FRÉTT MENNTUN 24. SEPTEMBER 2004

Hagstofa Íslands hefur tekið saman yfirlit yfir fjölda nemenda í grunn- og framhaldsskólum sem læra erlend tungumál. Tölur þessar, sem teknar eru saman í tilefni af degi tungumála í Evrópu 26. september, eiga við um nemendur skólaárið 2002-2003.

Flestir grunnskólanemendur læra ensku
Eftir breytingar á aðalnámsskrá grunnskóla árið 1999 er enska fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólunum og jafnframt það mál sem flestir grunnskólanemendur læra. Rúmlega 27 þúsund grunnskólanemendur læra ensku og tæplega 18 þúsund læra dönsku. Alls velja 225 nemendur sænsku og 110 nemendur norsku í stað dönsku. Í nokkrum skólum hefst kennsla í erlendum tungumálum fyrr en miðað er við í aðalnámsskrá. Þannig læra á fimmta tug nemenda í 1. bekk ensku, 5 læra dönsku og 5 sænsku.
       Þýska er algengasta þriðja erlenda tungumálið í grunnskólunum en síðan koma franska og spænska. Áætlað er að rúmlega 1.500 (1.523) grunnskólanemendur hafi lært þrjú erlend tungumál skólaárið 2002-2003.

Tæplega 70% íslenskra framhaldsskólanema læra erlend tungumál
Skólaárið 2002-2003 lögðu 14.696 framhaldsskólanemar stund á nám í einhverju erlendu tungumáli eða 68,8% nemenda, 64,6% drengja og 72,6% stúlkna. Nemendum í erlendum tungumálum hefur fækkað lítillega frá árinu 1999, þegar Hagstofa Íslands safnaði þessum upplýsingum fyrst, en þá stunduðu 70,3% framhaldsskólanema nám í erlendum tungumálum.

Spænska sækir á í framhaldsskólunum
Flestir framhaldsskólanemendur læra ensku, eða rúmlega 12 þúsund (12.333) skólaárið 2002-2003. Danska kemur þar næst á eftir en rúmlega 7 þúsund (7.345) nemendur stunduðu dönskunám þetta sama ár. Þessi tungumál eru skyldunámsgreinar hjá flestum framhaldsskólanemum.
       Þýska er þriðja algengasta erlenda tungumálið en skólaárið 2002-2003 voru rúmlega 5 þúsund (5.116) nemendur skráðir í þýskunám, 23,9% nemenda. Franska kemur næst á eftir þýsku en 2.407 nemendur lærðu frönsku, 11,3% nemenda. Þýsku- og frönskunemum hefur fækkað lítillega frá haustinu 1999 þegar 26,7% framhaldsskólanemenda lærðu þýsku og 12,5% lærðu frönsku. Hins vegar sækir spænska á og völdu 1.855 nemendur spænsku þetta skólaár, 8,7% framhaldsskólanema; um tvöfalt fleiri en haustið 1999, þegar 4,4% framhaldsskólanema stunduðu spænskunám. Athygli vekur að mikill kynjamunur kemur fram í rómönskum málum, þar sem mun fleiri stúlkur læra rómönsk mál en piltar. Þannig eru stúlkur yfir 70% nemenda í frönsku og spænsku, og meira en 80% nemenda í ítölsku.

Um gögnin
Í grunnskólum er tölum safnað einu sinni á ári fyrir allt skólaárið, á vorin. Í framhaldsskólum á Íslandi er í tölum fyrir skólaárið 2002-2003 miðað við fjölda nemenda um miðjan október og í byrjun mars. Í eldri tölum er aðeins miðað við nemendur á haustmisseri. Aðeins er safnað upplýsingum um nemendur í erlendum tungumálum sem teljast "lifandi". Nemendur sem stunda nám í latínu, forn-grísku eða esperantó eru því ekki taldir með.

Talnaefni:
   Grunnskólar
   Framhaldsskólar

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.