Haustið 2013 hófu 4.510 nemar nám í dagskóla á framhaldsskólastigi hérlendis. Fjórum árum síðar höfðu 54,1% þeirra brautskráðst úr námi á framhaldsskólastigi sem var að minnsta kosti tvö ár að lengd. Þá höfðu 25,3% hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé en 20,5% voru enn í námi án þess að hafa brautskráðst. Stytting náms til stúdentsprófs er ekki að fullu komin fram í þeim tölum sem þessi samantekt nær til.
Brautskráningarhlutfall hefur hækkað og árgangsbrotthvarf minnkað
Brautskráningarhlutfall (þ.e. hlutfall nýnema sem hafa útskrifast) hefur aukist hægt frá árinu 2002. Fjórum árum eftir innritun höfðu tæplega 45%
nýnema haustsins 2002 útskrifast en rúm 54% nýnema haustsins 2013. Á móti kemur að nýnemum, sem eru enn í námi fjórum árum eftir upphaf náms, hefur fækkað í 20,5% en þetta hlutfall var tæp 28% árin 2004 og 2005. Brotthvarf nýnema af framhaldsskólastigi fjórum árum eftir upphaf náms var 25,3% hjá nýnemum árið 2013 og má merkja hægfara lækkun brotthvarfs síðustu ár.
Hærra brautskráningarhlutfall í skólum á höfuðborgarsvæðinu en utan þess
Fleiri ljúka námi í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Þannig höfðu 57,5% þeirra nýnema, sem hófu nám í skólum á höfuðborgarsvæðinu haustið 2013 lokið námi árið 2017 en 48,6% þeirra sem hófu nám í skólum utan höfuðborgarsvæðisins. Tæp 22% nýnema á höfuðborgarsvæðinu höfðu hætt námi án þess að útskrifast en 31% nýnema í skólum utan höfuðborgarsvæðisins.
Hærra brautskráningarhlutfall úr bóknámi en starfsnámi
Brautskráningarhlutfall nýnema áranna 2002 og 2003 var hærra eftir 4 ár meðal nýnema í starfsnámi en í bóknámi. Síðan þá hefur brautskráningarhlutfall þeirra sem innritast í starfsnám, og hafa brautskráðst eftir 4 ár, lækkað á meðan hlutfall þeirra sem innritast í bóknám og ljúka eftir 4 ár hefur hækkað. Meðal nýnema haustsins 2013 munaði 20 prósentustigum á brautskráningarhlutfallinu, þar sem rúm 58% þeirra sem innrituðust í bóknám höfðu útskrifast en rúm 38% þeirra sem innrituðust í starfsnám.
Færri innflytjendur útskrifast úr framhaldsskóla en nemendur af íslenskum uppruna
Haustið 2013 hófu 284 innflytjendur nám í dagskóla á framhaldsskólastigi og fjórum árum síðar höfðu 28,2% þeirra útskrifast. Brautskráningarhlutfall var hins vegar hæst meðal nemenda fæddra erlendis með íslenskan bakgrunn, en 66,5% þeirra sem hófu nám haustið 2013 höfðu útskrifast árið 2017, og rúm 56% þeirra sem hafa engan erlendan bakgrunn. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru fáir meðal nýnema 2013 en þeir eru líkari nemendum án erlends bakgrunns en innflytjendum í þessum gögnum.
Ef tveimur árum er bætt við námstímann og brautskráningarhlutfall skoðað hjá nýnemum árið 2011 sem höfðu brautskráðst árið 2017, þá hækkar brautskráningarhlutfall hjá öllum hópum. Brautskráningarhlutfall nemenda sem eru fæddir erlendis en hafa íslenskan bakgrunn hækkar þó mun minna en annarra hópa, eins og sést á mynd 3. Konur eru líklegri en karlar til að útskrifast úr námi óháð bakgrunni.
Hvað er brotthvarf?
Brotthvarf nemenda úr skóla má skilgreina á marga vegu. Hér er miðað við svokallað árgangsbrotthvarf, þar sem nýnemum í dagskóla að hausti er fylgt eftir.
Um gögnin
Nýnemar eru þeir nemendur sem voru skráðir í nám á framhaldsskólastigi í fyrsta skipti að hausti miðað við upphaf nemendaskrár Hagstofu Íslands árið 1975. Allir dagskólanemendur eru teknir með óháð aldri. Til brautskráðra teljast þeir sem hafa brautskráðst úr námi á framhaldsskólastigi sem er a.m.k. tvö ár að lengd. Til nemenda sem enn eru í námi teljast nemendur í dagskóla, kvöldskóla og í fjarnámi á framhaldsskólastigi og háskólastigi á Íslandi að hausti, sem ekki hafa útskrifast. Upplýsingar um bakgrunn nemenda eru teknar úr mannfjöldagögnum Hagstofu Íslands.