FRÉTT MENNTUN 08. ÁGÚST 2014

Aldrei áður hafa fleiri stúdentar verið brautskráðir á einu skólaári
Alls útskrifuðust 3.574 stúdentar úr 35 skólum skólaárið 2011-2012; 342 fleiri en skólaárið áður (10,6% fjölgun). Ekki hafa áður brautskráðst fleiri stúdentar á einu skólaári og aldrei áður hafa svo margir skólar brautskráð stúdenta. Hlutfall stúdenta af fjölda tvítugra hækkaði umtalsvert frá fyrra ári, úr 69,2% í 74,1%, og hefur aldrei verið hærra. Konur voru 59,1% nýstúdenta. Brautskráningum með stúdentspróf að loknu starfsnámi hefur fjölgað ár frá ári undanfarin ár, og voru 742 skólaárið 2011-2012.
Fleiri stúdentar 19 ára og yngri voru brautskráðir en undanfarin ár, þessi aldurshópur var 9,8% af öllum stúdentum 2011-2012. Á árunum 2004-2009 voru 19 ára og yngri 5-6% stúdenta en 8,0% stúdenta 2010-2011. Konur eru líklegri en karlar til að útskrifast 19 ára eða yngri, því 11,6% kvenstúdenta 2011-2012 tilheyrðu þessum aldursflokki en 7,3% karlstúdenta.

Færri brautskráðust með sveinspróf en fleiri með iðnmeistarapróf
Alls brautskráðust 6.118 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.761 próf skólaárið 2011-2012. Það er fjölgun um 534 nemendur frá fyrra ári, eða 9,6%. Fjölgunina má aðallega rekja til fleiri brautskráninga með ýmis styttri próf af framhaldsskólastigi og til fjölgunar stúdenta. Stúlkur voru fleiri en piltar meðal brautskráðra, eða 54,5%. Sveinspróf voru 518 og fækkaði um 42 (-7,5%) frá fyrra ári. Karlar voru 73,7% þeirra sem luku sveinsprófi. Brautskráningum með sveinspróf hefur fækkað um 218 (29,6%) frá skólaárinu 2008-2009.
Brautskráningar með iðnmeistarapróf voru 213, 25 fleiri en árið á undan (13,3% fjölgun). Karlar voru 70,9% meistara og rúmlega einn af hverjum fjórum iðnmeisturum voru 40 ára eða eldri þegar þeir brautskráðust.

Færri nemendur brautskráðir af háskólastigi
Skólaárið 2011-2012 útskrifuðust 4.079 nemendur með 4.108 próf á háskóla- og doktorsstigi og voru konur 64,4% þeirra sem luku háskólaprófi. Brautskráðum háskólanemendum fækkaði um 225 (-5,2%) frá fyrra ári. Fækkunin kemur svo til eingöngu fram í brautskráningum á sviði menntunar, þar sem 451 færri brautskráðust en árið áður. Að líkindum má rekja þessa fækkun til breytinga á skipulagi kennaranáms.
Alls voru 2.594 brautskráningar með fyrstu háskólagráðu, 140 fleiri en árið áður (5,7%). Nemendum sem luku diplómanámi að lokinni Bachelorgráðu fækkaði um 54,2% og voru 247, en nemendur í viðbótarnámi til kennsluréttinda hafa verið fjölmennastir í þessum hópi. Þá luku 1.137 meistaragráðu, 56  (-4,7%) færri en árið áður.
Brautskráðir doktorar voru 41 á skólaárinu, 21 karl og 20 konur, þar af voru fimm karlanna og tólf kvennanna 40 ára eða eldri þegar þau luku doktorsnámi. Doktorum fækkaði um 7 (-14,6%) frá árinu áður.

Tæplega 70% nýnema í háskólum hafa útskrifast tíu árum síðar
Haustið 2002 voru nýnemar á háskólastigi 3.589 talsins. Tíu árum síðar, árið 2012, höfðu 69,1% þessara nemenda útskrifast af háskólastigi; 61,1% karla og 73,7% kvenna.

Talnaefni:
Framhaldsskólar
Háskólar


 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.