Grunnskólanemendum sem læra erlend tungumál fjölgar ár frá ári. Skólaárið 2012-2013 lærðu 80,2% grunnskólanema erlent tungumál og hafa ekki verið fleiri.

Fleiri yngri grunnskólanemendur læra ensku
Enska er fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólum og það tungumál sem flestir nemendur læra. Skólaárið 2012-2013 lærðu 33.858 börn ensku í grunnskólum, 80,0% nemenda. Það er lækkun um 0,1 prósentustig frá fyrra skólaári. Kennsla í ensku hefst oftast í 4. bekk en þó er enska kennd í 1.-3. bekk í fjölmörgum skólum. Síðastliðið skólaár lærði 5.191 barn í 1.-3. bekk ensku eða rúmlega fjögur af hverjum tíu (40,2%) börnum í þessum bekkjum, samanborið við 164 börn (1,3% nemenda) fyrir áratug.

Sambærileg þróun hefur átt sér stað í Evrópu, þar sem kennsla í erlendum tungumálum hefur verið að færast neðar í grunnskólann. Kennslustundum sem varið er til kennslu í erlendum tungumálum í Evrópu hefur þó ekki fjölgað að sama skapi, heldur dreifast kennslustundir nú á fleiri skólaár. Á Íslandi hefur vikulegum kennslustundum sem varið er til kennslu í ensku og dönsku í öllum bekkjum grunnskólans hins vegar fjölgað úr 32,4 skólaárið 2002-2003 í 34,9 skólaárið 2011-2012.

Færri nemendur í 1.-6. bekk læra dönsku
Nemendur hefja nú flestir dönskunám í 7. bekk, eða við 12 ára aldur. Vert er að geta þess að 910 nemendur í 1.-6. bekk lærðu dönsku á síðastliðnu skólaári en voru 956 árið á undan.
Í mörgum skólum geta nemendur sem hafa kunnáttu í norsku eða sænsku valið þau tungumál í stað dönsku. Á síðasta skólaári lærðu 114 börn sænsku frekar en dönsku og 83 börn lærðu norsku.

Spænskunemendum fækkar en nemendum fjölgar í frönsku og þýsku
Grunnskólanemendum sem læra þrjú tungumál hefur farið fækkandi frá skólaárinu 2001-2002 þegar þeir voru flestir (1.656 nemendur, 3,8% nemenda). Þriðja tungumál er yfirleitt kennt sem valgrein í íslenskum grunnskólum. Síðastliðið skólaár lærðu 957 grunnskólanemendur þrjú tungumál eða fleiri, 2,3% nemenda.

Þegar litið er á fjölda nemenda á unglingastigi (8.-10. bekk) sem velja að læra þriðja tungumál, hafa orðið töluverðar breytingar á fjölda þeirra undanfarinn áratug. Skólaárið 2002-2003 voru þessir nemendur 1.523 talsins en voru fæstir skólaárið 2010-2011, 682 talsins. Á síðastliðnu skólaári lærðu hins vegar 917 nemendur á unglingastigi þrjú tungumál eða fleiri. Þýska var algengasta þriðja erlenda tungumálið á unglingastigi til skólaársins 2006-2007 en hefur síðan vikið fyrir spænsku. Á síðasta skólaári lærðu 372 unglingar spænsku, 315 þýsku og 230 frönsku. Þannig fækkaði nemendum í spænsku frá skólaárinu á undan en fjölgaði bæði í frönsku og þýsku.


 

Hagstofa Íslands tekið saman ofangreindar tölur um grunnskólanemendur sem læra erlend tungumál skólaárið 2012-2013 í tilefni af degi tungumála í Evrópu 26. september.

Talnaefni