FRÉTT MENNING 25. JÚNÍ 2021

Tæplega 460 störfuðu í sviðslistum árið 2020 og hafði fækkað úr tæplega 640 ári áður. Fjöldi starfsmanna í fjölmiðlun hefur dregist saman frá árinu 2013. Þá störfuðu um 2.000 í greininni en þeim hefur nú fækkað í tæplega 900. Starfandi teljast bæði þeir sem starfa í aðal- og aukastarfi í greinunum en tekið skal fram að þekja sjálfstætt starfandi er ekki fullkomin í þessum tölum og því til dæmis mögulegt að sjálfstætt starfandi fjölmiðlafólki hafi fjölgað á tímabilinu.

Menningarvísar

Samhliða fækkun starfsmanna fjölmiðla hefur launasumma einnig dregist saman meðal rekstraraðila í fjölmiðlun. Launasumma jókst hins vegar stöðugt meðal rekstraraðila í hönnun og arkitektúr árin 2010 til 2018 en dróst nokkuð saman árin 2019 og 2020. Rekstrartekjur í sviðslistum hafa farið hækkandi frá 2015 til 2019 eða úr tæpum 1,3 milljörðum króna í rúma tvo milljarða.

Rekstrartekjur í bókmenntum voru tæpir 6,8 milljarðar árið 2019 og hafa farið hækkandi en árið 2008 voru þær um 4,4 milljarðar króna. Rekstrartekjur hafa verið hæstar í kvikmyndum og sjónvarpi af öllum menningargreinum á tímabilinu 2008 – 2019, á bilinu 22,5 til 43 milljarðar króna.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýbirtum menningarvísum Hagstofu Íslands. Menningarvísarnir byggja á nýrri flokkun Hagstofunnar þar sem sjá má talnaefni flokkað niður á mismunandi menningargreinar. Um er að ræða séríslenska flokkun sem er unnin með þarfir íslenskra notenda á opinberum hagtölum í huga. Flokkunin byggir í grunninn á skilgreiningu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á atvinnugreinum menningar (e. cultural industries) en í nýju flokkuninni eru rekstraraðilar innan ákveðinna atvinnugreina flokkaðir sérstaklega í tíu undirflokka:

  • bókmenntir
  • fjölmiðlar
  • hönnun og arkitektúr
  • kvikmyndir og sjónvarp
  • listnám
  • menningararfur
  • myndlist
  • sviðslistir
  • tónlist
  • tölvuleikir
Fyrirhugað er að byggja á þessari undirflokkun fyrir frekari miðlun hagtalna um menningu á Íslandi auk þess sem fleiri vísum verður bætt í safnið á komandi misserum. Einnig má búast við því að flokkun rekstraraðila verði nákvæmari þegar frekari reynsla er komin á flokkunarkerfið og notkun þess. Þá verða þær tölur sem birtar eru undir menningarvísum uppfærðar um leið og nýjar upplýsingar verða tiltækar.

Menningarvísar - Mælikvarðar um menningu á Íslandi

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1281 , netfang Anton.Karlsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.