Árið 2021 störfuðu um 7,5% af heildarfjölda 16-74 ára á íslenskum vinnumarkaði við menningu samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands (VMR) eða 14.600 manns. Hlutfallið hækkaði lítillega frá 2020 þegar það var 7,1% en það var einnig 7,1% árið 2019.

Hlutfallslega var fækkun starfandi í menningu á milli áranna 2019 og 2020 sambærileg við vinnumarkaðinn allan, um 3%. Það bendir til þess að heilt yfir hafi áhrif kórónuveirufaraldursins á vinnumarkaðinn verið svipuð fyrir starfandi í menningu og aðra á íslenskum vinnumarkaði, þó með þeim fyrirvara að ekki er lagt mat á breytingar í vinnutíma. Tölurnar benda einnig til þess að viðspyrnan hafi verið hraðari í menningu en í öðru þar sem starfandi fjölgaði talsvert meira í menningu en utan hennar á milli 2020 og 2021, um 9% samanborið við 3,1%. Þá benda tölurnar til þess að þróunin á tímum faraldursins, á milli 2019 og 2021, hafi innan menningar verið afar misjöfn eftir kyni og ráðningarsambandi.

Starfandi körlum í menningu fjölgaði um 12,3% á milli 2019 og 2020 á meðan að starfandi konum í menningu fækkaði um 16,4%. Þá fjölgaði starfandi körlum í menningu um 9,6% á milli 2020 og 2021 en konum um 8,2%.

Á sama tímabili, frá 2019 til 2021, fjölgaði launafólki í menningu um 12% á meðan sjálfstætt starfandi fækkaði um 15,4% á milli 2019 og 2020 og engin breyting varð milli 2020 og 2021. Þeim, sem störfuðu bæði sjálfstætt og sem launafólk fækkaði á milli 2019 og 2020 en fjölgaði aftur á milli 2020 og 2021.

Á árunum 2017 til 2019 fjölgaði sjálfstætt starfandi í menningu um 44,4% á sama tíma og bæði launafólki og þeim sem starfa bæði sjálfstætt og sem launafólk fækkaði, um 10,8% annars vegar 38,5% hins vegar. Þannig má álykta að hluti starfandi í menningu hafi fært sig alfarið yfir í sjálfstæðan rekstur á tímabilinu. Kórónuveirufaraldurinn virðist hafa haft áhrif á þessa þróun því á milli 2019 og 2021 fækkaði sjálfstætt starfandi sem fyrr segir á meðan launafólki og þeim sem starfa bæði sjálfstætt og sem launafólk fjölgaði.

Meðal starfandi í menningu árið 2021 voru 12,2% eingöngu í aukastarfi í menningu og þá í aðalstarfi í öðrum störfum í öðrum atvinnugreinum. Hlutfall þeirra lækkaði úr 14,6% í 8,8% á milli 2019 og 2020 en hækkaði svo aftur á milli 2020 og 2021. Frá árinu 2013 hafa hlutfallslega fleiri karlar verið í aðalstarfi í menningu en konur að 2017 undanskyldu þegar hlutföllin voru nánast jöfn. Fleiri konur virðast þannig eingöngu hafa aukastarf í menningu en aðalstarf í öðru.

Mest fjölgun í eftirvinnslu kvikmynda, myndbanda og sjónvarpsefnis
Sé aðeins horft til starfandi í atvinnugreinum menningar var hlutfall þeirra af heildarfjölda starfandi 5,3% árið 2021 samkvæmt VMR og 3,4% samkvæmt skrám. Munurinn getur meðal annars skýrst af því að skráargögn ná ekki að fullu til sjálfstætt starfandi. Hlutfallið hefur lækkað frá árinu 2015 hvort sem litið er til vinnumarkaðsrannsóknar eða skráargagna. Starfandi í menningarstörfum voru um 5,1% af heildarfjölda starfandi 2021 samkvæmt VMR og hafði fækkað hlutfallslega frá 2015. Hlutfall starfandi í menningarstörfum lækkaði þó sérstaklega á milli 2019 og 2020 og hækkaði aftur á milli 2020 og 2021.

Samkvæmt skráargögnum fjölgaði starfandi í atvinnugreinum menningar um 2,2% á milli 2020 og 2021 samanborið við 1,8% fjölgun í öðrum greinum. Innan menningar fækkaði starfandi þó í fimmtán atvinnugreinum af 37 og um meira en 10% í sex þeirra. Hlutfallslega fækkaði starfandi mest í prentun dagblaða (atvinnugreinanúmer 1811), um 31,8%, og næstmest í annarri prentun (1812) og smásölu á bókum í sérverslunum (4761), um 13%. Í fjölda einstaklinga fækkaði þó mest í annarri prentun (1812) eða um 57 einstaklinga.

