FRÉTT MENNING 23. DESEMBER 2025

Á þriðja ársfjórðungi 2025 lánuðu bóksöfnin úr safnkosti sínum til um 16% landsmanna. Er þetta svipað hlutfall lánþega og var á sama ársfjórðungi ári áður þegar hlutfallið var 16,4%. Þetta er á meðal þess sem sjá má í nýjum tölum Hagstofu Íslands um lánþega bókasafna frá 2023 – 2025.

Ungir lestrarhestar
Hlutfall lánþega bókasafna eftir aldri er hæst á meðal þeirra sem eru 17 ára og yngri, eða 44,5% en lægst er hlutfallið í aldurshópnum 25 – 39 ára eða um 6,4% á þriðja ársfjórðungi 2025. Þessu var öfugt farið þegar litið er til fjölda útlána að meðaltali eftir aldri lánþega. Fjöldi útlána (bóka og annars efnis) á þriðja ársfjórðungi 2025 til lánþega 17 ára og yngri var að meðaltali um 5,6 en útlán til lánþega 25 – 39 ára voru rúmlega níu að meðaltali.

Færri lánþegar utan höfuðborgarsvæðisins
Hlutfall lánþega utan höfuðborgarsvæðisins á þriðja ársfjórðungi 2025 var nokkru lægra en hlutfall lánþega búsettra í Reykjavík og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu eða 15,1% samanborið við 15,3% og 18%. Tæplega 12% karla utan höfuðborgarsvæðisins höfðu fengið efni að láni frá bókasafni samanborið við 19% kvenna og rúmlega 13% kynsegin/annað.

Innflytjendur síður lánþegar
Rétt rúmlega 5% innflytjenda fengu efni að láni frá bókasafni á þriðja ársfjórðungi 2025 og hafð hlutfallið lækkað frá sama tíma ári áður þegar það var 5,7%. Samanborið höfðu 18,7% íbúa með innlendan bakgrunn fengið efni að láni frá bókasafni á þriðja ársfjórðungi 2025.

Um gögnin
Upplýsingar um útlán eru fengin úr gagnasafni Landskerfis bókasafna og eru tengdar við ársfjórðungsleg mannfjöldagögn Hagstofunnar. Útlán var skilgreint sem skráning á tilteknu efni til útláns á lánþega á ákveðnum degi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.