FRÉTT MENNTUN 24. SEPTEMBER 2010

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um fjölda nemenda í grunn- og framhaldsskólum sem lærðu erlend tungumál skólaárið 2009-2010. Tölurnar eru birtar í tilefni af degi tungumála í Evrópu 26. september.

Tölurnar sýna meðal annars að nemendum sem læra ensku í grunnskólum landsins fækkar í fyrsta skipti á milli ára. Framhaldsskólanemendum sem læra spænsku heldur áfram að fjölga en það hægir á fjölguninni miðað við fyrri ár.

Færri grunnskólanemendur læra erlend tungumál
Tölur Hagstofunnar undanfarin ár hafa sýnt stöðuga fjölgun grunnskólanema sem læra erlend tungumál. Hlutfallslega hefur fjölgunin verið mest meðal yngri nemenda, því sífellt fleiri yngri nemendur grunnskólans hafa lært ensku. Skólaárið 2009-2010 fækkaði hins vegar í fyrsta skipti nemendum sem læra ensku en þeim fækkar um 671 frá fyrra ári. Fækkunin skýrist að mestu leyti af fækkun nemenda í grunnskólum frá fyrra ári um 582 og breyttri aldursskiptingu nemenda. Skólaárið 2008-2009 lærðu 78,1% grunnskólanemenda ensku en hafði fækkað í 77,6% skólaárið 2009-2010. Nemendum í dönsku, sænsku, norsku og þýsku fækkaði einnig. Hins vegar fjölgaði nemendum í frönsku um 22,4% frá fyrra ári og spænskunemum fjölgaði um 5,9% en þessi tungumál eru yfirleitt kennd sem valgreinar í efstu bekkjum grunnskólans. Skólaárið 2009-2010 lærðu 482 nemendur spænsku, sem eru nokkru færri en árin 2006-2008, þegar yfir 500 grunnskólanemendur stunduðu spænskunám.

Að meðaltali lærðu grunnskólanemendur 1,22 erlend tungumál skólaárið 2009-2010 en voru 1,23 árið áður.

Færri grunnskólanemendur læra norsku og sænsku
Nemendur hefja nú flestir dönskunám í 7. bekk, eða við 12 ára aldur. Í mörgum skólum geta nemendur sem hafa kunnáttu í norsku eða sænsku valið þau tungumál í stað dönsku. Á síðastliðnu skólaári lærðu 126 börn sænsku frekar en dönsku og lætur nærri að það sé helmingsfækkun frá árinu á undan. Þá lærðu 89 börn norsku í stað dönsku og hefur sú tala ekki verið lægri í gögnum Hagstofunnar sem ná aftur til ársins 1999.

 

Ríflega 19 þúsund framhaldsskólanemendur læra erlend tungumál
Skólaárið 2009-2010 lögðu 19.357 nemendur á framhaldsskólastigi stund á nám í erlendum tungumálum eða 73,4% nemenda á þessu skólastigi. Þetta er svipað hlutfall og undanfarin ár en skólaárið 2008-2009 voru 73,1% framhaldsskólanema skráðir til náms í einhverju erlendu tungumáli.

Að meðaltali lærðu framhaldsskólanemendur 1,39 tungumál skólaárið 2009-2010 en voru 1,41 árið áður.

Dregur úr fjölgun nemenda í spænsku í framhaldsskólum
Flestir framhaldsskólanemendur læra ensku eða 16.071, sem eru 61,0% nemenda. Næstflestir eru nemendur í dönsku eða 9.182; 34,8% nemenda. Þessi tungumál eru skyldunámsgreinar fyrir flesta nemendur í framhaldsskólum. Þýska er í þriðja sæti en skólaárið 2009-2010 voru 4.589 nemendur skráðir í þýskunám; 17,4% framhaldskólanemenda. Spænska er fjórða algengasta erlenda tungumálið í framhaldsskólum með 4.200 nemendur, 15,9% nemenda. Franska er í fimmta sæti með 2.333 nemendur, 8,8% nemenda. Á undanförnum árum hefur spænska sótt talsvert í sig veðrið á sama tíma og kennsla hefur dregist saman í þýsku og frönsku. Þó fjölgar nemendum í þýsku um 70 frá síðasta skólaári en hafði fækkað um tæplega 600 frá skólaárinu 2002-2003. Þótt nemendur í spænsku séu 148 fleiri skólaárið 2009-2010 en árið á undan hefur dregið úr fjölgun í spænsku en á árunum 2002-2008 meira en tvöfaldaðist fjöldi nemenda í spænsku.

Nemendum sem læra japönsku í framhaldsskólum hefur fjölgað verulega. Alls stunduðu 114 nemendur japönskunám skólaárið 2009-2010 en voru 43 árið á undan. Þá lærðu 415 nemendur íslensku sem erlent mál í framhaldsskólum skólaárið 2009-2010.

 

Tungumálanám er vinsælla meðal stúlkna en pilta í framhaldsskólum
Stúlkur sækja frekar í tungumálanám í framhaldsskólunum en piltar. Alls læra 73,9% stúlkna og 72,9% pilta tungumál í framhaldsskólum. Hlutfall kynjanna er nokkuð jafnt í þeim tungumálum sem eru skyldugreinar samkvæmt námsskrá, þ.e. í ensku og dönsku. Fleiri stúlkur en piltar læra erlend mál önnur en þýsku. Stúlkur eru 77,4% ítölskunema, 69,0% frönskunema og 63,6% nemenda í rússnesku. Þá eru stúlkur 63,0% nemenda í spænsku, 54,4% nemenda í japönsku og 49,4% nemenda í þýsku.

 

Um gögnin
Gögnum um tungumálanám nemenda grunnskóla er safnað einu sinni á ári fyrir allt skólaárið. Gögnum um nemendur framhaldsskóla var allt til ársins 2002 einungis safnað á haustin. Skólaárið 2002-2003 var að auki farið að safna gögnum um nemendur í tungumálanámi á vormisseri. Einungis eru taldir þeir nemendur í tungumálanámi á vormisseri sem einnig eru skráðir í nám á haustmisseri sama skólaár. Upplýsinga er eingöngu aflað um nemendur í lifandi tungumálum og því eru ekki taldir nemendur í forngrísku, latínu né esperantó.

Talnaefni
    Grunnskólar
    Framhaldsskólar

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.