FRÉTT MENNING 12. DESEMBER 2025

Alls sóttu rúmlega 3,3 milljónir gesta söfn og skylda starfsemi á Íslandi árið 2023 samanborið við tæplega 3,2 milljónir árið áður og nam því aukningin um 2,3% á milli ára. Safnagestir voru flestir á höfuðborgarsvæðinu bæði árin, um 1,9 milljónir.

Sögusöfn og náttúrusöfn voru mest heimsóttu söfnin árið 2023 með tæplega 1,4 milljónir gesta annars vegar og um eina milljón hins vegar. Fjölgun gesta á milli áranna 2022 og 2023 var hæst fyrir sögusöfn og nam um 12,6%. Sögusöfn og náttúrusöfn voru einnig mest heimsóttu söfnin á tímabilinu 2019-2023.

Á milli 2021 og 2022 jukust heimsóknir talsvert hjá öllum minjasöfnun, um 129,5% hjá sögusöfnun, um 76,8% hjá listasöfnum og um 122,9% hjá náttúrusöfnun en einungis um tæpt prósent hjá dýragörðum. Heimsóknir drógust saman 2020-2021en lítil breyting varð hins vegar á gestafjölda dýragarða.

Erlendir safnagestir
Árið 2019 voru erlendir gestir nánast tveir af hverjum þremur safnagestum eða 64%. Ári síðar, þegar samkomu- og ferðatakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins voru í gildi, fækkaði safnaheimsóknum talsvert í heildina, sérstaklega á meðal erlendra gesta þar sem hlutfall þeirra af heildarfjölda lækkaði um 38,0 prósentustig, og varð einungis fjórðungur af öllum safnaheimsóknum það ár.

Á milli áranna 2021 og 2022 jukust safnaheimsóknir erlendra gesta um 183,0% og fór aftur yfir 60,0% allra safnaheimsókna, um 60,9% árið 2022 og 62,2% árið 2023.

Um gögnin
Safnaráð stendur fyrir sjálfstæðri upplýsingasöfnun um hin 47 viðurkenndu söfn og þrjú höfuðsöfn á Íslandi og skilar þeim til Hagstofu Íslands samkvæmt samningi.

Upplýsingar um önnur söfn, sýningar, garða og skylda starfsemi er safnað með árlegum spurningalista sem sendur er til annarra safna. Listi Hagstofunnar yfir söfn er ekki tæmandi en hann er uppfærður árlega eftir þeim upplýsingum sem aðgengilegar eru í hvert skipti.

Árið 2022 fékk Hagstofan gögn frá 123 rekstraraðilum af 134 og var því svarhlutfallið 91,8%. Árið 2023 skiluðu alls 103 rekstraraðilar af 138 inn upplýsingum og var þá svarhlutfallið 74,6%. Þar af gerðu aðeins 86 rekstraraðilar greinamun á innlendum og erlendum gestum árið 2022 og 67 rekstraraðilar árið 2023.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.