Starfandi fjölgaði um meira en 10% í átta atvinnugreinum menningar á sama tímabili. Hlutfallslega var fjölgunin mest í eftirvinnslu kvikmynda, myndbanda og sjónvarpsefnis (5912), um 27,3%, úr 22 starfandi einstaklingum í 28, og í þjónustu við sviðslistir (9002), um 26,3%, úr 57 í 72 starfandi einstaklinga. Mest fjölgaði starfandi einstaklingum í framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni, um 69 eða 17,1%.

Fækkun starfandi við fjölmiðla
Við útgáfu menningarvísa sumarið 2021 kom fram að starfandi við fjölmiðla hefði fækkað um 53,8% á milli 2016 og 2020. Þar er byggt á hliðarflokkun menningarvísa en í henni heyra sex atvinnugreinaflokkar alfarið undir fjölmiðla og tveir gera það að hluta, sjá Um menningarvísa.

Ef horft er til starfandi samkvæmt skrám í þessum átta atvinnugreinum fækkaði starfandi um 46,6% á sama tímabili, frá 2016 til 2020. Þar af fækkaði starfandi í öllum atvinnugreinaflokkum nema einum, smásölu á dagblöðum og ritföngum í sérverslunum (4761). Langmest fækkaði þeim í dagblaðaútgáfu (5813), um 72%, og næstmest í tímaritaútgáfu (5814), um 40%. Þá fækkaði starfandi um 34% í útvarpssendingum og dagskrárgerð (6010) og annarri prentun (1812).

Í þessu samhengi er mikilvægt að árétta að flokkun starfandi í atvinnugreinar samkvæmt skrám byggir á atvinnugreinaflokkun þess rekstraraðila sem greiðir viðkomandi staðgreiðsluskyld laun. Atvinnugreinaflokkun byggir á fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands. Flest fyrirtæki falla innan skilgreiningar einnar atvinnugreinar samkvæmt ÍSAT 2008-staðlinum en sum fyrirtæki eru í fleiri en einni atvinnustarfsemi. Í þeim tilvikum ræður sú atvinnugrein sem færir fyrirtækinu meiri rekstrartekjur.

Þá er rétt að geta þess að fjölmiðlun er tiltölulega fámenn atvinnugrein þar sem breytingar á rekstri stærri rekstraraðila geta haft mikil áhrif á tölur um starfandi. Það á til dæmis við ef hluti af starfsemi er færð til dótturfyrirtækis sem skráð er undir öðru atvinnugreinanúmeri eða ef starfsemi rekstraraðila tekur þannig breytingum að þörf sé á endurskoðun á atvinnugreinanúmeri.

Um gögnin
Í útgefnum tölum Hagstofunnar um starfandi við menningu er byggt á skilgreiningu Eurostat (e. cultural employment). Þeir teljast starfandi við menningu sem 1) starfa við menningarstörf (samkvæmt ÍSTARF95) án tillits til atvinnugreinar, 2) starfa í atvinnugreinum menningar (samkvæmt ÍSAT08) án tillits til starfaflokka og 3) starfa alfarið við menningarstörf í atvinnugreinum menningar. Við uppfærslu fyrir árið 2021 var tveimur atvinnugreinum bætt við þær atvinnugreinar sem teljast alfarið menningarlegar samkvæmt skilgreiningu Eurostat, sjá nánar í lýsigögnum.

Í tölum úr vinnumarkaðsrannsókn er byggt á þversniðsskilgreiningunni af annars vegar starfaflokkum (ÍSTARF95) og hinsvegar atvinnugreinaflokkum (ÍSAT08). Tölurnar eru því heildartölur (summa) þeirra sem eru starfandi í öllum störfum í atvinnugreinum menningar annars vegar og starfandi í menningarstörfum í öllum atvinnugreinum hins vegar. Til samanburðar eru birtar tölur yfir þá sem eru starfandi við önnur störf í öðrum atvinnugreinum. Í tölum um starfandi í menningu samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn eru meðtaldir allir þeir sem hafa annað hvort eða bæði auka- og aðalstarf í annað hvort eða bæði menningarstarfi og/eða atvinnugrein menningar. Hver einstaklingur er þannig talinn einu sinni þó viðkomandi sé bæði í aðal- og aukastarfi í menningu. Ef einstaklingur er í aukastarfi í menningu en aðalstarfi í öðru er hann talinn til starfandi við menningu en ekki í öðru.

Í tölum úr skrám er aðeins birtur fjöldi starfandi í atvinnugreinum menningar þar sem starfaflokkar eru ekki tilgreindir í skráargögnum. Til samanburðar eru birtar tölur yfir þá sem starfa í öðrum

Lýsigögn
Starfandi við menningu skv. VMR
Starfandi við menningu skv. skrám
Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands
Vinnuafl samkvæmt skrám

Talnaefni