FRÉTT MENNING 10. MAÍ 2023

Rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum voru rúmlega 126 milljarðar árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári. Milli áranna 2019 og 2021 hækkuðu rekstrartekjur hins vegar einungis um 0,4% á verðlagi ársins 2021. Rekstrartekjur 2021 voru hæstar í kvikmyndum og sjónvarpi eða um 22% af heildartekstrartekjum og tæp 15% í fjölmiðlum annars vegar og hönnun og arkitektúr hins vegar.

Milli 2020 og 2021 jukust rekstrartekjur mest í tónlist, um 54%, og í menningararfi, eða 34%. Hins vegar var mesti samdráttur í þeim greinum árið á undan (eða á milli áranna 2019 og 2020) þegar rekstrartekjur drógust saman um 44% í tónlist og 43% í menningararfi. Rekstrartekjur hækkuðu mest í tölvuleikjum, um 47%, og í kvikmyndum, um 25% á milli áranna 2019 og 2020.

Sé horft til fimm ára tímabilsins, 2017-2021, lækkuðu rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum að jafnaði um 4,2%. Þar af lækkuðu þær í fimm greinum og hækkuðu í sjö. Mesta hækkunin á því tímabili var í kvikmyndum og sjónvarpi, um 44% og í tölvuleikjum, um 40%., en mesta lækkunin í prentun, 46%.

Á tíu ára tímabili, 2012-2021, jukust rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum alls um 2,9%. Aukningin var mest í menningararfi þar sem rekstrartekjur fjórfölduðust, fóru úr 425 milljónum í 1,8 milljarða, og í hönnun og arkitektúr þar sem rekstrartekjur fóru úr 8,4 milljörðum í 18,2 milljarða. Þá varð tæplega tvöföldun á rekstrartekjum í kvikmyndum og sjónvarpi og listnámi. Rekstartekjur lækkuðu aftur á móti í tveimur menningargreinum á sama tímabili, mest í prentun, um 60%.

Starfandi einstaklingum fjölgar mest í hönnun og arkitektúr
Árið 2022 störfuðu flestir í hönnun og arkitektúr, eða 15,6% af starfandi í menningu og skapandi greinum. Starfandi einstaklingum í hönnun og arkitektúr hefur jafnframt fjölgað hlutfallslega mest á síðasta áratug, eða um 63% og næstmest í myndlist, um 49,5%. Starfandi fólki fjölgaði á tímabilinu í sjö menningargreinum en fækkaði í fimm. Þar af var mesta fækkun í greinum fjölmiðlunar og prentunar, þar sem fjöldi starfandi einstaklinga árið 2022 var um helmingur þess fjölda sem var fyrir áratug. Helsta skýringin á fækkun innan fjölmiðla er breyting á rekstrarfyrirkomulagi innan greinarinnar og því má ætla að ekki sé um eiginlega fækkun fjölmiðlafólks að ræða.

Fjöldi alls starfandi í menningu og skapandi greinum fækkaði þannig um 6,6% frá 2013 til 2022, en ef fjölmiðlar og prentun eru undanskilin var var fjölgun starfandi í öðrum menningargreinum og skapandi greinum 21,7% á tímabilinu.

Sé tekið mið af starfandi í menningu samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn störfuðu 15.400 manns á aldrinum 16-74 ára við menningu árið 2022, eða um 7,3% af heildarfjölda starfandi, sem er svipað hlutfall og síðustu fimm ár.

Um gögnin
Upplýsingar um rekstartekjur í menningu og skapandi greinum má finna í uppfærðum menningarvísum Hagstofunnar. Umfjöllun um rekstrartekjur í þessari frétt eru á föstu verðlagi ársins 2022. Upplýsingar um fjölda starfandi einstaklinga eftir mismunandi menningargreinum og skapandi greinum er einnig að finna í menningarvísum en upplýsingar um fjölda starfandi fólks alls í menningu byggja á vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Talnaefni um starfandi fólk samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn er því víðari skilgreining á fjölda starfandi einstaklinga en talnaefni um fjölda starfandi fólks samkvæmt hliðarflokkun Hagstofunnar (menningavísar).

Menningarvísar Hagstofunnar byggja á sérstakri hliðarflokkun þar sem talnaefni er flokkað niður í tólf menningargreinar og skapandi greinar: auglýsingastofur, bókmenntir, fjölmiðlar, hönnun og arkitektúr, kvikmyndir og sjónvarp, listnám, menningararfur, myndlist, prentun, sviðslistir, tónlist, og tölvuleikir. Um er að ræða séríslenska flokkun sem byggir í grunninn á á skilgreiningu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á atvinnugreinum menningar (e. cultural industries).

Ákveðnar atvinnugreinar falla alfarið undir eina menningargrein en í öðrum þarf að yfirfara rekstraraðila og flokka í hliðarflokka menningargreina. Allir rekstraraðilar með a.m.k. 3 milljónir króna í rekstrartekjur á ársgrundvelli voru yfirfarnir sérstaklega og flokkaðir í hliðarflokka menningargreinar. Í talnaefni um starfandi einstaklinga samkvæmt hliðarflokkun Hagstofunnar eru aðeins þeir meðtaldir sem fá staðgreiðsluskyld laun og starfa hjá rekstraraðila í menningu og skapandi greinum. Talnaefni um rekstraraðila og rekstrartekjur byggja á rekstrarreikningum og skattframtölum rekstraraðila (RSK 1.04 og 4.11). Frekari upplýsingar má finna í lýsigögnum.

Nokkrar breytingar hafa orðið á hliðarflokkun frá síðustu birtingu, árið 2021. Í fyrri útgáfu flokkuðust bóka- og skjalasöfn undir bókmenntium en þau falla nú undir menningararf. Prentun flokkaðist undir fjölmiðlum en stendur nú sér. Þá voru auglýsingastofur ekki meðtaldar. Auk þess hafa hliðarflokkar undir atvinnugreinum tekið breytingum. Sjá nánar í lýsigögnum.

Í útgefnum tölum Hagstofunnar um starfandi við menningu og skapandi greinar samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn er byggt á skilgreiningu Eurostat (e. cultural employment). Þeir teljast starfandi við menningu og skapandi greinar sem:
1. starfa við menningarstörf (samkvæmt ÍSTARF95) án tillits til atvinnugreinar,
2. starfa í atvinnugreinum menningar (samkvæmt ÍSAT08) án tillits til starfaflokka og
3. starfa alfarið við menningarstörf í atvinnugreinum menningar. Frekari upplýsingar má finna í lýsigögnum.

Menningarvísar
Lýsigögn

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281052 , netfang Erla.Gudmundsdottir@Hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.