Í desember 2018 störfuðu 1.600 leikskólakennarar í leikskólum á Íslandi, eða 28,1% starfsfólks við uppeldi og menntun barna, og hefur þeim fækkað um 360 frá árinu 2013 þegar þeir voru flestir. Leikskólakennurum undir þrítugu fækkaði sérstaklega mikið, enda var nám leikskólakennara lengt um tvö ár fyrir nokkrum árum. Lenging námsins er þó ekki eina skýringin á fækkun leikskólakennara, því þeim fækkaði í öllum aldurshópum undir 50 ára aldri.
Starfsfólk við uppeldi og menntun barna, sem hefur lokið annarri uppeldismenntun, s.s. grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi var 1.068 talsins. Ófaglært starfsfólk var rúmlega helmingur (53,2%) starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2018.
Alls störfuðu 6.176 í leikskólum í desember 2018 og hafði fjölgað um 158 (2,6%) frá fyrra ári, þrátt fyrir að leikskólabörnum hafi fækkað á milli ára. Stöðugildum fjölgaði um 2,1% og voru 5.400.
Körlum fjölgaði um rúm 16% meðal starfsfólks leikskóla
Karlkyns starfsmenn í leikskólum voru 434 í desember 2018, 7,0% starfsfólks, og hafa ekki verið fleiri, og fjölgaði um 16,4% frá desember 2017. Karlar voru 6,6% starfsfólks við uppeldi og menntun barna og 12,1% annars starfsfólks, þ.e. starfsfólks við matreiðslu og ræstingar.
Tæplega helmingur eins árs barna sækja leikskóla
Í desember 2018 sóttu tæplega 19 þúsund börn leikskóla á Íslandi, og fækkaði um 1,4% frá árinu áður. Barngildum, sem eru reiknuð ígildi barna til að meta þörf fyrir starfsfólk, fækkaði þó minna, eða um 0,8%. Skýringin er sú að yngri börnum fjölgaði meira en þau vega þyngra í útreikningi barngilda þar sem krafist er fleira starfsfólks fyrir yngri börn en þau sem eldri eru.
Hlutfall barna sem sækir leikskóla er óbreytt frá fyrra ári eða 87%, þegar litið er til 1-5 ára barna. Alls sóttu 95-97% tveggja til fimm ára barna leikskóla og 48% eins árs barna.
Miklu munar á hlutfalli eins árs barna í leikskólum eftir landsvæðum. Á Vestfjörðum sóttu 79% eins árs barna leikskóla og 68% á Austurlandi. Hlutfall eins árs barna í leikskóla var langlægst á Suðurnesjum, eða 11%.
Börnum með erlent móðurmál og erlent ríkisfang fjölgar
Börn með erlent móðurmál voru 2.572 í desember 2018, 13,7% leikskólabarna, og hafa ekki áður verið fleiri börn með erlent móðurmál í íslenskum leikskólum. Pólska er algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna eins og undanfarin ár, og höfðu 985 börn pólsku að móðurmáli. Næst flest börn hafa ensku að móðurmáli (265 börn) og því næst koma spænska (117 börn) og litháska (103 börn). Önnur erlend tungumál voru töluð af færri en 100 leikskólabörnum.
Börnum með erlent ríkisfang fjölgaði einnig, og voru 1.362 í desember 2018, 7,3% leikskólabarna. Einkum fjölgaði börnum frá Asíu, Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum.
Tölur um ríkisfang 2001-2007 eru ekki alveg sambærilegar við tölur frá 2008, þar sem þær byggja á öðrum heimildum.
Tæplega 1.900 börn njóta sérstaks stuðnings
Í desember 2018 nutu 1.888 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, eða 10,1% leikskólabarna. Hlutfall barna sem nutu stuðnings var svipað og árið 2015 en hærra en árin 2016 og 2017, þegar 9,7% barna nutu stuðnings. Eins og undanfarin ár voru fleiri drengir í þessum hópi og nutu 12,9% drengja og 7,2% stúlkna stuðnings árið 2018. Þetta er hæsta hlutfall stúlkna með stuðning sem Hagstofan hefur mælt í sínum könnunum.
Rúmlega 250 leikskólar starfandi
Í desember 2018 voru 253 leikskólar starfandi, einum færri en árið áður. Sveitarfélögin ráku 211 leikskóla en 42 leikskólar voru reknir af öðrum aðilum.
Árið 2018 voru 15 leikskólar opnir allt árið en 184 skólar voru opnir í 48-49 vikur. Leikskólum sem eru opnir allt árið hefur fækkað en þeir voru 25 árið 2008 og 89 árið 1998. Allir leikskólarnir sem voru opnir allt árið 2018 voru á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur.