Áætlað er að á árinu 2019 hafi 15.500 manns á aldrinum 16-74 ára verið starfandi við menningu samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands eða 7,7% af heildarfjölda starfandi. Það er sama hlutfall og árið 2018. Rúmur þriðjungur þeirra sem starfa við menningu voru í þeim atvinnugreinum sem teljast til menningar en tæplega tveir af hverjum þremur í menningarstörfum sem tengjast öðrum atvinnugreinum. Sé horft til þeirra atvinnugreina sem teljast til menningar starfar rúmur helmingur í menningarstörfum en aðrir í öðrum störfum innan greinanna.

Samtala undirliða þarf ekki að koma heim við heildartölur vegna námundunar.

Konur voru 59,4% af starfandi við menningu á árinu 2019 samanborið við 45,1% á meðal starfandi í öðrum atvinnugreinum og störfum. Hlutfall sjálfstætt starfandi var einnig töluvert hærra á meðal starfandi við menningu en annarra starfandi eða 24,4% á móti 10,6%. Þetta er á meðal niðurstaðna um starfandi í menningu. Tölurnar byggja annars vegar á vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar1 og hins vegar á skráarbundnum upplýsingum um vinnuafl á Íslandi2 (sjá Um gögnin).

Hlutfallslega færri innflytjendur starfandi í atvinnugreinum menningar
Sé horft til starfandi í atvinnugreinum menningar samkvæmt skrám var hlutfall þeirra 3% af heildarfjölda starfandi árið 2019. Þar af voru einungis um 18,5% búsett utan höfuðborgarsvæðisins samanborið við 36,9% í öðrum atvinnugreinum. Hlutfall starfandi í atvinnugreinum menningar var jafnframt hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 3,7%. Lægst var það á Suðurnesjum eða 0,9%.

Hlutfall innflytjenda var þá mun lægra á meðal þeirra sem starfa í atvinnugreinum menningar en í öðrum atvinnugreinum eða 9,1% samanborið við 19,6%. Hlutfallslega hefur innflytjendum jafnframt fjölgað meira í öðrum atvinnugreinum frá árinu 2015 eða um 61,3%, samanborið við 41,2% í atvinnugreinum menningar.

Meðal starfandi í atvinnugreinum menningar samkvæmt skrám störfuðu flestir í skapandi listum og afþreyingu (flokkur 90) árið 2019 eða 15,2%. Þar á eftir kom starfsemi safna og önnur menningarstarfsemi (flokkur 91) með 14,5% og þá framleiðsla á kvikmyndum, hljóðupptaka og tónlistarútgáfa (flokkur 59) með 11,9%. Þó nokkur breyting hefur orðið á þessum hlutföllum síðustu 10 ár.

Um gögnin
Í útgefnum tölum Hagstofunnar um starfandi við menningu er byggt á skilgreiningu Eurostat (e. cultural employment). Þeir teljast starfandi við menningu sem 1) starfa við menningarstörf (samkvæmt ÍSTARF95) án tillits til atvinnugreinar, 2) starfa í atvinnugreinum menningar (samkvæmt ÍSAT08) án tillits til starfaflokka og 3) þeim sem starfa alfarið við menningarstörf í atvinnugreinum menningar.

Í tölum úr vinnumarkaðsrannsókn er byggt á þversniðsskilgreiningunni af annars vegar starfaflokkum (ÍSTARF95) og hinsvegar atvinnugreinaflokkum (ÍSAT08). Tölurnar eru því heildartölur (summa) þeirra sem eru starfandi í öllum störfum í atvinnugreinum menningar annars vegar og starfandi í menningarstörfum í öllum atvinnugreinum hins vegar. Til samanburðar eru birtar tölur yfir þá sem eru starfandi við önnur störf í öðrum atvinnugreinum.

Í tölum úr skrám er aðeins birtur fjöldi starfandi í atvinnugreinum menningar þar sem starfaflokkar eru ekki tilgreindir í skráargögnum. Til samanburðar eru birtar tölur yfir þá sem starfa í öðrum atvinnugreinum.

Vinnumarkaðsrannsóknin (VMR) er úrtaksrannsókn þar sem gagna er aflað með símaviðtölum við þátttakendur. Auk þess er aflað lýðfræðilegra gagna úr þjóðskrá. Gögnum er safnað samfellt allt árið um kring. Árinu er skipt upp í fjögur 13 vikna tímabil og er úrtakið um 5.000 einstaklingar í hverjum ársfjórðungi. Úrtakinu er skipt jafnt niður á allar 13 vikurnar og er hver þátttakandi spurður um stöðu sína á vinnumarkaði í viðmiðunarviku rannsóknarinnar auk annarra spurninga, til dæmis um menntun og vinnumarkaðsreynslu. Úrtak vinnumarkaðsrannsóknarinnar er tekið úr hópi fólks á aldrinum 16–74 ára sem hefur lögheimili á Íslandi skv. þjóðskrá.

Rétt er að benda á að tölur um starfandi við menningu byggja á töluverðri sundurliðun. Þetta þýðir að óvissa ríkir um talningar í þeim hópum sem byggja á miklu niðurbroti (til dæmis þeirra sem eru starfandi i menningarstörfum í atvinnugreinum menningar). Þannig geta tölur þessara hópa sveiflast mikið á milli ára eftir fjölda einstaklinga og eftir því hversu mikið þeir vigta í úrvinnslunni.

Vinnuafl úr skrám (VS) eru talningar á einstaklingum úr mánaðarlegum staðgreiðslu- og mannfjöldagögnum. Staðgreiðslugögn byggja á upplýsingum frá Skattinum um uppgjör vegna staðgreiðslu af launum og/eða reiknuðu endurgjaldi samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Uppgjörið hefur verið auðgað með öðrum upplýsingum svo hægt sé að nýta það til hagskýrslugerðar, til að mynda til að geta aðgreint staðgreiðsluskyldar launagreiðslur frá öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum. Mannfjöldagögn byggja á íbúaskrá Þjóðskrár Íslands.

1 Lýsigögn um Vinnumarkaðsrannsókn.
2 Lýsigögn um vinnuafl samkvæmt skrám.

Talnaefni