Á Íslandi höfðu 44% nýnema á framhaldsskólastigi árið 2003 brautskráðst á réttum tíma, þ.e. innan fjögurra ára frá upphafi náms. Aðeins í Lúxemborg höfðu færri nemendur lokið námi á framhaldsskólastigi á tilskildum tíma, 41% nemenda, en þar í landi er algengt að nemendur þurfi að endurtaka námsár í skóla. Tveimur árum síðar höfðu 71% nýnema í Lúxemborg brautskráðst en 58% íslenskra, og er Ísland þar í neðsta sæti þeirra 11 OECD-ríkja sem höfðu sambærilegar tölur.

Að meðaltali höfðu 68% nýnema á framhaldsskólastigi í OECD löndunum brautskráðst á réttum tíma. Tveimur árum eftir að námi átti að vera lokið hafði hlutfall brautskráðra hækkað í 81%. Þess skal getið að framhaldsskólanám er mislangt í OECD-ríkjunum. Algengt er að það sé 3 ár, en í sumum löndum er það 2 ár, í öðrum 4 ár eins og á Íslandi. Þá eru nemendur á Íslandi eldri en í flestum öðrum OECD-löndum þegar þeir ljúka framhaldsskóla á réttum tíma.

 

Í öllum OECD-löndunum sem hafa sambærileg gögn hefur hærra hlutfall kvenna en karla lokið framhaldsskólastigi á réttum tíma. Að meðaltali ljúka 73% kvenna og 63% karla námi á réttum tíma. Á Íslandi er meiri munur á milli kynjanna, þar sem 52% kvenna og 36% karla brautskráðust á réttum tíma.

Þá er algengara í OECD-löndunum að nemendur ljúki almennu bóknámi á réttum tíma en starfsnámi. Þannig luku 76% nemenda á bóknámsbrautum námi sínu á tilskildum tíma í OECD-löndunum en 55% nemenda á starfsnámsbrautum. Á Íslandi er svo til enginn munur á milli hlutfalls nemenda í bóknámi og starfsnámi sem ljúka námi á réttum tíma. Ástæðan er m.a. sú að hægt er að ljúka fjölmörgum stuttum starfsnámsbrautum, en til að ljúka bóknámi þarf yfirleitt að ljúka 4 ára námi.

Fjórum árum eftir upphaf framhaldsskólanáms hafa 30% nemenda á Íslandi hætt námi
Haustið 2003 voru 4.328 nýnemar í dagskóla á framhaldsskólastigi á Íslandi. Fjórum árum síðar höfðu 44% nýnemanna verið brautskráðir úr námi á framhaldsskólastigi sem var að minnsta kosti tvö ár að lengd. Um 30% nýnemanna höfðu þá hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé án þess að vera brautskráðir en 26% voru enn í námi án þess að hafa brautskráðst. Þetta eru mjög svipaðar tölur og árið áður, þegar 45% nýnema höfðu verið brautskráðir fjórum árum eftir upphaf náms, þó að nýnemum hefði fjölgað um 346 á milli áranna 2002 og 2003.

Staða nýnema í dagskóla á framhaldsskólastigi árið 2003 fjórum, sex og sjö árum eftir innritun,%
  Fjöldi ára frá innritun
  4 ár  6 ár  7 ár
Alls,% 100 100 100
Brautskráðir,% 44 58 62
Enn í námi,% 26 14 10
Brottfallnir.% 30 28 28


Hvað er brottfall?
Brottfall nemenda úr skóla má skilgreina á marga vegu. Hér er sú aðferð valin að fylgja eftir nemendum sem töldust til nýnema haustið 2003 og stunduðu nám í dagskóla. Þessi aðferð hefur verið valin af OECD og því fást sambærilegar tölur á milli OECD-landanna. Alls skiluðu 20 OECD-lönd sérstakri könnun á brautskráningum og brottfalli á framhaldsskólastigi árin 2010-2011.

Um gögnin
Nýnemar eru þeir nemendur sem voru skráðir í nám á framhaldsskólastigi í fyrsta skipti haustið 2003 miðað við upphaf nemendaskrár Hagstofu Íslands árið 1975. Allir dagskólanemendur eru teknir með, óháð aldri. Rúmlega 11% nýnema eru 17 ára eða eldri og elsti nýneminn er 62 ára. Til nemenda sem enn eru í námi teljast nemendur á framhaldsskólastigi og háskólastigi á Íslandi að hausti. Til brautskráðra teljast þeir sem hafa verið brautskráðir úr námi á framhaldsskólastigi sem er a.m.k. tvo ár að lengd. Margir nemendur halda síðan áfram námi og ljúka stúdentsprófi eða lengra starfsnámi.

Talnaefni