Nemendum fjölgaði á viðbótarstigi og doktorsstigi
Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 41.598 haustið 2017, sem er svipaður fjöldi og árið áður. Nemendum fækkaði á framhaldsskólastigi en nemendum sem sóttu nám á viðbótarstigi og doktorsstigi fjölgaði töluvert. Á viðbótarstigi er nám sem bætist ofan á nám á framhaldsskólastigi en er ekki á háskólastigi.

Á framhaldsskólastigi stunduðu 22.530 nemendur nám og fækkaði um 0,3% frá hausti 2016. Karlar voru í meirihluta nemenda, eða 51,3%. Á háskólastigi í heild voru 17.892 nemendur sem er fækkun um 0,8% frá fyrra ári. Konur voru 63,5% háskólanemenda. Nemendum á doktorsstigi fjölgaði um tæp 36% frá hausti 2016 og voru 637 talsins haustið 2017. Svipaða sögu er að segja um þá sem stunduðu nám á viðbótarstigi en þeim fjölgaði um rúm 20% og voru 1.176 haustið 2017.

Þriðji hver nemandi í doktorsnámi hefur erlent ríkisfang
Haustið 2017 var um þriðjungur doktorsnema með erlent ríkisfang, 213 nemendur. Fjöldi erlendra doktorsnema hefur tvöfaldast frá árinu 2011 þegar þeir voru 108 talsins. Íslenskir doktorsnemar voru 424 en 114 voru frá öðrum Evrópulöndum en Norðurlöndunum, 44 frá Asíu, 26 frá Ameríku og 18 frá Norðurlöndunum. Doktorsnemum fjölgaði á öllum almennum námssviðum frá fyrra ári.

Á viðbótarstigi fjölgaði nemum aðallega í námi til löggildingar fasteigna- og skipasala.

Háskólanemum fækkar í raunvísindum og verkfræðigreinum
Langflestir háskóla- og doktorsnemar sóttu nám á sviði félagsvísinda, viðskipta og lögfræði haustið 2017, eða 6.207 nemendur. Næstflestir nemendur voru á sviði heilbrigðis og velferðar, 2.657. Fjöldi nemenda á sviði raunvísinda, stærðfræði og tölvunarfræði náði hámarki árið 2013 þegar 2.248 nemendur stunduðu nám á því sviði en nemendum hefur fækkað og voru 2.057 haustið 2017. Nemendum á sviði verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerðar hefur einnig fækkað frá árinu 2013, úr 1.797 í 1.634. Fækkunin er þó aðallega á meðal karla en þeim hefur fækkað um tæp 15% frá árinu 2013 og voru 1.021 haustið 2017. Konum á sviðinu hefur aftur á móti fjölgað um tæp 3% frá 2013 og voru þær 613 haustið 2017.

Á háskóla- og doktorsstigi voru konur fleiri en karlar á öllum sviðum menntunar nema á sviði raunvísinda, stærðfræði og tölvunarfræði sem og í verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð. Hlutfallslega voru konur flestar á sviði heilbrigðis og velferðar en þar voru þær 84,6% nemenda. Á sviði verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerðar voru konur hlutfallslega fæstar eða 37,5% nemenda.

Hærra hlutfall 16 ára í námi
Skólasókn, þ.e. hlutfall nemenda af aldurshópi 16 ára, var 95,0% í skólum ofan grunnskóla haustið 2017 sem er lítið eitt meira en ári áður þegar skólasókn var 94,7%, en minni en árin 2011–2015 þegar hún fór hæst í 95,5%. Skólasókn haustið 2017 var 94,8% hjá drengjum en 95,1% hjá stúlkum.

Skólasókn haustið 2017 var minni en haustið 2016 hjá 17 og 19 ára unglingum en fleiri 18 og 20 ára ungmenni sóttu skóla en ári áður.

Skólasókn kvenna var meiri en karla í öllum árgöngum 16–29 ára að 20 ára nemendum undanskildum og einnig meðal háskólanemenda 30 ára og eldri. Ef eingöngu er litið á nemendur á framhaldsskólastigi voru karlar hlutfallslega fleiri en konur á aldrinum 20–24 ára.

Tæplega einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi í starfsnámi
Tæplega einn af hverjum þremur nemendum á framhaldsskólastigi var í starfsnámi haustið 2017 sem er smávægileg fækkun frá fyrra ári en 68,6% nemenda stunduðu nám á bóknámsbrautum. Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur lítið breyst síðastliðinn áratug en var 36–38% á árunum 2000–2005. Hlutfall nema í starfsnámi haustið 2017 var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 38,8% á móti 23,5% hjá konum.

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri, lögheimili og ríkisfangi ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum flokki.

Talnaefni