FRÉTT MENNTUN 05. SEPTEMBER 2014

Haustið 2004 hófu 4.830 nemar nám í dagskóla á framhaldsskólastigi á Íslandi. Fjórum árum síðar, árið 2008, höfðu 45% nýnemanna verið brautskráðir úr námi á framhaldsskólastigi sem var að minnsta kosti tvö ár að lengd. Þá höfðu tæp 28% nýnemanna hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé og sama hlutfall var enn í námi án þess að hafa brautskráðst.

Fleiri ljúka námi í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Þannig höfðu 49% þeirra nýnema, sem hófu nám í skólum á höfuðborgarsvæðinu haustið 2004 lokið námi árið 2008 en 37% þeirra sem hófu nám í skólum utan höfuðborgarsvæðisins. Fjórðungur nýnema á höfuðborgarsvæðinu hafði hætt námi án þess að útskrifast en tæpur þriðjungur nýnema í skólum utan höfuðborgarsvæðisins (sjá töflu).

Staða nýnema í dagskóla á framhaldsskólastigi árið 2004 fjórum, sex og sjö árum eftir innritun eftir staðsetningu skóla, %
      Fjöldi ára frá innritun    
Höfuðborgarsvæði Utan höfuðborgarsvæðis
4 ár  6 ár  7 ár 4 ár  6 ár  7 ár
Brautskráðir 49 62 65 37 51 55
Enn í námi 26 12 11 31 13 12
Brottfallnir 25 26 24 32 36 33
Alls 100 100 100 100 100 100

Brottfall hefur lítið breyst síðustu ár
Lítill munur er á brottfalli nýnema af framhaldsskólastigi á árunum 2000 til 2004. Fjórum árum eftir innritun höfðu rúmlega 28% nýnema haustsins 2000 hætt námi án þess að útskrifast en tæplega 28% nýnema haustsins 2004. Tölur yfir nýnema haustsins 1995 sýna hins vegar meira brottfall, eða 35% fjórum árum eftir að nám hófst. Þess ber þó að geta að árið 1997 var tekið upp nýtt flokkunarkerfi menntunar og eru tölur frá árinu 1995 ekki að fullu leyti samanburðarhæfar við tölur eftir árið 1997.

Hlutfallslega færri innflytjendur útskrifast úr framhaldsskóla en nemendur af íslenskum uppruna
Haustið 2004 hófu 175 innflytjendur nám í dagskóla á framhaldsskólastigi. Fjórum árum síðar höfðu 26% þeirra útskrifast. Tveimur árum seinna hafði brautskráningarhlutfallið hækkað í 31%.

Brautskráningarhlutfall er hæst meðal nemenda fæddra erlendis af íslenskum uppruna en 62% þeirra sem hófu nám haustið 2004 höfðu útskrifast árið 2008. Ef litið er á nýnema haustið 2004 án erlends bakgrunns höfðu 45% útskrifast af framhaldsskólastigi fjórum árum síðar.

Konur eru líklegri en karlar til að útskrifast úr námi, óháð uppruna.

 


Færri nemendur ljúka framhaldsskólastigi á réttum tíma á Íslandi en í flestum OECD löndum
Í þeim 25 OECD löndum, sem svöruðu könnun um brautskráningarhlutfall og brottfall af framhaldsskólastigi, sem framkvæmd var árið 2012, höfðu Ísland og Lúxemborg lægsta hlutfall nýnema sem höfðu brautskráðst á réttum tíma. Í Lúxemborg höfðu 45% nýnema á framhaldsskólastigi haustið 2004 lokið námi á tilskildum tíma, eins og á Íslandi, en þar í landi er algengt að nemendur þurfi að endurtaka námsár í skóla. Tveimur árum síðar höfðu 74% nýnema í Lúxemborg brautskráðst en 58% íslenskra, og er Ísland þar í neðsta sæti þeirra 14 OECD ríkja sem höfðu sambærilegar tölur.

Að meðaltali höfðu 70% nýnema á framhaldsskólastigi í OECD löndunum brautskráðst á réttum tíma. Tveimur árum eftir að námi átti að vera lokið hafði hlutfall brautskráðra hækkað í 85%. Þess skal getið að framhaldsskólanám er mislangt í OECD ríkjunum. Algengt er að það sé 3 ár en í sumum löndum er það 2 ár en í öðrum 4 ár, eins og á Íslandi. Þá eru nemendur á Íslandi eldri en í flestum öðrum OECD löndum þegar þeir ljúka framhaldsskóla á réttum tíma.

 


Í öllum OECD löndum með sambærileg gögn hefur hærra hlutfall kvenna en karla lokið framhaldsskólastigi á réttum tíma. Að meðaltali luku 74% kvenna og 66% karla námi á réttum tíma. Á Íslandi er meiri munur á milli kynjanna, þar sem 52% kvenna og 38% karla brautskráðust á réttum tíma.

Hvað er brottfall?
Brottfall nemenda úr skóla má skilgreina á marga vegu. Hér er sú aðferð valin að fylgja eftir nemendum sem töldust til nýnema að hausti og stunduðu nám í dagskóla. Þessi aðferð hefur verið valin af OECD og því fást sambærilegar tölur á milli OECD landanna. Heimild fyrir tölum um brottfall í öðrum OECD ríkjum en Íslandi er rit OECD: Education at a Glance. OECD Indicators 2012.

Um gögnin
Nýnemar eru þeir nemendur sem voru skráðir í nám á framhaldsskólastigi í fyrsta skipti að hausti, miðað við upphaf nemendaskrár Hagstofu Íslands árið 1975. Allir dagskólanemendur eru teknir með, óháð aldri. Til brautskráðra teljast þeir sem hafa verið brautskráðir úr námi á framhaldsskólastigi sem er a.m.k. tvö ár að lengd. Margir nemendur halda síðan áfram námi og ljúka stúdentsprófi eða lengra starfsnámi. Til nemenda sem enn eru í námi teljast nemendur í dagskóla, kvöldskóla og í fjarnámi á framhaldsskólastigi og háskólastigi á Íslandi að hausti sem ekki hafa útskrifast.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.