Atvinnuþátttaka eykst og atvinnuleysi minnkar með aukinni menntun. Þannig voru 94,2% þeirra sem höfðu háskólamenntun í aldurshópnum 25–64 ára á vinnumarkaði árið 2014; 90,2% íbúa með framhaldsmenntun og 80,4% þeirra sem höfðu eingöngu lokið grunnmenntun. Atvinnuleysi var 3,6% meðal háskólamenntaðra sama ár, 4,0% meðal fólks með menntun á framhaldsskólastigi og 4,7% meðal þeirra sem höfðu lokið grunnmenntun.
Árið 2014 voru háskólamenntaðir 25–64 ára íbúar á Íslandi í fyrsta skipti fleiri en íbúar með menntun á framhaldsskólastigi, eða 60.800, en menntaðir á framhaldsskólastigi voru 59.300. Munurinn er þó innan skekkjumarka. Háskólamenntaðir 25–64 ára voru 37,0% íbúa á Íslandi, 2.000 fleiri en árið 2013. Þá höfðu 43.900 manns í þessum aldurshópi eingöngu lokið grunnmenntun, þ.e. styttra námi en framhaldsskólastigi, samkvæmt niðurstöðum úr Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Það eru 26,7% íbúa og hefur fækkað um 1.500 manns frá fyrra ári.
Mikill munur var á menntun íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar árið 2014. Á höfuðborgarsvæðinu höfðu 21,9% íbúa á aldrinum 25-64 ára eingöngu lokið grunnmenntun en 44,1% höfðu lokið háskólamenntun. Utan höfuðborgarsvæðisins höfðu 35,3% íbúa eingöngu lokið grunnmenntun og 24,1% lokið háskólamenntun.
Hæsta menntun 25–64 ára 2014 | |||||
Hlutfall | Alls | Karlar | Konur | Höfuðborgarsvæði | Landsbyggð |
Grunnmenntun | 26,7 | 25,8 | 27,6 | 21,9 | 35,3 |
Framhaldsmenntun | 36,1 | 43,1 | 29,0 | 33,8 | 40,2 |
Háskólamenntun | 37,0 | 30,8 | 43,2 | 44,1 | 24,1 |
Upplýsingar vantar | 0,3 | 0,3 | 0,2 | 0,2 | 0,4 |
Alls | 100,0 | 100,0 | 100,0 | 100,0 |
100,0 |
Yngra fólk hefur meiri menntun
Yngra fólk hefur almennt lokið meiri menntun en þeir sem eldri eru. Í aldurshópnum 30-49 ára höfðu 23,9% eingöngu lokið grunnmenntun og 41,7% lokið háskólamenntun árið 2014. Í aldurshópnum 65-74 ára höfðu hins vegar 45,8% eingöngu lokið grunnmenntun og 18,9% lokið háskólamenntun.
Um gögnin
Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin byggir á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Frá árinu 2003 er heildarúrtak Vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar rúmlega 3.800 einstaklingar í hverjum ársfjórðungi og svarhlutfall um 80%. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem skráðir eru í þjóðskrá og eru með lögheimili á Íslandi. Heildarúrtak ársins 2014 var 15.761 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 15.390 einstaklingar. Nothæf svör fengust frá 12.142 einstaklingum sem jafngildir 78,9% endanlegri svörun. Allar niðurstöður hafa verið vegnar eftir kyni og aldri.