FRÉTT MENNTUN 25. SEPTEMBER 2007

Hagstofa Íslands, hefur í tilefni af degi tungumála í Evrópu 26. september, tekið saman yfirlit yfir fjölda nemenda í grunn- og framhaldsskólum sem lærðu erlend tungumál skólaárið 2006-2007.

Yngri nemendum sem læra ensku fjölgar verulega
Enska er fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólum og jafnframt það mál sem flestir grunnskólanemendur læra. Flestir grunnskólanemar hefja enskunám í 5. bekk og dönskunám í 7. bekk. Enskunemum hefur fjölgað ár frá ári og stunduðu 29.730 grunnskólabörn enskunám skólaárið 2006-2007. Aldrei áður hafa fleiri grunnskólabörn verið að læra ensku. Dönskunemum hefur hins vegar fækkað samhliða fækkun nemenda í elstu bekkjum grunnskólans og læra nú 18.106 nemendur grunnskólans dönsku. Alls völdu 158 nemendur sænsku og 125 nemendur norsku í stað dönsku.

Í nokkrum skólum hefst kennsla í erlendum tungumálum fyrr en kveðið er á um í aðalnámsskrá. Fleiri 6 ára nemendur læra nú ensku en nokkru sinni fyrr. Skólaárið 2006-2007 lærðu 1.879 nemendur í 1.-3. bekk ensku í grunnskólum landsins, sem er rúmlega 70% fjölgun frá fyrra skólaári, en þá lærðu 1.111 nemendur í 1.-3. bekk ensku.

Nemendum í spænsku heldur áfram að fjölga
Í mörgum grunnskólum landsins er nemendum boðið að læra þriðja erlenda tungumálið. Fram til skólaársins 2004-2005 lögðu flestir nemendur stund á nám í þýsku eða frönsku. Síðan þá hefur spænskan verið næstvinsælasta tungumálið á eftir þýsku. Skólaárið 2006-2007 völdu 633 nemendur þýsku en 530 spænsku Þar á eftir völdu 262 nemendur frönsku. Fjöldi nemenda í spænsku heldur áfram að aukast og nemendum í þýsku fjölgar einnig milli ára, eða um 7,7%. Er það viðsnúningur frá fyrri árum þegar þýskunemum fækkaði milli ára.

Samanburður við Norðurlöndin og OECD
Þann 18. september sl. kom út ritið Education at a Glance 2007 á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Þar eru m.a. birtar tölur frá skólaárinu 2004-2005 um hlutfall kennslustunda sem varið er í einstakar námsgreinar. Þegar skoðaðir eru tveir aldurshópar, annars vegar 9-11 ára nemendur og hins vegar 12-14 ára nemendur, kemur í ljós að hin Norðurlöndin verja hlutfallslega fleiri kennslustundum til tungumálakennslu 9-11 ára nemenda en Íslendingar. Á Íslandi er 4% kennslustunda á þessum aldri varið til tungumálakennslu, en 6-12% kennslustunda á hinum Norðurlöndunum. Meðaltalið innan OECD ríkjanna er 7%. Annað kemur í ljós þegar 12-14 ára hópurinn er skoðaður. Þá kenna Íslendingar bæði ensku og dönsku og verja 17% af heildarkennslutíma til kennslu í erlendum tungumálum, á meðan meðaltal OECD ríkja er 12%. Vert er að benda á að þetta eru tölur frá skólaárinu 2004-2005 og að frá þeim tíma hefur orðið töluverð aukning í enskukennslu í yngstu bekkjum grunnskólans hér á landi.

Rúmlega 17 þúsund framhaldsskólanemendur læra erlend tungumál
Skólaárið 2006-2007 lögðu 17.703 framhaldsskólanemar stund á nám í erlendu tungumáli eða 72,4% allra nemenda á þessu skólastigi. Árið á undan lærðu 17.307 nemendur erlend tungumál, en það voru 74,2% nemenda á framhaldsskólastigi. Nemendum í erlendum tungumálum hefur því fækkað hlutfallslega sem nemur 1,8 prósentustigi á milli ára.

Flestir framhaldsskólanemendur læra ensku, eða 15.039 nemendur skólaárið 2006-2007. Danska kemur næst á eftir en 8.676 nemendur stunduðu dönskunám þetta sama ár. Enska og danska eru skyldunámsgreinar hjá flestum framhaldsskólanemum. Þýska er þriðja algengasta erlenda tungumálið. Skólaárið 2006-2007 voru 4.701 nemendur skráðir í þýskunám en það voru 19,2% nemenda á framhaldsskólastigi. Spænska kemur næst á eftir þýsku en 3.144 nemendur lærðu spænsku, þ.e. 12,9% framhaldsskólanema. Frönsku lærðu 2.621 nemendur, eða 10,7% framhaldsskólanema.

Fleiri framhaldsskólanemar læra spænsku
Á milli skólaáranna 2005-2006 og 2006-2007 fækkaði nemendum hlutfallslega sem læra erlent tungumál að spænsku undanskilinni. Hlutfallslega fækkar nemendum í dönsku mest eða sem nemur 2 prósentustigum. Næst mest fækkar í þýsku eða um 1,7 prósentustig. Nemendum í þýsku í framhaldsskólum hefur fækkað jafnt og þétt hlutfallslega frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands haustið 1999 en á sama tíma hefur nemendum í spænsku fjölgað ár frá ári.


 

Kynbundinn munur í tungumálanámi hefur minnkað
Stúlkur hafa að jafnaði verið fleiri en piltar í hópi tungumálanemenda. Hlutfall pilta og stúlkna sem læra erlend tungumál í framhaldsskólum skólaárið 2006-2007 er nokkuð jafnt ef frá eru talin rómönsk mál. Hlutfallslega leggja 72,3% pilta og 72,5% stúlkna stund á tungumálanám. Lítið eitt fleiri piltar (20,3%) læra þýsku í framhaldsskólum en stúlkur (18,2%). Þegar kemur að námi í frönsku og spænsku snýst dæmið við. Veturinn 2006-2007 læra 14,3% stúlkna í framhaldsskólum frönsku en einungis 6,6% pilta. Svipað er uppi á teningnum þegar kemur að spænskunni en 16,3% stúlkna í framhaldskólum læra spænsku en einungis 8,9% pilta.


 

Um gögnin
Gögnum um tungumálanám nemenda grunnskóla er safnað einu sinni á ári fyrir allt skólaárið. Sú söfnun fer fram á vormisseri. Gögnum um nemendur framhaldsskóla var allt til ársins 2002 einungis safnað á haustin. Á skólaárinu 2002-2003 var gagnasöfnuninni breytt og gögnum þá safnað bæði frá skólum og beint úr nemendakerfinu INNU. Þá var einnig farið að safna gögnum vegna nemenda í tungumálanámi á vormisseri. Þó eru einungis taldir þeir nemendur í tungumálanámi á vormisseri sem eru skráðir í nám á haustmisseri sama skólaár. Upplýsinga er eingöngu aflað um nemendur í lifandi tungumálum og því eru ekki taldir nemendur í forngrísku, latínu né heldur esperantó.

Talnaefni
  Grunnskólar
  Framhaldsskólar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.