FRÉTT MENNING 12. NÓVEMBER 2025

Rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum voru rúmlega 168 milljarðar árið 2023 og höfðu aukist um 9,8%, eða um 15 milljarða, frá 2022 þegar þær voru rúmlega 153 milljarðar. Á verðlagi ársins 2023 nam aukingin tæpu prósenti.

Rekstrartekjur voru mestar í kvikmyndum og sjónvarpi bæði árin, rúmlega 37 milljarðar króna árið 2022 og rúmlega 41 milljarður árið 2023. Rekstrartekjur jukust í öllum greinum en hlutfallslega var aukningin mest í sviðslistum, um 42,1% og í menningararfi, um 30,0%.

Á fimm ára tímabili, 2019-2023, jukust rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum um 48,9% eða um 17,7% á verðlagi ársins 2023. Mesta aukningin á tímabilinu var í sviðslistum eða um 128,9% og í menningararfi um 98,6%. Hins vegar var samdráttur í prentun um 11,8%. Að meðaltali jukust rekstrartekjur á tímabilinu um 8,3% á ári.

Fjöldi rekstraraðila
Rekstraraðilar í menningu og skapandi greinum voru 3.295 árið 2022 og 3.585 árið 2023 sem jafngildir 8,8% fjölgun á milli ára.

Flestir rekstraraðilar árið 2023 voru í kvikmyndum og sjónvarpi, 687 talsins, og fæstir í tölvuleikjum eða 16. Fjölgun var í öllum greinum á milli áranna 2022 og 2023 nema í prentun þar sem rekstraraðilum fækkaði um þrjá. Hlutfallslega fjölgaði mest í sviðlistum, eða um 43, sem jafngildir 23,3% aukningu.

Um gögnin
Upplýsingar um rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum má finna í uppfærðum menningarvísum Hagstofunnar. Talnaefni um rekstraraðila og rekstrartekjur byggja á rekstrarreikningum og skattframtölum rekstraraðila (RSK 1.04 og 4.11). Frekari upplýsingar má finna í lýsigögnum.

Menningarvísar Hagstofunnar byggja á sérstakri hliðarflokkun þar sem talnaefni er flokkað niður í tólf menningargreinar og skapandi greinar: auglýsingastofur, bókmenntir, fjölmiðlar, hönnun og arkitektúr, kvikmyndir og sjónvarp, listnám, menningararf, myndlist, prentun, sviðslistir, tónlist, og tölvuleiki. Um er að ræða séríslenska flokkun sem byggir í grunninn á skilgreiningu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á atvinnugreinum menningar (e. cultural industries).

Ákveðnar atvinnugreinar falla alfarið undir eina menningargrein en í öðrum þarf að yfirfara rekstraraðila og flokka í hliðarflokka menningargreina. Allir rekstraraðilar með a.m.k. þrjár milljónir króna í rekstrartekjur á ársgrundvelli voru yfirfarnir sérstaklega og flokkaðir í hliðarflokka menningargreinar.

Menningarvísar
Lýsigögn

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.