FRÉTT MENNTUN 10. JANÚAR 2017

Fleiri landsmenn á aldrunum 25-64 ára voru háskólamenntaðir en með framhaldsskólamenntun árið 2015. Árið 2014 voru háskólamenntaðir 25-64 ára íbúar á Íslandi í fyrsta skipti fleiri en íbúar með menntun á framhaldsskólastigi, en munurinn var innan skekkjumarka. Árið 2015 var munurinn hins vegar marktækur en þá voru háskólamenntaðir 25-64 ára 38,9% íbúa á Íslandi (64.600), 35,9% höfðu lokið framhaldsskólastigi (59.600) og 25,2% höfðu eingöngu lokið grunnmenntun, þ.e. styttra námi en framhaldsskólastigi (41.900), samkvæmt niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Íbúum með háskólamenntun fjölgaði um 3.400 frá fyrra ári en íbúum, sem aðeins hafa grunnmenntun, fækkaði um 2.200.


Fjölgun háskólamenntaðra má að miklu leyti rekja til fjölgunar háskólamenntaðra kvenna, og fækkun þeirra sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun má líka rekja að miklu leyti til aukinnar menntunar kvenna. Minni breytingar hafa orðið á menntun karla á árunum 2003-2015.

 

Yngra fólk og fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu hefur meiri menntun
Yngra fólk hefur almennt lokið meiri menntun en þeir sem eldri eru. Í aldurshópnum 30-49 ára höfðu 21,9% eingöngu lokið grunnmenntun og 44,7% lokið háskólamenntun árið 2015. Í aldurshópnum 65-74 ára höfðu hins vegar 44,7% eingöngu lokið grunnmenntun og 19,6% lokið háskólamenntun.

Mikill munur var á menntun íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar árið 2015. Á höfuðborgarsvæðinu höfðu 19,7% íbúa á aldrinum 25-64 ára eingöngu lokið grunnmenntun en 46,5% höfðu lokið háskólamenntun. Utan höfuðborgarsvæðisins höfðu 35,0% íbúa eingöngu lokið grunnmenntun og 25,5% lokið háskólamenntun.

Menntunarstaða er lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum
Hlutfall íbúa á aldrinum 25-64 ára, sem hefur eingöngu lokið grunnmenntun, er hærra á Íslandi en að meðaltali í OECD löndum, eða 25% á móti 23% innan OECD. Á hinn bóginn hafa fleiri íbúar á Íslandi lokið háskólanámi en að meðaltali innan OECD, eða 39% en 35% innan OECD.

Ef eingöngu er litið til Norðurlandanna hafa mun færri íbúar allra hinna Norðurlandanna eingöngu lokið grunnmenntun (13-20%) og fleiri hafa lokið háskólamenntun (40-43%) en á Íslandi, að Danmörku undanskilinni (37%).

Um gögnin
Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin byggir á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem skráðir eru í þjóðskrá og eru með lögheimili á Íslandi. Heildarúrtak ársins 2015 var 15.808 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 15.417 einstaklingar. Nothæf svör fengust frá 11.902 einstaklingum sem jafngildir 77,2% endanlegri svörun. Allar niðurstöður hafa verið vegnar eftir kyni og aldri.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.