FRÉTT MENNING 16. JÚLÍ 2015

Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 20. júlí 2015 14:15 frá upprunalegri útgáfu.

Um helmingur af þeim 87 íslensku leiknu kvikmyndum í fullri lengd¹ sem frumsýndar voru á árunum 1996-2013 og teknar voru til almennra sýninga í kvikmyndahúsum fékk innan við 10.000 sýningargesti. Gestafjöldi að meðaltali á hverja frumsýnda mynd á árunum 1996-2013 var 17.406. Hins vegar var aðsókn að helmingi myndanna innan við 10.692 gestir. Átta myndir fengu yfir 50.000 gesti, tvær myndir yfir 80.000 áhorfendur, en sú mynd sem minnsta aðsókn hlaut fékk innan við 50 áhorfendur.

Aðsókn að einstökum myndum er afar ójöfn. Algengast er að ein eða tvær kvikmyndir sópi til sín stórum hluta aðsóknarinnar á hverju ári. Hvernig aðsóknin dreifist á milli mynda er sýnt í töflu 1.

Tafla 1. Dreifing áhorfenda á leiknar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd frumsýndum 1996-2013
Fjöldi áhorfenda Fjöldi mynda
5.000 og < 25
5001-10.000 16
10.001-25.000 27
25.001-50.000 11
50.001 og > 8

Af 1.514.348 gestum sem sáu þær 87 íslensku kvikmyndir sem frumsýndar voru á árunum 1996-2013 féll helmingur aðsóknarinnar í hlut 15 mynda. Fast að 90 prósent af heildaraðsókninni féll í hlut helmings myndanna (sjá mynd 1 og mynd 2).

 

Af tíu vinsælustu innlendu kvikmyndum sem frumsýndar voru á árunum 1996-2013 voru fjórar myndanna í leikstjórn Baltasar Kormáks og tvær í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar. Mýrin, í leikstjórn þess fyrr nefnda, var með mesta aðsókn, eða ríflega 84.000 gesti. Í öðru sæti var Englar alheimsins, í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar, með ríflega 83.000 áhorfendur. Aðeins ein barna- og fjölskyldumynd er á meðal tíu aðsóknarhæstu myndanna (sjá töflu 2).

Tafla 2. Tíu aðsóknarhæstu leiknu íslensku kvikmyndirnar í fullri lengd frumsýndar 1996-2013
Röð Heiti Leikstjóri Frumsýningarár Aðsókn
1 Mýrin Baltasar Kormákur 2006 84.445
2 Englar alheimsins Friðrik Þór Friðriksson 2000 83.317
3 Bjarnfreðarson Ragnar Bragason 2009 66.876
4 Svartur á leik Óskar Þór Axelsson 2012 62.783
5 Djöflaeyjan Friðrik Þór Friðriksson 1996 61.971
6 Hafið Baltasar Kormákur 2002 58.076
7 Brúðguminn Baltasar Kormákur 2008 55.300
8 Djúpið Baltasar Kormákur 2012 50.266
9 Astrópía Gunnar B. Guðmundsson 2007 46.313
10 Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið Bragi Þór Hinriksson 2010 37.506

Athygli vekur að níu myndanna eru byggðar á vinsælli skáldsögu, leikverki eða sjónvarpsfígúru. Sú tíunda er byggð á sögulegum atburði sem stendur enn nærri hugum manna. Til samanburðar má geta þess að engin þeirra tíu mynda sem minnsta aðsókn hlutu er byggð á bókmenntaverki eða hefur beina skírskotun í alkunnan atburð.
Aðsóknarhæsta kvikmynd í leikstjórn konu er Stella í framboði í leikstjórn Guðnýjar Halldórsdóttur, sem er tólfta aðsóknarhæsta myndin, með hátt í 35.000 gesti.

Um gögnin
Hagstofa Íslands tekur árlega saman upplýsingar um kvikmyndasýningar og starfsemi kvikmyndahúsa. Upplýsingar um aðsókn að einstökum myndum eru fengnar frá rekstraraðilum kvikmyndahúsa og úr gagnagrunni Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði – FRÍSK um kvikmyndasýningar (áður Samtaka myndrétthafa á Íslandi – SMÁÍS).

¹Skv. alþjóðlegri skilgreiningu er löng kvikmynd mynd sem tekur a.m.k. klukkustund í sýningu.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.