FRÉTT MENNTUN 24. SEPTEMBER 2015

Starfsfólk í leikskólum á Íslandi hefur aldrei verið fleira en í desember 2014. Þá störfuðu 6.019 manns í 5.289 stöðugildum, 3,3% fleiri en árið áður. Á sama tíma sóttu 19.938 börn leikskóla á Íslandi og hafa aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum fjölgaði um 225 frá desember 2013, eða um 1,1%. Eins árs börnum fjölgaði mest, úr 34,0% í 41,2% af árganginum. Tæplega 86% barna á aldrinum 1-5 ára voru skráð í leikskóla og hefur það hlutfall ekki verið hærra.

Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fjölgar milli ára
Í desember 2014 nutu 1.524 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, 7,6% leikskólabarna. Þetta er fjölgun um 324 börn frá fyrra ári (27,0%). Aðeins einu sinni áður hefur hlutfall barna sem njóta stuðnings verið yfir 7% en það var árið 2009; 7,3%. Eins og undanfarin ár eru fleiri drengir í þessum hópi og nutu 1.031 drengur (68%) og 493 stúlkur (32%) stuðnings árið 2014.


Börnum af erlendum uppruna fjölgar áfram
Hagstofan hefur frá árinu 2001 skoðað ríkisfang leikskólabarna. Árið 2001 voru 159 börn í leikskólum landsins með erlent ríkisfang, 1,0% leikskólabarna en 1.234 í desember 2014, 6,2% leikskólabarna. 

Á sama tímabili hefur börnum með erlent móðurmál fjölgað úr 755 (4,8% leikskólabarna) í 2.197 (11,0%).


Tölur um ríkisfang 2001-2007 eru ekki alveg sambærilegar við tölur frá 2008, þar sem þær byggja á öðrum heimildum.

Leikskólakennurum fækkar
Þrátt fyrir að starfsmönnum leikskóla hafi fjölgað frá fyrra ári, fækkaði menntuðum leikskólakennurum um 124 (6,3%) frá desember 2013 og voru menntaðir leikskólakennarar 1.836 í desember 2014. Athygli vekur að leikskólakennurum á fertugsaldri hefur fækkað um 160 síðustu fimm ár. Leikskólakennarar voru 33,3% starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2014 en 36,8% árið áður.

Starfsfólki við stuðning fjölgaði um 39 (9,5%), enda fjölgaði börnum sem nutu sérstaks stuðnings umtalsvert.


Leikskólum fækkar
Í desember 2014 voru 255 leikskólar starfandi á Íslandi og hafði þeim fækkað um einn frá árinu áður. Sveitarfélögin ráku 220 leikskóla en 35 leikskólar voru reknir af öðrum aðilum. Flestir voru leikskólarnir árið 2009, þegar 282 leikskólar störfuðu á landinu.

Talnaefni

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.