðnnámi eða stúdents- eða háskólaprófi. Líklegt má telja að hér hafi verið um að ræða áhrif aldurs frekar en námsstigs.

Miðað við stöðu á vinnumarkaði var hlutfall þeirra sem höfðu horft á sjónvarpsstreymi og myndbönd á netinu (96,3%), spilað eða halað niður tölvuleikjum (54,4%) og hlustað á tónlist (90,4%) hæst á meðal þeirra sem voru starfandi. Hlutfallið var hærra á meðal námsmanna þegar kom að lestri fréttamiðla (96,3%) og upphali á eigin efni (65,9%).

Menningarvirkni á netinu eftir kyni og aldri
% Alls 16-24 ára 25-54 ára 55-74 ára
Karlar Konur Karlar Konur Karlar Konur Karlar Konur
Tengjast neti (2019)99,398,9100,0100,0100,099,497,497,4
Horfa á sjónvarpsstreymi eða myndbönd (2018)90,788,697,995,99592,176,676,4
Spila eða hlaða niður leikjum (2018)33,821,964,824,436,923,66,816,7
Lesa fréttamiðla á netinu (2019)94,794,394,690,496,697,290,991
Hlusta á tónlist (2019)85,982,797,49993,392,26656,8
Hlaða upp eigin efni til að deila (2019)56,572,559,483,762,780,643,151,8

Meðal kynjanna var menningarvirkni karla á netinu hlutfallslega meiri að undanskildu upphali á eigin efni sem hærra hlutfall kvenna hafði gert á undangengnu þriggja mánaða tímabili. Sé aldur einnig skoðaður má sjá mun á spilun og niðurhali tölvuleikja. Þannig höfðu 64,8% karla á aldrinum 16-24 ára spilað eða hlaðið niður tölvuleik á undanförnum þremur mánuðum samanborið við 24,4% kvenna á sama aldri. Munurinn minnkaði svo í næsta aldurshópi fyrir ofan, 25-54 ára, og hafði snúist við í elsta aldurshópnum, 55-74 ára þar sem hlutfallið var 16,7% meðal kvenna og 6,8% meðal karla.

Menningarvirkni Íslendinga á netinu með þeirri mestu í Evrópu
Notkun Íslendinga á upplýsingatækni til að nálgast og/eða neyta menningar var með þeirri mestu í Evrópu árið 2019. Samkvæmt tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, er hlutfall Íslendinga þannig hæst hvað varðar alla menningarvirkni á netinu sem spurt er um að spilun og niðurhali á tölvuleikjum undanskildu. Í samanburði við önnur Evrópuríki er aðgengi Íslendinga að internetinu einnig með mesta móti.

Misjafnt er á milli landa hvaða menningarvirkni á netinu er mest að meðaltali en þó lesa hlutfallslega flestir fréttamiðla á netinu. Þar á eftir kemur áhorf á sjónvarpsstreymi og myndbönd og loks hlustun á tónlist.

Hvað kaup á menningartengdum vörum og þjónustu varðar er hlutfall Íslendinga einnig yfir meðaltali í Evrópu. Aðeins hlutfallslega fleiri Danir höfðu keypt miða á viðburði í gegnum netið á tímabilinu eða 60% samanborið við 58% Íslendinga. Þá höfðu 33% Íslendinga keypt tónlist og/eða kvikmyndir á netinu og 26% þeirra höfðu keypt bækur eða tímarit á netinu samanborið við 15% og 16% að meðaltali í Evrópu.

Um gögnin
Niðurstöðurnar eru unnar úr rannsókn Hagstofu Íslands á notkun heimila og einstaklinga á upplýsingatækni og neti sem er þversniðsrannsókn þar sem um 2.500 heimili eru valin í úrtak árlega. Niðurstöður eiga við um þá sem eru á aldrinum 16-74 ára og eiga lögheimili á Íslandi. Um er að ræða rannsókn sem framkvæmd er í öllum löndum Evrópska hagskýrslusamstarfsins með samræmdum hætti. Svarhlutfall var 64% árið 2017, 63% 2018 og 56% árið 2019. Rannsóknin var ekki framkvæmd á Íslandi árin 2015 og 2016. Menningarvirkni er skilgreind út frá flokkun Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á menningu.

1 Misjafnt er eftir árum hvaða spurningar um notkun einstaklinga á rafrænni þjónustu eru lagðar fyrir í ICT rannsókninni. Síðast var spurt um áhorf á sjónvarpsstreymi og myndbönd og spilun og niðurhal á tölvuleikjum árið 2018.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281052 , netfang Erla.Gudmundsdottir@Hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.