FRÉTT MENNTUN 04. MARS 2015


Nemendum ofan grunnskóla fækkaði um 0,2% frá hausti 2012

Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 45.378 haustið 2013 og fækkaði um 84 nemendur frá fyrra ári, eða 0,2%, aðallega vegna færri nemenda á framhaldsskólastigi. Alls sóttu 20.400 karlar nám og 24.978 konur. Körlum við nám fækkaði um 170 frá fyrra ári (-0,8%) en konum fjölgaði um 86 (0,3%).

Á framhaldsskólastigi stunduðu 24.711 nemendur nám og fækkaði um 3,1% frá fyrra ári. Á viðbótarstigi voru 828 nemendur og fækkaði um 4,7%. Á háskólastigi í heild voru 19.839 nemendur og fjölgaði um 3,9% frá haustinu 2012. Þessar breytingar má að hluta til skýra með breytingum á mannfjöldanum, þar sem íbúum á Íslandi á aldrinum 16-20 ára fækkaði um 200 en íbúum á aldrinum 21-25 ára fjölgaði um 700 á milli þessara ára.

Skólasókn er minnst meðal innflytjenda
Að meðaltali sóttu rúm 95% 16 ára skóla haustin 2012 og 2013 og tæp 83% 18 ára nemenda. Myndin hér fyrir neðan sýnir skólasókn eftir uppruna nemenda. Þar má sjá að skólasókn 16 ára er minnst meðal innflytjenda en rúmlega 86% þeirra sóttu skóla að meðaltali þessi tvö ár og tæp 65% voru í skóla við 18 ára aldur. Rúm 97% 16 ára af annarri kynslóð innflytjenda sóttu skóla þessi tvö ár en hlutfallið hafði lækkað niður í 75% í þessum hópi við 18 ára aldur. Við 18 ára aldur er skólasókn mest meðal nemenda, sem eru fæddir erlendis en hafa íslenskan bakgrunn; tæp 89% þeirra sóttu skóla að meðaltali haustin 2012 og 2013. Til innflytjenda teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Skiptinemar, sem koma til ársdvalar á Íslandi, teljast með innflytjendum í þessum tölum. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru þeir sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Þess skal getið, að aðeins á fjórða tug nemenda tilheyra annarri kynslóð innflytjenda þegar tölur fyrir tvö skólaár eru lagðar saman.

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri og lögheimili þann 1. desember ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum flokki. Nemendur eru flokkaðir eftir uppruna samkvæmt innflytjendagrunni Hagstofu Íslands.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.