Yngri grunnskólanemendum sem læra ensku fjölgar
Enska er fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólanum og jafnframt það tungumál sem flestir grunnskólanemendur læra. Skólaárið 2008-2009 lærðu 33.974 börn ensku í grunnskólum og hefur þessi tala ekki verið hærri frá því Hagstofa Íslands hóf að birta tölur um fjölda barna sem leggja stund á erlend tungumál árið 1999. Lætur nærri að 78% grunnskólabarna læri ensku. Í sífellt fleiri grunnskólum hefst kennsla í erlendum tungumálum fyrr en kveðið er á um í aðalnámskrá grunnskóla. Síðastliðið skólaár voru 7.335 börn í 1.-4. bekk að læra ensku eða 44% barna á þessum aldri (6-9 ára). Fyrir fimm árum síðan, skólaárið 2003-2004, lærðu aðeins 484 börn í þessum bekkjum ensku, eða 2,8%.
Nemendur hefja nú flestir dönskunám í 7. bekk, eða við 12 ára aldur. Í mörgum skólum geta nemendur sem hafa kunnáttu í norsku eða sænsku valið þau tungumál í stað dönsku. Á síðastliðnu skólaári lærðu 230 börn sænsku frekar en dönsku og 94 börn lærðu norsku. Ekki hafa fleiri börn verið í sænskunámi síðan haustið 2001. Virðist sem norskunemum fari fækkandi og mælast þeir í fyrsta skipti innan við eitt hundrað.
Grunnskólanemendum sem læra þrjú tungumál fækkar
Undanfarin ár hefur nemendum sem læra spænsku fjölgað ár frá ári. Nú ber svo við að þeim fækkar í fyrsta skipti og voru þeir 455 síðastliðið skólaár, en voru 548 skólaárið á undan. Þetta er fækkun um 93 nemendur eða 17%. Nemendum í þýsku og frönsku fer líka fækkandi. Þýskunemum hefur fækkað ár frá ári frá því að þeir voru flestir skólaárið 2001-2002. Það ár lærðu 1.338 nemendur þýsku sem þriðja tungumál. Skólaárið 2008-2009 lærðu 397 grunnskólabörn þýsku. Svipuð þróun hefur átt sér stað meðal frönskunema. Skólaárið 2003-2004 lærðu 354 grunnskólanemendur frönsku en á síðastliðnu skólaári lærðu 196 börn frönsku í grunnskólum landsins.
Tæplega 19 þúsund framhaldsskólanemendur læra erlend tungumál
Skólaárið 2008-2009 lögðu 18.699 nemendur á framhaldsskólastigi stund á nám í erlendum tungumálum eða 73,1% nemenda á þessu skólastigi. Framhaldsskólanemendur sem læra erlend tungumál eru 585 fleiri en á síðasta skólaári og hlutfall þeirra af heildarfjölda nemenda á framhaldsskólastigi hefur hækkað um tæplega eitt prósentustig.
Spænskan í stöðugri sókn í framhaldsskólum
Flestir framhaldsskólanemendur læra ensku, eða 15.607, sem eru 61,0% framhaldsskólanemenda. Næstflestir eru nemendur í dönsku eða 9.132, 35,7% nemenda. Þessi tvö tungumál eru skyldunámsgreinar fyrir flesta nemendur í framhaldsskólum. Þýska er í þriðja sæti en skólaárið 2008-2009 voru 4.519 nemendur skráðir í þýskunám og eru það 17,7% framhaldskólanemenda. Spænska er fjórða algengasta erlenda tungumálið í framhaldsskólum með 4.052 nemendur, 15,8% nemenda. Franska er í fimmta sæti með 2.403 nemendur, 9,4% nemenda. Nemendum í þýsku og frönsku fækkar hlutfallslega á meðan nemendum í spænsku fjölgar á milli ára. Á undanförnum árum hefur nemendum í öllum helstu erlendu tungumálunum fækkað hlutfallslega nema í spænsku. Skólaárið 2002-2003 voru nemendur í spænsku 8,7% af heildarfjölda framhaldsskólanemenda og hefur því fjölgað um 7,1 prósentustig síðan þá.
Fleiri stúlkur læra tungumál í framhaldsskólum að undanskilinni þýsku
Fleiri stúlkur en piltar læra öll erlend mál í framhaldsskólum að þýsku undanskilinni. Hlutfall stúlkna er umtalsvert hærra en pilta meðal nemenda í þeim erlendu tungumálum sem telja má að séu valfrjáls í framhaldsskólum að þýsku undanskilinni. Þannig eru stúlkur 77,2% ítölskunema, 75,0% rússneskunema, 68,7% frönskunema og 64,8% nemenda í spænsku. Stúlkur eru 49,9% nemenda í þýsku en piltar eru 50,1% þessa hóps.
Um gögnin
Gögnum um tungumálanám nemenda grunnskóla er safnað einu sinni á ári fyrir allt skólaárið. Gögnum um nemendur framhaldsskóla var allt til ársins 2002 einungis safnað á haustin. Skólaárið 2002-2003 var að auki farið að safna gögnum um nemendur í tungumálanámi á vormisseri. Einungis eru taldir þeir nemendur í tungumálanámi á vormisseri sem einnig eru skráðir í nám á haustmisseri sama skólaár. Upplýsinga er eingöngu aflað um nemendur í lifandi tungumálum og því eru ekki taldir nemendur í forngrísku, latínu né esperantó.
Talnaefni
Grunnskólar
Framhaldsskólar