Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 42.365 haustið 2011 og hafa ekki verið færri síðan árið 1997. Grunnskólanemendum fækkaði um 174 frá fyrra ári, eða 0,4%. Grunnskólanemendur á Íslandi voru flestir haustið 2003, 44.809. Auk þess stunda á yfirstandandi skólaári 138 börn nám í 5 ára bekk. Þeir nemendur hafa aldrei verið fleiri frá því að gagnasöfnun Hagstofunnar hófst haustið 1997. Þessar tölur koma úr gagnasafni Hagstofu Íslands, sem safnar upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.
Nemendum á hvert stöðugildi kennara fjölgar
Fjöldi nemenda á hvern kennara fór stöðugt lækkandi frá því að vera 11,4 nemendur á hvern kennara árið 1998 í það að vera 9,1 nemandi á kennara haustið 2008. Frá þeim tíma hefur þetta hlutfall farið hækkandi og eru 9,6 nemendur á hvern kennara haustið 2011. Það er svipað hlutfall og árið 2006.
Sé þetta hlutfall skoðað út frá stöðugildum kennara, voru 13,3 nemendur að baki hverju stöðugildi kennara árið 1998. Með árunum hefur þetta hlutfall farið lækkandi allt til haustsins 2008 er 9,3 nemendur voru skráðir á hvert stöðugildi kennara. Haustið 2009 hækkaði þetta hlutfall í fyrsta skipti í mælingum Hagstofunnar og hefur farið hækkandi síðan. Haustið 2011 eru 10,0 nemendur á hvert stöðugildi kennara.
Nemendum í 5 ára bekk fjölgar
Nemendum sem stunda nám í 5 ára bekk fjölgar aftur og hafa ekki verið fleiri nemendur skráðir í 5 ára bekk frá árinu 1998. Skólaárið 2011-2012 eru 138 nemendur í 5 ára bekk, sem flestir eru nemendur í tveimur einkareknum skólum, Skóla Ísaks Jónssonar og Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Stúlkur eru 53,6% 5 ára nemenda og þegar skoðuð eru gögn frá fyrri árum er hlutfall stúlkna oftar hærra (46-65%) en hlutfall drengja (35-54%).
Grunnskólanemendum með erlent ríkisfang fer fjölgandi
Haustið 2006 hóf Hagstofan að birta gögn um ríkisfang grunnskólanema. Á þessum 5 árum hefur erlendum nemendum fjölgað um 393 og eru nú 1.373 talsins. Árið 2006 voru þessir nemendur 2,2% af grunnskólanemendum en eru orðnir 3,2% allra grunnskólanemenda haustið 2011. Fjölmennastir eru nemendur með pólskt ríkisfang (679) og nemendur frá Litháen (117). Að sama skapi hefur nemendum sem skráðir eru með erlent tungumál að móðurmáli fjölgað um 99 frá síðasta skólaári og hafa 5,7% grunnskólanema nú erlent móðurmál. Þar er fjölmennasti hópurinn nemendur sem hafa pólsku að móðurmáli (787), filippseysk móðurmál (241), ensku (182), tælensku (137) og lithásku (116).
Nemendum í einkareknum grunnskólum fjölgar
Alls starfar 171 grunnskóli á landinu, sem er fækkun um einn skóla frá fyrra ári. Grunnskólum fer fækkandi vegna sameiningar og hefur fækkað um 25 skóla frá árinu 1998. Einkaskólarnir eru 10 talsins með 923 nemendur og eru þá 5 ára börn undanskilin. Ekki hafa áður verið fleiri nemendur í einkareknum grunnskólum á Íslandi frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands. Í sérskólum, sem eru þrír talsins, stunda 138 nemendur nám.
Fjölmennasti grunnskóli landsins er Álfhólsskóli (713 nemendur) í Kópavogi sem varð til með sameiningu Digranesskóla og Hjallaskóla fyrir ári síðan. Aðrir fjölmennir skólar eru Varmárskóli (686), Hraunvallaskóli (681), Lágafellsskóli (678) og Árbæjarskóli (670). Má því segja að fjölmennustu grunnskólarnir séu í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Fámennasti grunnskólinn er Finnbogastaðaskóli á Ströndum þar sem 4 nemendur stunda nám.