FRÉTT MENNTUN 09. SEPTEMBER 2024

Í desember 2023 sóttu 19.765 börn leikskóla á Íslandi og hafði fækkað um 145 börn frá árinu áður (-0,7%). Engin börn voru skráð í leikskólana tvo í Grindavík en í desember 2022 höfðu 189 börn sótt þá leikskóla. Starfandi leikskólar í desember 2023 voru 261, þremur færri en árið áður.

Hlutfall 1-5 ára barna sem sækja leikskóla lækkaði um tvö prósentustig á milli áranna 2022 og 2023 eða úr 88% í 86%. Leikskólabörnum, sem hlutfall af börnum á viðkomandi aldursári, fækkaði meðal eins árs, tveggja ára, fjögurra ára og fimm ára barna en hlutfall þriggja ára barna stóð í stað frá fyrra ári. Miklu munar á hlutfalli 1-5 ára barna í leikskólum eftir landsvæðum, frá 96% á Vestfjörðum og 95% á Norðurlandi vestra niður í 72% barna á Suðurnesjum.

Hlutfallslega fækkar mest í hópi eins árs barna frá fyrra ári en 44% þeirra sóttu leikskóla í desember 2023 miðað við 54% ári áður. Hæst var hlutfall eins árs barna í leikskólum á Vestfjörðum (77%), á Norðurlandi vestra (73%) og á Austurlandi (71%). Hlutfall eins árs barna í leikskóla var langlægst á Suðurnesjum eða 10%.

Fleiri börn fá stuðning
Í desember 2023 nutu 2.473 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika eða 12,5% leikskólabarna og hafa aldrei verið fleiri. Hlutfallið var 11,7% árið 2022 og var þá það hæsta sem hafði komið fram í gagnasöfnun Hagstofunnar. Eins og undanfarin ár eru fleiri drengir í þessum hópi og nutu 1.596 drengir og 877 stúlkur stuðnings árið 2023.

Breytingar á viðveru barna á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur
Í kjölfar breytinga á gjaldskrá leikskóla í Kópavogi hafa orðið breytingar á dvalartíma barna á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur frá árinu áður. Þannig fjölgaði börnum í sex tíma vistun úr 94 í 492 og í sjö tíma vistun úr 385 í 620. Á móti kemur að börnum í átta og níu tíma vistun fækkaði á milli ára.

Flestir leikskólar opnir í 48-49 vikur á ári
Algengast er að leikskólar séu opnir í 48-49 vikur á ári. Þannig voru 177 af 261 starfandi leikskólum opnir í 48-49 vikur árið 2023 og 59 skólar voru opnir í 46-47 vikur. Alls voru 17 leikskólar opnir allt árið 2023.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.