Skólaárið 2017–2018 lærðu 71,7% framhaldsskólanema að minnsta kosti eitt erlent tungumál, sem er svipað hlutfall og árið á undan. Hlutfallslega fækkaði nemendum í tungumálanámi hins vegar skólaárið 2018–2019, þegar 68,6% framhaldsskólanemenda lærðu að minnsta kosti eitt erlent tungumál. Hlutfall nemenda sem lærðu erlend tungumál var á bilinu 72–74% skólaárin 2003–2015.

Þegar fjöldatölur eru skoðaðar hefur nemendum sem læra erlend tungumál fækkað úr 19.342 skólaárið 2011–2012 í 14.750 skólaárið 2018–2019 en nemendum á framhaldsskólastigi fækkaði um 4.600 á tímabilinu. Í mörgum framhaldsskólum tók breytt skipulag námsbrauta til stúdentsprófs gildi haustið 2015, þar sem nám til stúdentsprófs var stytt. Þar með fækkaði áföngum í erlendum tungumálum sem nemendur þurfa að taka til stúdentsprófs og skýrir það að hluta til fækkun nemenda í tungumálanámi. Einnig hefur starfsnámsnemendum í tungumálanámi fækkað, þar sem breytingar á námsskrám hafa falið í sér að færri stunda nám í erlendum tungumálum.

Flestir læra tvö tungumál
Nemendur í framhaldsskólum lærðu að meðaltali 1,31 tungumál á ári tímabilið 2015-2018. Þetta meðaltal lækkaði í 1,24 skólaárið 2018-2019. Meðalfjöldi tungumála, sem framhaldsskólanemar lærðu, var hæstur skólaárin 2004-2006, eða 1,47 tungumál. Ástæðan fyrir fækkuninni er aðallega sú að færri nemendur læra nú tvö tungumál á sama skólaári en áður.

Af þeim nemendum sem skráðir eru í tungumálanám læra þó flestir ennþá tvö tungumál en sú tala fer lækkandi. Þannig lærðu um 32% allra nemenda tvö tungumál skólaárin 2016-2018 en tæp 28% skólaárið 2018-2019. Tæpur þriðjungur allra nema skólaárið 2018-2019, eða 31,4%, lærði ekkert erlent tungumál það ár.

Tungumálanám á framhaldsskólastigi 2006-2019, %

Stúlkur velja frekar spænsku en piltar þýsku
Á árunum 2017–2019 voru spænska og þýska þau tungumál sem flestir lærðu sem þriðja erlenda tungumálið líkt og fyrri ár. Skólaárið 2012–2013 lærðu í fyrsta skipti fleiri nemendur spænsku en þýsku og hefur sú staða haldist síðustu ár. Alls lærðu 3.686 nemendur spænsku skólaárið 2018–2019 en 3.189 lærðu þýsku. Stúlkur lærðu frekar spænsku, en rúmlega 2.200 stúlkur voru skráðar í spænskuáfanga skólaárið 2018–2019 og 1.650 í þýsku. Hjá piltum var þýska sýnu vinsælli en spænska, 1.539 piltar lærðu þýsku en 1.480 spænsku.

Nemendum fækkar í dönsku
Flestir framhaldsskólanemendur lærðu ensku og voru þeir 13.483 skólaárið 2017–2018 og 12.465 árið eftir. Næstflestir nemendur lærðu dönsku, 5.588 talsins skólaárið 2017–2018 og 5.252 skólaárið á eftir. Nemendum í dönsku hefur fækkað töluvert undanfarin ár eins og sjá má á mynd 2.

Nemendur í dönsku 2006-2019

Vinsældir japönskunáms í framhaldsskóla hafa aukist aftur en skólaárið 2018–2019 lærðu 98 nemendur japönsku, 37 piltar og 61 stúlka. Árin á undan lærðu um 60 nemendur japönsku. Flestir voru nemendur í japönskunámi skólaárið 2010-2011, eða 147 talsins.

Um gögnin
Gögnum um tungumálanám nemenda í framhaldsskólum er safnað tvisvar á ári. Einungis eru taldir þeir nemendur framhaldsskóla í tungumálanámi á vormisseri sem einnig voru skráðir í nám á haustmisseri sama skólaár. Upplýsinga er eingöngu aflað um nemendur í lifandi tungumálum og því eru ekki taldir nemendur í forngrísku, latínu eða esperantó.

Talnaefni