Útgjöld hins opinbera til menningarmála námu 2,5% af heildarútgjöldum á árinu 2018 um leið og 0,5% heildarútgjalda var varið til fjölmiðla. Í samanburði við önnur Evrópuríki var hlutur menningar af heildarútgjöldum hins opinbera þriðji hæstur á Íslandi en aðeins Ungverjaland og Lettland vörðu hærri hlutdeild heildarútgjalda til menningarmála, 2,7% og 2,8%. Í sex ríkjum varði hið opinbera hærra hlutfalli af heildarútgjöldum til fjölmiðla. Hlutfallið á Íslandi var þó hærra en að meðtali í löndum Evrópusambandsins (ESB) og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) hvort sem horft er til útgjalda vegna menningar eða fjölmiðla.

Á Íslandi hefur hlutdeildin haldist svipuð síðustu tíu ár en hún var lægst 2,2% árið 2016 og hæst 2,6% árið 2013. Á verðlagi ársins 2018 voru útgjöldin rúmlega 29 milljarðar króna bæði 2009 og 2018 en upphæðin fór lægst í rúma 25 milljarða króna árið 2012. Útgjöld hins opinbera til fjölmiðla voru tæplega 6,5 milljarðar króna árið 2018. Hlutfall útgjalda til fjölmiðla af heildarútgjöldum hefur einnig haldist svipað frá 2009 en fór þó hæst upp í 0,8% árið 2015.

Sé aðeins horft til útgjalda ríkisins árið 2018 var 1,5% af heildarútgjöldum þeirra veitt til menningarmála og 0,8% til fjölmiðla. Þá var 4,7% af heildarútgjöldum sveitarfélaga varið til menningarmála.

Stærstum hluta útgjalda varið í kaup á vörum og þjónustu
Til menningarmála heyra meðal annars framlög ríkis og sveitarfélaga til safna, leikhúsa og tónlistarhúsa auk ýmissa útgjalda á sviði lista og menningar. Á árinu 2018 voru stærstu liðir í útgjöldum hins opinbera til menningarmála kaup á vörum og þjónustu og laun en samtals námu þessir liðir um 73% af heildarútgjöldum málaflokksins á árinu.

Undir kaup á vöru og þjónustu falla til dæmis kaup á aðföngum og þjónusta sérfræðinga sem ekki eru á launaskrá, en launaliðurinn nær til launagreiðslna til starfsfólks ríkis og sveitarfélaga. Þess má geta að listamannalaun falla undir framleiðslustyrki í þessari sundurliðun en í þeim flokki er einnig að finna fjárveitingar í ýmsa menningarsjóði á vegum hins opinbera sem og til kynningarmiðstöðva skapandi greina (svo sem Kvikmyndamiðstöðvar Íslands). Þá nær fjárfesting yfir efnislegar eignir, t.d. yfir húsnæði, vélar og tæki og hugbúnað sem er notaður í meira en eitt ár.Dæmi um fjárfestingar til menningarmála eru útgjöld til Fornminjasjóðs og í Húsafriðunarsjóð.

Sé aðeins horft til útgjalda ríkis til menningarmála er launaliðurinn stærstur, eða 35%, en kaup á vörum og þjónustu næst stærstur, 30%. Í útgjöldum sveitarfélaga til menningarmála eru kaup á vörum og þjónustu langstærsti liðurinn, 48%, og launaliðurinn sá næst stærsti, 28%. Þá nema framleiðslustyrkir um 12% af útgjöldum ríkis til menningarmála og um 11% af útgjöldum sveitarfélaga.

Langstærsti útgjaldaliður ríkisins til fjölmiðlunar rennur til Ríkisútvarpsins. Af heildarútgjöldum ríkisins til fjölmiðlunar á árinu 2018 er liðurinn kaup á vöru og þjónustu stærstur 51% og hlutfall launa nemur 45%.

Um gögnin
Upplýsingar um útgjöld hins opinbera til menningarmála og fjölmiðla eru hluti af vinnu Hagstofunnar við að auka framboð af hagtölum um menningu. Unnið er út frá skilgreiningum Eurostat um menningu. Talnaefni um útgjöld hins opinbera er að finna undir efnisflokknum Fjármál hins opinbera. Útgjöld eru flokkuð samkvæmt COFOG staðlinum. COFOG flokkar 8.2 (menningarmál) og 8.3 (fjölmiðlar) falla undir menningu samkvæmt skilgreiningu Eurostat.

Lýsigögn um Opinber fjármál má nálgast hér en upplýsingar um skilgreiningar Eurostat og Hagstofu Íslands á menningu má finna hér. Sértækar skýringar um útgjöld hins opinbera má finna í skýringum við talnaefni.

Talnaefni