FRÉTT MENNING 27. SEPTEMBER 2023

Alls sóttu tæplega 1,8 milljón gesta söfn, setur og skylda starfsemi á Íslandi á árinu 2021 og hafði þeim fjölgað um 12% frá 2020. Hlutfallslega fjölgaði gestum náttúrusafna mest, um 54%. Gestum listasafna og fiskasafna og dýragarða fjölgaði jafnframt en gestum sögusafna fækkaði aftur á móti um 13%. Sé horft til fimm ára tímabils, frá 2017 til 2021, fækkaði safnagestum alls um 23%.

Flestir safnagestir heimsóttu safn á höfuðborgarsvæðinu árið 2021, tæplega 1,1 milljón eða 62% heildarfjölda gesta. Næstflestir voru þeir á Suðurlandi, tæplega 321 þúsund eða rúm 18%.

Á þeim þremur árum sem Hagstofan hefur skilið á milli viðurkenndra safna og höfuðsafna annars vegar og annarra safna hins vegar hefur fjöldi gesta skipst nokkuð jafnt þar á milli. Gestir viðurkenndra safna og höfuðsafna voru þó í fyrsta sinn í meirihluta árið 2021.

Erlendum safnagestum fækkað mikið frá 2017
Af þeim 116 söfnum sem söfnuðu upplýsingum um fjölda gesta árið 2021, greindu 85 á milli erlendra og innlendra gesta. Gestir þeirra 85 safna voru alls 1,1 milljón árið 2021 eða 63% af heildarfjölda taldra gesta. Innan þessa hóps fækkaði erlendum safnagestum um 57% á milli 2017 og 2021. Mjög mikil fækkun var frá 2019 til 2020, eða um 85%, en erlendum gestum fækkaði einnig árið á undan. Erlendum gestum fjölgaði hins vegar frá 2020 til 2021 og voru erlendir gestir 46% af heildarfjölda safngesta árið 2021.

Innlendum safnagestum fækkaði frá 2020 til 2021 um 10% og um 11% frá 2017 til 2021 hjá þeim söfnum sem greina á milli erlendra og innlendra gesta.

Talnaefni eftir landshlutum frá 2020 leiðrétt
Við úrvinnslu talnaefnis fyrir 2021 kom í ljós að nokkur söfn höfðu skráð rangan landshluta við skil á upplýsingum fyrir 2020. Þær villur hafa nú verið leiðréttar og talnaefni í veftöflum uppfært í samræmi við það. Í fréttatilkynningu um starfsemi safna 2020 kom fram að gestum hefði fækkað í öllum landshlutum nema á Austurlandi en hið rétta er að gestum fækkaði mest á Austurlandi, um 83%. Næstmest fækkaði þeim á Vesturlandi, um 73%.

Um gögnin
Upplýsingar um viðurkennd söfn koma úr skýrslum sem viðurkennd söfn skila safnaráði árlega. Upplýsingum um önnur söfn safnar Hagstofan frá söfnunum sjálfum í árlegri gagnasöfnun.

Alls skiluðu 128 rekstraraðilar safna, setra, sýninga, garða og skyldrar starfsemi inn upplýsingum um starfsemi sína árið 2021. Í heild náðu gögnin þannig til 128 aðalsafna og sjö undirsafna, samtals 135 safna. Þar af skiluðu 116 upplýsingum um fjölda gesta en 85 skiluðu upplýsingum um fjölda gesta eftir því hvort um Íslendinga eða erlenda ferðamenn væri að ræða. Rétt er að nefna að listi Hagstofu Íslands yfir starfandi söfn, setur, sýningar, garða og skylda starfsemi er ekki tæmandi en hann er uppfærður árlega eftir þeim upplýsingum sem aðgengilegar eru í hvert skipti. Þá er ekki endilega samhengi á milli þess hversu mörg söfn skila upplýsingum og hversu mörg söfn voru starfandi á viðmiðunartímabilinu. Þannig geta fjöldatölur sveiflast meira á milli ára í talnaefni Hagstofunnar en þær gera í raun.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281052 , netfang Erla.Gudmundsdottir@Hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.