Nemendum á framhaldsskólastigi, sem læra erlend tungumál, hefur fækkað hlutfallslega úr 74,0% skólaárið 2011-2012 í 72,1% skólaárið 2013-2014. Það er svipað hlutfall og skólaárið 2007-2008. Þetta eru niðurstöður úr gagnasöfnun Hagstofu Íslands um nemendur í framhaldsskólum sem lærðu erlend tungumál skólaárin 2012-2013 og 2013-2014.
Spænska orðin þriðja algengasta erlenda málið
Nemendur í spænsku urðu í fyrsta skipti fleiri en nemendur í þýsku skólaárið 2012-2013. Skólaárið 2013-2014 lærðu 4.150 nemendur spænsku, 3.873 þýsku og 1.792 frönsku í framhaldsskólum. Flestir framhaldsskólanemendur læra ensku og voru þeir tæplega 15 þúsund skólaárið 2013-2014, um 60% framhaldsskólanema. Næstflestir nemendur læra dönsku, rúmlega 7 þúsund talsins, enda eru þessi tvö tungumál skyldunámsgreinar fyrir flesta nemendur í framhaldsskólum.
Í fyrsta sinn frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands árið 1999 lærðu íslenskir framhaldsskólanemendur arabísku skólaárið 2012-2013, þegar 20 nemendur lærðu arabísku. Skólaárið 2012-2013 komu líka fram í fyrsta skipti í gagnasöfnun Hagstofunnar nemendur sem lögðu stund á færeysku, alls 37 talsins, og 21 nemandi skólaárið 2013-2014.
Færri nemendur læra mörg tungumál
Að meðaltali lærðu framhaldsskólanemendur 1,34 tungumál skólaárið 2012-2013 og 1,31 tungumál skólaárið 2013-2014. Meðalfjöldi tungumála, sem framhaldsskólanemendur læra, hefur ekki verið lægri síðan Hagstofa Íslands hóf að birta sambærilegar tölur skólaárið 2002-2003. Meðalfjöldinn var hæstur skólaárin 2004-2006, 1,47 tungumál. Ástæðan er aðallega sú að færri nemendur læra tvö eða fleiri tungumál á sama skólaári, sem fer saman við fækkun nemenda á málabraut undanfarin ár.
Tungumálanám er vinsælla meðal stúlkna en pilta í framhaldsskólum
Stúlkur sækja frekar í tungumálanám í framhaldsskólum en piltar. Alls lærðu 72,7% stúlkna og 71,6% pilta tungumál skólaárið 2013-2014. Það er líka algengara meðal stúlkna að læra mörg tungumál enda eru þær mun fleiri en piltar á málabrautum framhaldsskóla. Þannig lærðu 35,5% stúlkna og 28,2% drengja tvö eða fleiri tungumál 2013-2014.
Um gögnin
Gögnum um tungumálanám nemenda í framhaldsskólum er safnað tvisvar á ári. Einungis eru taldir þeir nemendur framhaldsskóla í tungumálanámi á vormisseri sem einnig eru skráðir í nám á haustmisseri sama skólaár. Aðeins eru taldir þeir nemendur, sem læra tungumál viðkomandi skólaár. Upplýsinga er eingöngu aflað um nemendur í lifandi tungumálum og því eru ekki taldir nemendur í forngrísku, latínu né esperantó.