Árið 2020 voru 12.700 manns á aldrinum 16-74 ára starfandi við menningu samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands eða 6,7% af heildarfjölda starfandi.1 Hlutfallið lækkaði aðeins lítillega frá 2019 þegar það var 6,8%. Hlutfallslega fækkaði starfandi við menningu meira en starfandi í starfaflokkum í öðrum atvinnugreinum eða um 4,5% á móti 2,8%. Þess ber að geta að ekki er tekið tillit til fjölda vinnustunda eða tekna í útreikningum á fjölda starfandi samkvæmt vinnumarkaðsrannsókninni.
Rúmlega 70% þeirra sem störfuðu við menningu voru í atvinnugreinum (9.000) sem teljast til menningar eða 4,7% af heildarfjölda starfandi. Tæplega þriðjungur starfaði í menningarstörfum innan annarra atvinnugreina (3.800) eða 2,0% af heildarfjölda starfandi. Sé horft til atvinnugreina sem teljast til menningar starfaði rúmur helmingur í menningarstörfum (4.800) en aðrir í öðrum störfum innan greinanna (4.300).
Þeim, sem störfuðu bæði sjálfstætt og sem launafólk innan menningargeirans, fækkaði um 25% á milli 2019 og 2020.2 Þeir voru þó enn 9,4% af heildarfjölda starfandi í menningu á árinu 2020 á móti 2,4% í öðrum störfum í öðrum atvinnugreinum og hafa verið hlutfallslega fleiri í menningu frá upphafi mælinga (2003). Því er algengara í menningu að starfandi séu bæði launafólk og sjálfstætt starfandi en almennt gerist í öðrum störfum í öðrum greinum.
Sjálfstætt starfandi í menningu fækkaði um tæp 19% á árinu 2020. Hlutfall sjálfstætt starfandi hefur frá upphafi mælinga verið hærra í menningu en í störfum í öðrum greinum. Hlutfallið hækkaði hratt á milli 2017 og 2019, úr 19,1% í 27,8%, en féll svo aftur niður í 23,6% á milli 2019 og 2020. Til samanburðar var hlutfall sjálfstætt starfandi í störfum í öðrum atvinnugreinum rúmlega 10% árin 2017-2020.
Launafólki í menningu fjölgaði á milli ára um 3,7% en þar af fjölgaði körlum um 13,9% á meðan að konum fækkaði um 4,4%. Starfandi launafólki í störfum í öðrum greinum fækkaði um 2,7% alls, körlum um 3,6% og konum um 1,7%.
Konum starfandi í menningu fækkaði talsvert á milli 2019 og 2020 hvort sem þær voru í launuðu starfi, sjálfstætt starfandi eða bæði. Alls fækkaði þeim um 16,9% á milli 2019 og 2020 en karlmönnum fjölgaði um 9,7%. Konum í menningu fækkaði sérstaklega í hópi þeirra sem starfa bæði í launuðu starfi og sem sjálfstætt starfandi, um 63,6%, en næstmest fækkaði sjálfstætt starfandi konum eða um fjórðung. Körlum sem starfa bæði sjálfstætt og í launuðu starfi fjölgaði um þriðjung á milli 2019 og 2020 en þeim sem aðeins starfa sjálfstætt fækkaði um 9,5%.
Mest fækkun í hljóðupptöku og tónlistarútgáfu
Sé horft til starfandi í atvinnugreinum menningar samkvæmt skrám var hlutfall þeirra 3,1% af heildarfjölda starfandi árið 2020. Í þessum atvinnugreinum fækkaði starfandi um 7,1% á milli 2019 og 2020 samanborið við 4,8% fækkun í öðrum atvinnugreinum. Starfandi í atvinnugreinum menningar fækkaði jafnframt um 5,6% á milli 2017 og 2019 á meðan öðrum starfandi fjölgaði um 2,4%.
Á milli 2019 og 2020 var fækkunin mest í 59.20 hljóðupptöku og tónlistarútgáfu, 33%. Þar á eftir í 60.10 útvarpsútsendingum og dagskrárgerð (27,3%) og þá í 59.14 kvikmyndasýningum (26,4%). Starfandi í framleiðslu og eftirvinnslu og dreifingu á kvikmyndum (59.11, 59.12 og 59.13) fjölgaði aftur á móti sem og starfandi við bókaútgáfu (58.11), útgáfu tölvuleikja (58.12), ljósmyndaþjónustu (74.20), þýðingar- og túlkunarþjónustu (74.30), listnám (85.52), listsköpun (90.03) og starfsemi bóka- og skjalasafna (91.01).
Um gögnin
Í útgefnum tölum Hagstofunnar um starfandi við menningu er byggt á skilgreiningu Eurostat (e. cultural employment). Þeir teljast starfandi við menningu sem 1) starfa við menningarstörf (samkvæmt ÍSTARF95) án tillits til atvinnugreinar, 2) starfa í atvinnugreinum menningar (samkvæmt ÍSAT08) án tillits til starfaflokka og 3) þeim sem starfa alfarið við menningarstörf í atvinnugreinum menningar.
Í tölum úr vinnumarkaðsrannsókn er byggt á þversniðsskilgreiningunni af annars vegar starfaflokkum (ÍSTARF95) og hinsvegar atvinnugreinaflokkum (ÍSAT08). Tölurnar eru því heildartölur (summa) þeirra sem eru starfandi í öllum störfum í atvinnugreinum menningar annars vegar og starfandi í menningarstörfum í öllum atvinnugreinum hins vegar. Til samanburðar eru birtar tölur yfir þá sem eru starfandi við önnur störf í öðrum atvinnugreinum.
Í tölum úr skrám er aðeins birtur fjöldi starfandi í atvinnugreinum menningar þar sem starfaflokkar eru ekki tilgreindir í skráargögnum. Til samanburðar eru birtar tölur yfir þá sem starfa í öðrum atvinnugreinum.
1 Við uppfærslu á talnaefni fyrir árið 2020 voru endurskoðaðir þeir atvinnugreina- og starfaflokkar sem meðtaldir eru undir menningu. Enn er stuðst við skilgreiningu Eurostat en fimm ÍSTARF95-starfaflokkar voru teknir út úr menginu í uppfærðum tölum vegna þess að svör þeirra sem féllu undir þá í vinnumarkaðsrannsókn bentu til þess að ekki væri um menningarstörf að ræða í meirihluta tilfella. Starfaflokkarnir sem ekki eru meðtaldir eru 1229, 2359, 7424, 7431 og 7432. Vegna þessa eru fjöldatölur um starfandi við menningu samkvæmt VMR lægri fyrir fyrri ár í þessari útgáfu en þær voru þegar talnaefni var uppfært árin 2019 og 2020.
2 Í tölum um starfandi í menningu samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn eru meðtaldir allir þeir sem hafa annað hvort eða bæði auka- og aðalstarf í annað hvort eða bæði menningarstarfi og/eða atvinnugrein menningar. Hver einstaklingur er þannig talinn einu sinni þó viðkomandi sé bæði í aðal- og aukastarfi í menningu. Ef einstaklingur er í aukastarfi í menningu en aðalstarfi í öðru er hann talinn til starfandi við menningu en ekki í öðru.
Lýsigögn
Starfandi við menningu samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands (VMR)
Starfandi við menningu samkvæmt skrám
Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands
Vinnuafl samkvæmt skrám