FRÉTT MENNTUN 28. JÚNÍ 2016

Nemendum ofan grunnskóla fækkaði um 3,4% frá hausti 2013
Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 43.924 haustið 2014 og fækkaði um 1.533 nemendur frá fyrra ári, eða 3,4%, mest vegna fækkunar nemenda á háskólastigi. Skólasókn nemenda (hlutfall af aldurshópi) á háskólastigi var minni en haustið 2013 í öllum árgöngum 20-29 ára að undanskildum 23 ára hópnum. Alls sóttu 19.911 karlar nám og 24.013 konur. Körlum við nám fækkaði um 520 frá fyrra ári (2,5%) en konum um 1.013 (4,0%).

Á framhaldsskólastigi stunduðu 24.104 nemendur nám og fækkaði um 2,4% frá fyrra ári. Á viðbótarstigi voru 880 nemendur og fjölgaði um 1,4%. Á háskólastigi í heild voru 18.940 nemendur og fækkaði um 4,8% frá haustinu 2013. Nemendum í námi til doktorsgráðu hefur fjölgað ár frá ári frá 2001, að undanskildum árunum 2010-2011, þegar þeim fækkaði um 5,4%. Doktorsnemar voru 519 haustið 2014 og hafa aldrei verið fleiri. Þeim fjölgaði um 28 (5,7%) frá hausti 2013. Hins vegar fækkaði nemendum í námi til meistaragráðu um 342 (7,4%) og voru 4.285 haustið 2014. Nemendum í námi til fyrstu háskólagráðu og í námi til grunndiplóma fækkaði einnig.

Skólasókn er minnst meðal innflytjenda
Alls sóttu 95,4% 16 ára framhaldsskóla haustið 2014, 96,3% stúlkna og 94,5% drengja. Þá sóttu 81,3% 18 ára nemenda skóla, fleiri stúlkur en drengir. Helmingur 20 ára nemenda sótti skóla, og hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan árið 2000. Hugsanleg skýring er að stytting náms til stúdentsprófs hafi leitt til þess að fleiri tvítugir nemendur hafi lokið stúdentsprófi við 19 ára aldur. Hlutfallslega flestir 16 ára unglingar sóttu skóla á Norðurlandi vestra eða 100%, en fæstir á Vestfjörðum, 92,8%.

Þegar skólasókn 16 ára var skoðuð eftir bakgrunni nemenda reyndist hún vera minnst meðal innflytjenda en 81,6% þeirra sóttu skóla haustið 2014 og 55,0% voru í skóla við 18 ára aldur. Skólasókn innflytjenda við 18 ára aldur hefur fallið síðustu tvö ár og kann ástæðan að vera sú að þessir nemendur hafi þegar lokið námi á framhaldsskólastigi, því mun hærra hlutfall 17 ára innflytjenda er enn í skóla. Annar möguleiki er sá að þessir 18 ára nemendur séu hættir námi, a.m.k. tímabundið. Til innflytjenda teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna. Skiptinemar, sem koma til ársdvalar á Íslandi, teljast með innflytjendum í þessum tölum.

Allir 16 ára íbúar af annarri kynslóð innflytjenda sóttu skóla en hlutfallið í þessum hópi hafði lækkað niður í 93,8% við 18 ára aldur. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru þeir sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Þess skal getið, að aðeins 15-27 nemendur á þessum aldri tilheyra annarri kynslóð innflytjenda svo hver einstaklingur vegur þungt í tölunum.

Rúmlega einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi í starfsnámi
Rúmlega einn af hverjum þremur (34,7%) nemendum á framhaldsskólastigi var í starfsnámi haustið 2014 en 65,3% stunduðu nám á bóknámsbrautum. Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur hækkað lítillega síðustu tvö ár, frá því það var lægst 33,2% haustið 2012. Hlutfall nemenda í starfsnámi var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 40,7% á móti 28,5% hjá konum.

 

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri, lögheimili og uppruna ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum flokki. Nemendur eru flokkaðir eftir uppruna samkvæmt innflytjendagrunni Hagstofu Íslands.

Talnaefni
  Yfirlit
  Framhaldsskólastig
  Háskólastig

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.