Haustið 2014 hófu 2.310 nýnemar þriggja ára nám til bakkalárgráðu í háskólum á Íslandi. Þremur árum síðar höfðu 38,1% þeirra brautskráðst á tilætluðum tíma og 0,2% til viðbótar höfðu útskrifast úr öðru háskólanámi, svo sem tveggja ára diplómanámi. Þá höfðu 24,2% hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé en 37,5% voru enn í háskólanámi án þess að hafa brautskráðst. Alls höfðu 40,4% kvenna brautskráðst úr háskólanámi eftir þrjú ár og 35,5% karla. Þetta er hærra brautskráningarhlutfall en hjá nýnemum haustsins 2011 en tæp 34% þeirra höfðu útskrifast eftir þriggja ára nám.

Rúmlega tveir þriðju nýnema hafa lokið prófi sex árum eftir innritun
Þegar litið er á stöðu þeirra sem hófu nám haustið 2014, sex árum eftir innritun, þ.e. árið 2020, og þremur árum eftir að námi hefði átt að vera lokið, höfðu 68,5% nýnema lokið bakkalárgráðu og 0,4% höfðu lokið öðru háskólanámi.

Til samanburðar höfðu 67,2% nýnema haustið 2011 lokið bakkalárgráðu sex árum eftir innritun og 0,7% þeirra höfðu lokið öðru háskólanámi.

Einn af hverjum fimm nýnemum hætti í námi á fyrsta námsári
Alls hættu 20,3% af nýnemum haustsins 2014 námi á fyrsta námsári en 79,0% héldu áfram námi til bakkalárgráðu og 0,7% höfðu skipt yfir í annað háskólanám.

Fleiri nemendur í einkaskólum hafa útskrifast eftir þrjú ár
Hagstofan birtir nú í fyrsta skipti tölur um brautskráningarhlutfall og brotthvarf eftir rekstrarformi háskóla. Tölurnar sýna að eftir þrjú ár hafa fleiri nemendur einkaskóla brautskráðst, eða 41,7% á móti 37,0% nýnema í opinberum háskólum. Sex árum eftir upphaf náms, árið 2020, er brautskráningarhlutfallið hins vegar lítið eitt hærra í opinberu skólunum eða 69,3% á móti 68,0% í einkaskólunum.

Um 49% nýnema í upplýsinga- og samskiptatækni útskrifuðust á því sviði
Einnig eru í fyrsta skipti birtar tölur um brautskráningarhlutfall og brotthvarf eftir námssviði sex árum eftir upphaf náms, þ.e. árið 2020. Hlutfall nýnema, sem höfðu útskrifast á sama sviði og þeir hófu nám, var hæst innan landbúnaðar, skógræktar, fiskveiða og dýralækninga en 70,7% nýnema á þessu sviði höfðu brautskráðst úr námi á sviðinu. Hlutfallið var lægst innan upplýsinga- og samskiptatækni þar sem 49,0% nýnema höfðu brautskráðst úr námi á því sviði eftir sex ár.

Hvað er brotthvarf?
Brotthvarf nemenda úr skóla má skilgreina á marga vegu. Hér er miðað við svokallað árgangsbrotthvarf þar sem nýnemum í fullu námi að hausti er fylgt eftir og staða þeirra skoðuð eftir þrjú ár og sex ár frá upphafi náms.

Um gögnin
Nýnemar í þessum tölum eru þeir nemendur sem voru skráðir í þriggja ára nám til bakkalárgráðu í fyrsta skipti að hausti miðað við upphaf nemendaskrár Hagstofu Íslands árið 1975. Í þessum tölum eru allir íslenskir ríkisborgarar í fullu námi á fyrsta námsári teknir með en fullt nám er skilgreint á þann hátt að nemendur séu skráðir í 75% eininga eða meira af því sem telst vera fullt nám. Til brautskráðra teljast þeir sem hafa brautskráðst með háskólapróf eftir þrjú ár og sex ár frá upphafi náms. Til nemenda sem enn eru í námi teljast nemendur í námi á háskólastigi á Íslandi að hausti sem ekki hafa útskrifast.

Þessar tölur voru unnar samkvæmt skilgreiningum OECD og í október nk. verða gefnar út sambærilegar tölur fyrir önnur aðildarlönd OECD. Aðferðarfræðin er önnur en notuð hefur verið fyrir tölur um brautskráningarhlutfall nemenda á háskólastigi sem birtar hafa verið á vef Hagstofunnar annað hvort ár en í þeim tölum eru bæði taldir nýnemar í fullu námi og hlutanámi með íslenskt og erlent ríkisfang.

Talnaefni