Brotthvarf á framhaldsskólastigi hefur farið minnkandi frá árinu 2003. Fjórum árum eftir innritun höfðu 29,6% nýnema haustsins 2003 hætt námi án þess að útskrifast en 19,9% nýnema haustsins 2016. Þannig höfðu nærri 62% þeirra tæplega 4.500 nýnema sem hófu nám árið 2016 útskrifast árið 2020 en rúm 18% voru enn í námi án þess að hafa útskrifast. Brotthvarf af framhaldsskólastigi hefur ekki mælst minna og brautskráningarhlutfall ekki hærra í tölum Hagstofunnar, sem ná aftur til nýnema ársins 1995.

Af nýnemum ársins 2016 höfðu tæp 25% karla hætt námi án þess að hafa útskrifast árið 2020 og 15% kvenna. Brotthvarf var meira meðal nemenda í starfsnámi en í bóknámi og hafði þriðji hver nýnemi í starfsnámi árið 2016 hætt námi án þess að útskrifast fjórum árum síðar. Þá var brotthvarf meira í skólum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þó hættu færri nýnemar í starfsnámi í skólum á landsbyggðinni án þess að útskrifast en nýnemar í starfsnámi á höfuðborgarsvæðinu.

Brotthvarf minnkar meðal innflytjenda
Rúmlega 46% innflytjenda, sem hófu nám í dagskóla á framhaldsskólastigi haustið 2016, höfðu hætt námi án þess að útskrifast fjórum árum seinna. Það er minnsta brotthvarf þessa hóps í mælingum Hagstofunnar en þó mun meira en á meðal nýnema með íslenskan bakgrunn. Brotthvarf nýnema haustsins 2016 án erlends bakgrunns var tæp 18% og rúm 13% á meðal nemenda fæddra erlendis en með íslenskan bakgrunn.

Hvað er brotthvarf?
Brotthvarf nemenda úr skóla má skilgreina á marga vegu. Í talnaefni Hagstofunnar er miðað við svokallað árgangsbrotthvarf þar sem nýnemum í dagskóla að hausti er fylgt eftir og staðan tekin eftir fjögur ár, sex ár og sjö ár.

Um gögnin
Nýnemar eru nemendur sem voru skráðir í nám á framhaldsskólastigi í fyrsta skipti að hausti ef miðað er við upphaf nemendaskrár Hagstofu Íslands árið 1975. Allir dagskólanemendur eru teknir með óháð aldri. Til brautskráðra teljast þeir sem hafa brautskráðst af námsbraut á framhaldsskólastigi sem er a.m.k. tvö ár að lengd. Til nemenda sem enn eru í námi teljast nemendur í dagskóla, kvöldskóla og í fjarnámi á framhaldsskólastigi og háskólastigi á Íslandi að hausti, sem ekki hafa útskrifast. Brottfallnir eru þeir sem ekki hafa brautskráðst og eru ekki í námi. Talnaefni Hagstofunnar um brautskráningarhlutfall og brotthvarf á framhaldsskólastigi nær aftur til nýnema ársins 1995.

Upplýsingar um bakgrunn nemenda eru teknar úr mannfjöldagögnum Hagstofu Íslands. Til innflytjenda teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Skiptinemar, sem koma til ársdvalar á Íslandi, teljast með í þessum tölum. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru þeir sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Aðrir flokkar ná yfir þá sem eru án erlends bakgrunns, þá sem eru fæddir á Íslandi og eiga annað foreldrið erlent, þá sem eru fæddir erlendis en hafa íslenskan bakgrunn eða eru fæddir erlendis og eiga annað foreldrið erlent.

Talnaefni