Heildarlaunasumma í menningu og skapandi greinum fyrir árið 2023 var tæplega 47,5 milljarðar króna og hækkaði um 5,5% frá árinu 2022 þegar hún var tæplega 45 milljarðar eða um 2,5 milljarða. Í samanburði hækkaði heildarlaunasumma fyrir allar atvinnugreinar um 13,1%.
Hæst var launasumma fyrir árið 2023 í hönnun og arkitektúr með 8,8 milljarða króna og fjölmiðlum með tæplega 6,6 milljarða. Launasumma hækkaði í öllum flokkum á milli 2022 til 2023, hlutfallslega mest í menningararfi, eða um 11,3%, og hönnun og arkitektúr, um 10,3%.
Yfir fimm ára skeið, 2019-2023, hefur launasumma í menningu og skapandi greinum samanlagt hækkað um fjórðung og var hækkun í öllum flokkum nema einum. Mesta hækkunin var í kvikmyndum og sjónvarpi, eða um 61,7%, og í myndlist, um 56,8%. Hins vegar lækkaði launasumma í prentun um 20,5%. Að meðaltali hækkaði launasumma um 4,6% árlega.
Launþegar og launagreiðendur
Launþegar í menningu og skapandi greinum voru alls 6.805 árið 2023 og launagreiðendur 1.666. Launþegum fækkaði um 33 á milli ára frá 2022 á meðan launagreiðendum fjölgaði um 59.
Flestir launþegar í menningargreinum störfuðu í hönnun og arkitektúr á árinu 2023 eða 1.081 talsins. Þá voru einnig flestir launagreiðendur í þeim geira eða 378.