Háskólamenntuðum landsmönnum á aldrinum 25–64 ára hefur fjölgað um rúm 16 prósentustig frá árinu 2003 en tæp 43% íbúa í þessum aldurshópi höfðu lokið háskólamenntun árið 2022, alls 84.700. Á sama tíma fækkaði þeim sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun um rúmlega 13 prósentustig og voru þeir um 43.200 árið 2022, tæplega 22% íbúa á aldrinum 25–64 ára. Hægari breytingar voru á fjölda þeirra sem mest höfðu lokið menntun á framhaldsskóla- og viðbótarstigi en fjöldinn hefur verið á bilinu 35–39% íbúa á aldrinum 25–64 ára frá árinu 2003.
Konum með háskólamenntun fjölgar hraðar en körlum
Konum með háskólamenntun á aldrinum 25–64 ára hefur fjölgað hraðar en körlum frá árinu 2003. Á þessum árum hefur konum með háskólamenntun fjölgað um tæp 25 prósentustig og var meira en helmingur kvenna á aldrinum 25–64 ára með háskólamenntun árið 2022. Á sama tímabili hefur körlum með háskólamenntun fjölgað um tæplega 9 prósentustig og voru tæplega 33% karla á aldrinum 25–64 ára með háskólamenntun árið 2022.
Töluverður munur á menntunarstöðu eftir búsetu
Menntunarstig íbúa á landsbyggðinni var talsvert lægra en íbúa á höfuðborgarsvæðinu árið 2022. Rúmlega helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 25-64 ára hafði menntun á háskólastigi en tæp 30% íbúa utan höfuðborgarsvæðisins. Tæplega 32% íbúa á landsbyggðinni á aldrinum 25-64 ára höfðu eingöngu lokið grunnmenntun og var það tvöfalt hærra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hlutfallið var tæp 16%.
Atvinnuþátttaka eykst með meiri menntun
Atvinnuþátttaka í aldurshópnum 25–64 ára var mest á meðal háskólamenntaðra einstaklinga, tæplega 94% árið 2022. Á meðal þeirra sem höfðu menntun á viðbótarstigi var atvinnuþátttaka tæp 93% og tæp 90% á meðal þeirra sem höfð mest lokið starfsnámi á framhaldsskólastigi. Minnst var atvinnuþátttaka á meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, rúmlega 78%.
Um gögnin
Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin byggist á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem hafa lögheimili á Íslandi. Í úrtak ársins 2022 völdust af handahófi 19.995 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða reyndust búsettir erlendis var nettóúrtakið 19.597 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 11.482 einstaklingum sem jafngildir 58,6% svarhlutfalli. Allar niðurstöður hafa verið vegnar eftir kyni og aldri.