FRÉTT MENNTUN 28. FEBRÚAR 2012

Aldrei áður í mælingum Hagstofunnar hefur hlutfall kennara með réttindi mælst hærra. Á árunum 1998-2008 var hlutfall réttindakennara á bilinu 80-87%. Haustið 2010 voru 92,3% kennara með kennsluréttindi og haustið 2011 eru 95,5% kennara með kennsluréttindi. Haustið 2011 voru 213 manns við kennslu án kennsluréttinda og er það mikil breyting frá haustinu 2002 þegar 931 einstaklingur án réttinda vann við kennslu í grunnskólum landsins.

Hæst er hlutfall réttindakennara á landinu á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur, þar sem 97,5% kennara hafa kennsluréttindi. Aðeins á Norðurlandi vestra (88,0%), Austurlandi (87,8%) og Vestfjörðum (84,3%) hafa færri en 90% kennara kennsluréttindi. Hlutfall kennara með kennsluréttindi á landsbyggðinni hefur aukist hratt síðustu ár, frá því að vera undir 50% á tíunda áratug síðustu aldar í einstaka landshlutum.

Starfsfólki við kennslu fækkar þriðja árið í röð
Haustið 2011 eru 7.337 starfsmenn í 6.681 stöðugildi í grunnskólum á Íslandi. Þar af eru 4.743 starfsmenn við kennslu í 4.559 stöðugildum. Starfsfólki fækkaði þriðja árið í röð. Starfsmönnum við kennslu, þ.e. skólastjórnendum, deildarstjórum og kennurum fækkaði um 143, sem er fækkun um 2,9%. Frá árinu 2008, þegar starfsmenn við kennslu voru flestir, hefur þeim fækkað um 358 manns (7,0%). Sé litið á stöðugildi hefur stöðugildum sama hóps fækkað um 112 frá fyrra ári, sem er fækkun um 2,4%. Frá árinu 2008 hefur stöðugildum starfsmanna við kennslu fækkað um 457 (9,1%). Öðrum starfsmönnum grunnskólans en starfsfólki við kennslu hefur fækkað um 189 manns frá hausti 2008 (6,8%) og stöðugildum þeirra fækkað um 194 (8,4%).

Haustið 2011 eru karlar 19,9% starfsfólks við kennslu og er það í fyrsta skipti sem hlutur þeirra fer undir 20 af hundraði.

Þegar starfshlutfall starfsmanna við kennslu og stjórnun er skoðað nánar sést að 688 færri einstaklingar eru nú skráðir í meira en fullt starf en haustið 2008. Svo virðist sem yfirvinna hafi minnkað hjá þessum hópi frá hausti 2008.

Meira brottfall meðal starfsmanna við kennslu
Tæplega 730 (729) starfsmenn við kennslu haustið 2010 eru ekki starfandi í grunnskólanum haustið 2011, eða 14,9% starfsmanna. Þeir hafa hætt sökum aldurs, eru í leyfi eða hafa horfið til annarra starfa. Þetta er meira brottfall en var árið á undan þegar það mældist 13,2%. Brottfall úr kennslu er hlutfallslega meira meðal þeirra sem eru í hlutastarfi en í fullu starfi. Þá er brottfall umtalsvert hærra meðal starfsmanna við kennslu sem eru án kennsluréttinda (39,0%), samanborið við kennara með réttindi (12,9%). 

Meðalaldur kennara heldur áfram að hækka
Yngri kennurum fækkar meira á milli ára en þeim sem eldri eru. Þannig fækkar kennurum sem eru yngri en 45 ára um 137 frá fyrra ári en 60-64 ára kennurum fjölgar um 21. Árið 1998 voru 59,1% kennara yngri en 45 ára. Haustið 2011 er þetta hlutfall komið niður í 47,5% og hefur því eldri kennurum fjölgað sem þessu nemur. Meðalaldur starfsmanna við kennslu er nú 45,3 ár.

Leikskóli, grunnskóli og tónlistarskóli í einni stofnun
Í kjölfar laga um leikskóla og grunnskóla frá árinu 2008 er orðið algengara að leikskólar og grunnskólar og jafnvel tónlistarskólar séu reknir sem ein skólastofnun með einum stjórnanda. Í gagnasöfnun haustið 2011 eru tæplega 30 skólastofnanir þar sem slíkur samrekstur á sér stað. Þetta rekstrarform er algengara í minni sveitarfélögum á landsbyggðinni en í stærri sveitarfélögum þó svo að undantekningar séu til frá því.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.