FRÉTT MENNTUN 23. NÓVEMBER 2016

Hlutfall nemenda á framhaldsskólaskólastigi, sem læra erlend tungumál, var 72,2% skólaárið 2014–2015 og hefur haldist svipað undanfarin þrjú ár en var tæplega 74% skólaárið 2010–2012. Nemendum í dönsku og þýsku fjölgaði lítillega frá fyrra ári en spænska er áfram mest lærða þriðja tungumálið í framhaldsskólum á eftir ensku og dönsku. Þetta eru niðurstöður úr gagnasöfnun Hagstofu Íslands um nemendur á framhaldsskólastigi sem lærðu erlend tungumál skólaárið 2014–2015.

Fleiri stúlkur en piltar lærðu mörg tungumál
Skólaárið 2014–2015 bar svo við að fleiri piltar en stúlkur lærðu erlend tungumál í framhaldsskólum landsins. Munurinn var þó óverulegur, eða aðeins 4 nemendur, og skýrist m.a. af því að tæplega 500 fleiri piltar en stúlkur voru skráðir í nám á framhaldsskólastigi haustið 2014. Þetta er í fyrsta skipti í mælingum Hagstofunnar sem fleiri piltar en stúlkur læra erlend tungumál.

Stúlkur sóttu hlutfallslega meira í tungumálanám en piltar. Alls lærðu 73,7% stúlkna og 70,8% pilta erlend tungumál skólaárið 2014–2015. Það var líka algengara meðal stúlkna að læra mörg tungumál enda voru þær mun fleiri en piltar á málabrautum framhaldsskóla.

Spænska þriðja algengasta erlenda málið
Nemendur í spænsku urðu í fyrsta skipti fleiri en nemendur í þýsku í framhaldsskólum skólaárið 2012–2013. Sú fjölgun hefur haldið áfram og skólaárið 2014–2015 lærði 4.231 nemandi spænsku, 3.990 þýsku og 1.664 frönsku. Flestir framhaldsskólanemendur lærðu ensku og voru þeir 17.400 skólaárið 2014–2015, eða um 60% framhaldsskólanema. Næstflestir nemendur lærðu dönsku, tæplega 7.200 talsins, enda eru þessi tvö tungumál skyldunámsgreinar fyrir flesta nemendur í framhaldsskólum. Nemendum í dönsku og þýsku fjölgaði lítillega frá fyrra ári.

Skólaárið 2014–2015 lögðu 138 nemendur stund á ítölsku, 66 nemendur lærðu sænsku og 42 norsku. Þá voru skráðir 77 nemar í japönsku og 7 nemendur í kínversku.

Færri nemendur læra mörg tungumál
Að meðaltali lærðu framhaldsskólanemendur 1,34 tungumál skólaárið 2014–2015, sem er sama hlutfall og skólaárið 2012-2013 og lítið eitt hærra en skólaárið 2013–2014, þegar það var 1,31. Meðalfjöldi tungumála var hæstur skólaárin 2004–2006, 1,47 tungumál. Ástæðan fyrir fækkuninni er aðallega sú að færri nemendur læra tvö eða fleiri tungumál á sama skólaári, sem fer saman við fækkun nemenda á málabraut undanfarin ár.

Um gögnin
Gögnum um tungumálanám nemenda í framhaldsskólum er safnað tvisvar á ári. Einungis eru taldir þeir nemendur framhaldsskóla í tungumálanámi á vormisseri sem einnig eru skráðir í nám á haustmisseri sama skólaár. Aðeins eru taldir þeir nemendur, sem læra tungumál viðkomandi skólaár. Upplýsinga er eingöngu aflað um nemendur í lifandi tungumálum og því eru ekki taldir nemendur í forngrísku, latínu né esperantó.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.