FRÉTT MENNTUN 21. JÚNÍ 2019

Haustið 2011 hófu 2.405 nýnemar þriggja ára nám til Bachelorgráðu í háskólum á Íslandi. Þremur árum síðar höfðu 33,3% þeirra brautskráðst á tilætluðum tíma, og 0,7% til viðbótar höfðu útskrifast úr öðru háskólanámi, svo sem tveggja ára diplómanámi. Þá höfðu 23,7% hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé en 42,4% voru enn í háskólanámi án þess að hafa brautskráðst. Alls höfðu 35,9% kvenna brautskráðst úr háskólanámi eftir þrjú ár og 31,3% karla. Eingöngu eru taldir nýnemar í fullu námi sem eru íslenskir ríkisborgarar. Til samanburðar var hlutfall brautskráðra lítið eitt hærra þegar litið er á nýnema í þriggja ára Bachelornámi haustið 2004, en 34,7% þeirra höfðu lokið Bachelorgráðu og 2,4% höfðu útskrifast með annað háskólapróf þremur árum eftir innritun.

Tveir þriðju nýnema hafa lokið prófi sex árum eftir innritun
Þegar litið er á fjölda þeirra sem hófu nám haustið 2011 sex árum eftir innritun, þ.e. þremur árum eftir að námi hefði átt að vera lokið, höfðu 67,2% nýnema haustið 2011 lokið Bachelorgráðu og 0,7% höfðu lokið öðru háskólanámi. Til samanburðar höfðu 67,0% nýnema haustið 2004 lokið Bachelorgráðu sex árum eftir innritun en 2,6% þeirra höfðu lokið öðru háskólanámi.

Fjórir af hverjum fimm nýnemum eru enn í námi ári síðar
Alls hættu 18,3% af nýnemum haustsins 2011 námi á fyrsta námsári en 81,3% héldu áfram námi til Bachelorgráðu og 0,4% höfðu skipt yfir í annað háskólanám.

Staða nýnema 2011 - 3 árum síðar

Hærra brautskráningarhlutfall meðal nýnema sem eiga háskólamenntaðra foreldra
Þremur árum eftir upphaf náms höfðu 36,0% nýnema sem eiga háskólamenntaða foreldra útskrifast af háskólastigi en 29,0% nýnema sem eiga foreldra sem hafa lokið grunnmenntun, þ.e. grunnskólanámi eða stuttu námi á framhaldsskólastigi. Brotthvarf eftir þrjú ár var mun meira hjá börnum foreldra með grunnmenntun, eða 29,0% en það var 20,3% meðal barna háskólamenntaðra. Þegar staða nýnema var skoðuð sex árum eftir upphaf náms, var munur á brautskráningarhlutfalli meiri en þá höfðu 61,0% barna foreldra með grunnmenntun útskrifast en 71,8% barna foreldra með háskólamenntun.

Staða nýnema 2011 eftir menntun foreldra - 3 og 6 árum síðar

Tæp 43% nýnema höfðu útskrifast af framhaldsskólastigi sama ár
Tæplega 43% nýnema í þriggja ára Bachelornámi haustið 2011 höfðu útskrifast af framhaldsskólastigi árið 2011, rúmur helmingur (50,6%) karla og 37,0% kvenna.

Hvað er brotthvarf?
Brotthvarf nemenda úr skóla má skilgreina á marga vegu. Hér er miðað við svokallað árgangsbrotthvarf, þar sem nýnemum í fullu námi að hausti er fylgt eftir.

Um gögnin
Nýnemar í þessum tölum eru þeir nemendur sem voru skráðir í þriggja ára nám til Bachelorgráðu í fyrsta skipti að hausti, miðað við upphaf nemendaskrár Hagstofu Íslands árið 1975. Í þessum tölum eru allir íslenskir ríkisborgarar í fullu námi á fyrsta námsári teknir með en fullt nám er skilgreint á þann hátt að nemendur séu skráðir í 75% eininga eða meira af því sem telst vera fullt nám. Til brautskráðra teljast þeir sem hafa brautskráðst með háskólapróf eftir þrjú ár og sex ár frá upphafi náms. Til nemenda sem enn eru í námi teljast nemendur í námi á háskólastigi á Íslandi að hausti, sem ekki hafa útskrifast. Upplýsingar um menntun foreldra koma úr menntunarskrá Hagstofu Íslands. Tiltekin er menntun þess foreldris sem hefur menntun á hærra menntunarstigi. Þessar tölur voru unnar samkvæmt skilgreiningum OECD og í september nk. verða gefnar út sambærilegar tölur fyrir önnur meðlimalönd OECD. Aðferðafræðin er önnur en notuð hefur verið fyrir tölur um brautskráningarhlutfall nemenda á háskólastigi, sem birtar hafa verið á vef Hagstofunnar annað hvort ár.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.