Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 14. október 2020 kl. 15:50 frá upprunalegri útgáfu. Tölur um gestafjölda á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2019 í fyrri útgáfu fréttarinnar byggðu á röngum upplýsingum. Þann 19. október voru eldri tölur um tónleikagesti í Hörpu leiðréttar.

Rúmlega 205 þúsund gestir mættu á 695 tónleika árið 2019 í þremur stærstu tónleikahúsum landsins, það er í Hörpu, Salnum og Hofi. Þar af komu 174.535 í Hörpu, 22.141 í Salinn og 8.910 í Hof.

Fjöldi tónleikagesta margfaldaðist upp úr 2010 samfara fjölgun tónlistarhúsa úr einu árið 2009 í þrjú árið 2011 og munaði þar mestu um tilkomu Hörpu. Tónleikagestum húsanna hefur þó fækkað frá árinu 2016 og munar þar aftur mestu um tónleikagesti Hörpu sem voru flestir 215.810 árið 2016 en næst fæstir frá upphafi árið 2019 eða 174.535. Tónleikagestum fækkaði einnig í Salnum og Hofi á milli 2018 og 2019.

Aðsókn að sinfóníutónleikum dróst einnig saman árið 2019
Alls sóttu rúmlega 80 þúsund gestir samtals 96 innlenda tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á síðasta ári en það jafngildir tæplega 22,5% landsmanna.1 Þar af voru 77.549 gestir á 89 innlendum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands en 2.699 gestir á sjö tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Gestum á innlendum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur fækkað síðan 2017, þegar gestafjöldinn náði hámarki og taldi tæplega 85 þúsund. Innlendir tónleikar voru þó jafn margir þessi tvö ár, eða 89. Fjöldi gesta á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hefur haldist svipaður frá 2010 en þó með undantekningum árin 2017 og 2018 þegar þeir voru um 15.000 og 12.000 talsins.

Um gögnin
Hagstofa Íslands safnar árlega saman tölum um tónleikahald sinfóníuhljómsveita og tónleikahald í tónleikahúsum frá viðkomandi sveitum og húsum. Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í tónleikahúsunum þremur eru meðtaldir í upplýsingum frá bæði hljómsveitunum og tónleikahúsunum.

1 Hlutfall af mannfjölda 1. janúar 2019 (Lykiltölur mannfjöldans 1703-2020). Vert er að taka fram að ekki er um eiginlegan fjölda stakra gesta að ræða þar sem sami einstaklingurinn getur sótt fleiri en eina tónleika. Þeir sem fara oftar en einu sinni á tónleika sinfóníuhljómsveitanna eru þannig taldir oftar en einu sinni í gestafjölda.

Talnaefni