FRÉTT MENNTUN 13. OKTÓBER 2017

Háskólamenntuðum landsmönnum á aldrinum 25–64 ára heldur áfram að fjölga en þeir voru rúm 40% í fyrra, alls 68.300. Þeim hefur fjölgað stöðugt frá árinu 2010 eða um 7,8 prósentustig. Þeir sem eingöngu hafa grunnmenntun voru 37.200 í fyrra eða 22% í þessum sama aldurshópi. Þeim fækkaði um 3,4 prósentustig frá árinu á undan.

 

Talsvert fleiri karlar en konur 25–64 ára hafa eingöngu starfs- og framhaldsmenntun (45% á móti 30%) og fjölgaði nokkuð jafnt milli ára. Nokkuð fleiri konur en karlar hafa hins vegar háskólamenntun í þessum sama aldurshópi (48% á móti 33%). Lítill munur er á kynjunum í þeim hópi landsmanna sem eingöngu hefur grunnmenntun, um 22% í hvorum hópi.

Atvinnuleysi er mest meðal þeirra sem lokið hafa starfs- og framhaldsmenntun
Atvinnulausum á aldrinum 25–64 ára fækkaði í fyrra óháð menntunarstöðu. Flestir þeirra höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun (2,8%) en minnst atvinnuleysi var hjá háskólamenntuðum (1,6%). Atvinnuleysi var 2,3% meðal þeirra sem lokið höfðu grunnmenntun.

Atvinnuþátttaka karla og kvenna á aldrinum 25–64 ára var mest meðal þeirra sem lokið höfðu háskólamenntun. Þannig voru liðlega 95% háskólamenntaðra á vinnumarkaði í fyrra, 91% þeirra sem voru með starfs- og framhaldsmenntun og 81% þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun.

 


Færri íbúar utan höfuðborgarsvæðis með háskólamenntun
Alls hafa 28,5% íbúa utan höfuðborgarsvæðisins á aldrinum 25–64 ára lokið háskólamenntun. Þetta er töluvert lægra hlutfall en hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins á sama aldursbili (47,3%). Flestir sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins hafa lokið starfs- og framhaldsmenntun, eða 38,8% (24.100), en 32,7% hafa einungis lokið grunnmenntun (20.200).

Fleiri konur en karlar á aldrinum 25–64 ára hafa háskólamenntun hvort heldur sem er innan eða utan höfuðborgarsvæðisins. Munurinn er þó meiri utan höfuðborgarsvæðisins en þar hafa 38,5% kvenna lokið háskólamenntun en 18,8% karla.


Um gögnin
Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin byggist á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem skráðir eru í þjóðskrá og hafa lögheimili á Íslandi. Heildarúrtak ársins 2016 var 15.783 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 15.319 einstaklingar. Nothæf svör fengust frá 11.220 einstaklingum sem jafngildir 73,2% endanlegri svörun. Allar niðurstöður hafa verið vegnar eftir kyni og aldri.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.