FRÉTT MENNTUN 26. OKTÓBER 2020

Hagstofan birtir nú í fyrsta skipti tölur um brautskráningarhlutfall og brotthvarf á framhaldsskólastigi eftir aldri innflytjenda til Íslands. Tölurnar sýna að brautskráningarhlutfall og brotthvarf innflytjenda, sem fluttust til landsins fyrir sjö ára aldur, var svipað og meðaltal allra nýnema á framhaldsskólastigi haustið 2012 og 2015.

Brautskráningarhlutfall (þ.e. hlutfall nýnema sem hafa útskrifast) allra nýnema haustið 2015 var 60,0% fjórum árum eftir upphaf náms. Á meðal innflytjenda, sem fluttust til landsins fyrir sjö ára aldur, var hlutfallið 57,8% og 50,0% á meðal annarrar kynslóðar innflytjenda. Innflytjendur, sem fluttust til landsins sjö ára eða eldri, standa mun verr að vígi en 32,0% þeirra höfðu brautskráðst. Af þeim sem ekki teljast til innflytjenda höfðu 62,1% nýnema brautskráðst innan fjögurra ára.

Ef litið er á nýnema í starfsnámi haustið 2015 höfðu 40,3% þeirra brautskráðst innan fjögurra ára. Hlutfallið var hærra á meðal innflytjenda en 44,4% þeirra sem fluttust til landsins fyrir sjö ára aldur höfðu brautskráðst og 43,0% þeirra sem voru sjö ára eða eldri við flutning til landsins. Hins vegar var brautskráningarhlutfall innflytjenda lægra en allra nýnema úr bóknámi, sérstaklega innflytjenda sem voru sjö ára eða eldri við flutning til Íslands.

Þess ber að geta að eingöngu 44 nýnemar haustið 2015 tilheyrðu annarri kynslóð innflytjenda og 45 voru innflytjendur sem fluttust til landsins fyrir sjö ára aldur. Því má líta svo á að niðurstöður gefi vísbendingar um stöðu mála þar sem hver einstaklingur vegur þungt í tölunum og sveiflur í hlutfallstölum því miklar.

Hlutfallslega færri innflytjendur útskrifast úr framhaldsskóla en nemendur með íslenskan bakgrunn
Tæplega 36% þeirra 320 innflytjenda, sem hófu nám í dagskóla á framhaldsskólastigi haustið 2015, höfðu útskrifast fjórum árum seinna. Það er hæsta brautskráningarhlutfall þessa hóps á þessari öld en mun lægra en á meðal nýnema með íslenskan bakgrunn. Brautskráningarhlutfall var hins vegar hæst á meðal nemenda fæddra erlendis með íslenskan bakgrunn, en 73,9% þeirra sem hófu nám haustið 2015 höfðu útskrifast árið 2019. Alls höfðu 62,4% þeirra sem hafa engan erlendan bakgrunn útskrifast og rúm 55% þeirra sem eru fæddir á Íslandi en eiga erlent foreldri.

Konur eru líklegri en karlar til að útskrifast úr námi óháð bakgrunni. Alls höfðu 68,3% allra kvenna útskrifast innan fjögurra ára og 51,4% karla.

Hlutfallslega fleiri nemendur í bóknámi útskrifuðust innan fjögurra ára en nemendur í starfsnámi og fleiri úr bóknámi í skólum á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Hlutfall brautskráðra úr starfsnámi var hins vegar lítillega hærra í skólum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Sex af hverjum tíu nýnemum brautskráðust innan fjögurra ára
Alls höfðu 60,0% þeirra 4.359 nýnema sem hófu nám á framhaldsskólastigi árið 2015 útskrifast árið 2019. Þá höfðu 23,0% hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé en 17,0% voru enn í námi án þess að hafa útskrifast. Brautskráningarhlutfallið hækkaði umtalsvert frá 2018 þegar það var 55,6%, enda brautskráðust stórir hópar nemenda með stúdentspróf bæði af þriggja ára og fjögurra ára brautum á þessu tímabili.

Brautskráningarhlutfall hefur farið hækkandi
Brautskráningarhlutfall hefur farið hækkandi frá árinu 2003. Fjórum árum eftir innritun höfðu 44,2% nýnema haustsins 2003 útskrifast en 60,0% nýnema haustsins 2015. Á móti kemur að nýnemum, sem eru enn í námi fjórum árum eftir upphaf náms, hefur farið fækkandi úr tæpum 28% árin 2004 og 2005 í 17%. Merkja má hægfara lækkun brotthvarfs síðustu ár en brotthvarf fjórum árum eftir innritun var 27,4% hjá nýnemum ársins 2011 en 23,0% hjá nýnemum ársins 2015. Brautskráningarhlutfall hefur ekki mælst hærra og brotthvarf ekki minna í tölum Hagstofunnar.

Hvað er brotthvarf?
Brotthvarf nemenda úr skóla má skilgreina á marga vegu. Hér er miðað við svokallað árgangsbrotthvarf. Nýnemum í dagskóla að hausti er fylgt eftir og staðan tekin eftir fjögur ár, sex ár og sjö ár. Talnaefni Hagstofunnar um brautskráningarhlutfall og brotthvarf á framhaldsskólastigi nær aftur til nýnema ársins 1995.

Um gögnin
Nýnemar eru þeir nemendur sem voru skráðir í nám á framhaldsskólastigi í fyrsta skipti að hausti ef miðað er við upphaf nemendaskrár Hagstofu Íslands árið 1975. Allir dagskólanemendur eru teknir með óháð aldri. Til brautskráðra teljast þeir sem hafa brautskráðst úr námi á framhaldsskólastigi sem er a.m.k. tvö ár að lengd. Til nemenda sem enn eru í námi teljast nemendur í dagskóla, kvöldskóla og í fjarnámi á framhaldsskólastigi og háskólastigi á Íslandi að hausti, sem ekki hafa útskrifast.

Upplýsingar um bakgrunn nemenda eru teknar úr mannfjöldagögnum Hagstofu Íslands. Til innflytjenda teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Skiptinemar, sem koma til ársdvalar á Íslandi, teljast með innflytjendum í þessum tölum. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru þeir sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Ekki innflytjendur eru þeir sem hafa engan erlendan bakgrunn, eru fæddir á Íslandi og eiga annað foreldrið erlent, eru fæddir erlendis en hafa íslenskan bakgrunn eða eru fæddir erlendis og eiga annað foreldrið erlent.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.