FRÉTT MENNTUN 25. APRÍL 2006


Börn í leikskóla hafa aldrei verið fleiri
Hagstofa Íslands birtir nú tölulegar upplýsingar um börn í leikskólum í desember 2005. Í desember 2005 sóttu 16.864 börn leikskóla á Íslandi og hafa leikskólabörn aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 109 börn frá desember 2004 eða um 0,65%. Þetta er nokkru meiri fjölgun en á milli áranna 2003 og 2004 þegar fjölgunin var 0,4%.

Áframhaldandi fjölgun barna með erlent móðurmál
Börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku fjölgar ár frá ári og eru nú 1.250 talsins, eða 7,4% allra leikskólabarna. Algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna er pólska (189 börn) og í öðru sæti er enska (159 börn). Í grunnskólum landsins er hlutfall barna sem hefur annað móðurmál en íslensku haustið 2005 3,6%. Í desember 2005 eru 275 leikskólabörn skráð með erlent ríkisfang og eru flestir erlendir ríkisborgar frá Austur-Evrópu, 51,6%.

Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fækkar á milli ára
Í desember 2005 nutu 907 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika. Þetta eru 5,4% allra leikskólabarna. Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fækkaði á milli ára annað árið í röð og er fækkunin 77 börn frá desember 2004. Á síðastliðnum 2 árum hefur börnum sem njóta sérstaks stuðnings fækkað um 174 eða um 16,1%.

Fjöldi leikskóla stendur í stað
Starfandi leikskólar voru 262 talsins og er það sami fjöldi og í desember 2004. Stofnaðir voru 4 leikskólar á árinu og 4 leikskólar voru sameinaðir öðrum eða lagðir niður. Alls sóttu 1.542 börn nám í 28 einkareknum leikskólum og hefur þeim fjölgað úr 1.492 árið áður, eða um 3,35%. Alls voru 20 leikskólar opnir allt árið 2005 sem er svipaður fjöldi og árið á undan. Algengast er nú að leikskólar séu lokaðir í 1-2 vikur yfir sumarið vegna sumarleyfa. Er það breyting frá síðastliðnu skólaári þegar flestir leikskólar voru lokaðir í 3-4 vikur. Almenna reglan á leikskólum er sú að barn taki 4 vikur samfellt í sumarfrí. Því hafa foreldrar nokkru meira val um það hvenær börnin fara í sumarleyfi en árið áður.

Í fámennasta leikskólanum eru 5 börn
Leikskólar eru mjög misfjölmennir og eru aðeins nokkur börn í fámennustu leikskólunum. Sá fámennasti er Glaumbær á Borgarfirði eystra með 5 börn. Í 24 leikskólum eru færri en 20 börn. Í fjölmennustu leikskólunum eru á annað hundrað nemendur. Fjölmennustu leikskólar landsins eru Stekkjarás í Hafnarfirði og Krakkakot í Bessastaðahreppi en 167 börn sækja hvorn leikskóla fyrir sig. Í 37 leikskólum á landinu eru 100 börn eða fleiri.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.