FRÉTT MENNING 07. APRÍL 2020

Rúmlega 2,6 milljónir gesta heimsóttu söfn og sýningar á Íslandi á árinu 2018. Gestum hefur þannig fjölgað um rúmlega milljón á síðustu tíu árum. Sé aðeins horft til þeirra safna sem gátu veitt upplýsingar um skiptingu gesta eftir uppruna voru heimsóknirnar alls 2,3 milljónir og þar af voru 770 þúsund frá innlendum gestum en tæplega 1,6 milljónir frá erlendum.1

Hlutfallslega fjölgaði erlendum gestum því mun meira en íslenskum gestum á tímabilinu 2009-2018. Frá 2014 hefur heimsóknum innlendra gesta í raun fækkað á meðan að fjöldi erlendra gesta hefur nánast tvöfaldast. Hlutfall íslenskra og erlendra gesta hefur þannig snúist við og voru erlendir gestir 66,7% af heildarfjölda gesta á árinu 2018, samanborið við 35% árið 2009.

1 Tæplega 82% safna gátu veitt upplýsingar um skiptingu gesta eftir uppruna fyrir árið 2018. Gestafjöldi þeirra safna var þó 88% af heildargestafjölda allra safna.

Ætla má að fjölgun erlendra safnagesta sé í beinu sambandi við aukinn ferðamannastraum til landsins og samanburður við talningar Ferðamálastofu á erlendum ferðamönnum á árunum 2009-2018 styður jafnframt þá ályktun að fjölgun erlendra safnagesta stafi einkum af fjölgun ferðamanna frekar en að aðsókn þeirra að söfnum hafi aukist.

Sögusöfnin vinsælust
Sögusöfn eru vinsælust meðal bæði innlendra og erlendra gesta en aðsókn að annarskonar söfnum hefur þó aukist á síðustu tíu árum og var hlutdeild náttúrusafna og listasafna hærri hjá báðum hópum árið 2018 en 2009. Þá hefur aðsókn að dýragörðum minnkað hlutfallslega, bæði meðal innlendra og erlendra gesta. Þar af voru heimsóknir innlendra gesta færri árið 2018 en árið 2009 en heimsóknum erlendra gesta fjölgaði.

Afar misjafnt er eftir tegund safna hvort Íslendingar eða erlendir gestir eru í meirihluta. Skipting safnagesta eftir tegund safna hefur breyst á síðustu tíu árum og í samanburði við 2009 hefur hlutfall erlendra gesta hækkað á öllum tegundum safna. Mestur munur milli ára er á skiptingu gesta á náttúrusöfnum þar sem erlendir gestir töldu 86% allra gesta árið 2018 en 42% árið 2009. Erlendir gestir voru einnig í meirihluta á sögusöfnum, eða 73% samanborið við 50% árið 2009. Á listasöfnum voru innlendir gestir 65% allra gesta árið 2018 og langflestir gestir dýragarða voru jafnframt innlendir, eða 91%.

Flestar heimsóknir á höfuðborgarsvæðinu
Árið 2018 voru flestar gestakomur á söfn og garða á höfuðborgarsvæðinu, eða tæplega 1,4 milljónir, og næstflestar á Suðurlandi, eða 624 þúsund. Samtals voru 618 þúsund safnaheimsókna í öðrum landshlutum. Dreifing safnagesta á landshlutana er einnig ólík eftir tegund safna og árið 2018 var hlutfall heimsókna á höfuðborgarsvæðinu hæst á listasöfnum, 83%, og lægst á sögusöfnum, eða 37,6%.

Fjöldi safna er jafnframt misjafn eftir landshlutum en endurspeglar þó ekki dreifingu gesta. Þannig voru 21% þeirra safna sem veittu upplýsingar um starfsemi á árinu 2018 á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 14% á Suðurlandi og 19% á Norðurlandi eystra. Þá voru 64% listasafna staðsett á höfuðborgarsvæðinu og 9% sögusafna.

Starfsfólki safna fjölgar
Starfsfólki safna hefur einnig fjölgað frá árinu 2010, bæði þeim sem einungis starfa þar yfir sumartímann og þeim sem eru starfandi á söfnum í árslok. Í árslok 2018 voru þannig 566 starfsmenn hjá söfnunum en 901 störfuðu þar yfir sumartímann samanborið við 428 og 760 árið 2010. Aðeins þeir starfsmenn sem fá greitt eru meðtaldir í talningum en ekki er gerður greinarmunur á starfsmönnum í fullu starfi og hlutastarfi.

Fjölgun starfsfólks samkvæmt upplýsingum safna er í samræmi við þá fjölgun sem finna má í upplýsingum um starfandi í menningu samkvæmt skrám. Samkvæmt skráargögnum voru 441 starfandi í atvinnugreininni Starfsemi safna (Ísat08 flokkur 91.02) árið 2018 en 319 árið 2010. Tölur úr skráargögnum byggja á ársmeðaltali af fjölda starfandi í hverjum mánuði.

Munurinn á fjölda starfandi stafar líklega af því að í skráargögnum falla mörg þeirra safna sem rekin eru af sveitarfélögum undir atvinnugreinanúmer sveitarfélagsins sjálfs. Jafnframt má leiða líkum að því að sum smærri söfn séu starfrækt undir hatti annars reksturs, t.d. veitinga- eða ferðaþjónustu, og þá getur einnig verið að safnið sé skráð á atvinnugreinanúmer í samræmi við það.

Um gögnin
Tölur Hagstofunnar um starfsemi safna og skyldrar starfsemi taka til safna, setra, safnvísa, fiskasafna og dýragarða sem og skyldra sýninga opnum almenningi sem veita upplýsingar um árlegan fjölda gesta. Gagnasöfnun fer fram að hverju hausti og er upplýsingum þá safnað um árið á undan, þ.e. að gögn fyrir 2018 bárust okkur að hausti 2019. Gagnasöfnun fyrir árið 2019 mun þannig fara fram nú í haust og verða upplýsingar um það starfsár birtar að vori 2021.

Gagnasöfnunin nær til starfandi safna á Íslandi eftir lista sem Hagstofa Íslands uppfærir á ári hverju. Listinn nær til viðurkenndra safna samkvæmt skilgreiningu Safnalaga að viðbættum setrum og sýningum um menningar- og náttúruminjar sem opnar eru almenningi til sýnis. Frekari upplýsingar má finna í lýsigögnum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281052 , netfang Erla.Gudmundsdottir@Hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.