FRÉTT MENNTUN 03. SEPTEMBER 2025

Nemendur á skólastigum fyrir ofan grunnskóla á Íslandi voru 44.758 haustið 2024 og hafði fjölgað um 1.312 frá fyrra ári eða um 3,0%. Nemendum fjölgaði á öllum skólastigum nema doktorsstigi þar sem nemendum fækkaði um 52. Á framhaldsskólastigi fjölgaði nemendum um 227 (1,0%), um 29 (1,9%) á viðbótarstigi og um 1.108 (5,8%) á háskólastigi neðan doktorsstigs. Þetta er viðsnúningur frá árinu áður þar sem nemendum fækkaði á öllum skólastigum nema viðbótarstigi. Á viðbótarstigi er nám sem bætist ofan á nám á framhaldsskólastigi en er ekki á háskólastigi.

Fleiri konur en karlar stunda nám ofan grunnskóla
Alls sóttu rúmlega 20.300 karlar nám og rúmlega 24.400 konur. Körlum við nám fjölgaði um 478 frá fyrra ári (2,4%) og konum um 834 (3,5%). Karlar voru 53% nemenda á framhaldsskólastigi, 77% á viðbótarstigi og 35% nemenda á háskóla- og doktorsstigi.

Tæplega 95% 16 ára nemenda sóttu nám á framhaldsskólastigi
Alls voru 94,7% 16 ára nemenda skráðir í nám á framhaldsskólastigi haustið 2024 en hlutfallið var 94,8% haustið 2023. Árin 2019-2022 var hlutfall 16 ára í framhaldsskóla yfir 95%. Lítið eitt lægra hlutfall 17-19 ára nemenda stundaði nám á framhaldsskólastigi haustið 2024 en haustið 2023.

Erlendir ríkisborgarar 44% doktorsnema
Erlendir ríkisborgarar voru 9,0% nemenda á framhalds- og háskólastigi haustið 2024 og hafa ekki verið fleiri. Hlutfallið var 8,2% haustið 2023. Hæst var hlutfall erlendra ríkisborgara á doktorsstigi, þar sem þeir voru 44,0% nemenda. Þegar litið er á fjölda erlendra ríkisborgara samtals á öllum skólastigum voru Pólverjar fjölmennastir, rúmlega 650 talsins en á þriðja hundrað nemenda voru frá Bandaríkjunum, Filippseyjum og Þýskalandi. Ef eingöngu er litið á doktorsstig voru Bandaríkjamenn fjölmennastir erlendra ríkisborgara, 35 talsins. Aðeins eru taldir með þeir nemendur sem hafa fengið íslenska kennitölu.

Sjá má sömu þróun þegar litið er á bakgrunn nemenda. Haustið 2024 voru þrír af hverjum fjórum nemendum án erlends bakgrunns og hefur það hlutfall ekki verið lægra. Þá voru 10,5% nemenda innflytjendur og hefur það hlutfall ekki verið hærra. Á doktorsstigi fellur tæpur helmingur nema í flokk innflytjenda, eða 48,3%. Þeir eru fjölmennari en þeir sem eru án erlends bakgrunns, en þeir voru 45,6% nemenda.

Rúmur þriðjungur nemenda á framhaldsskólastigi er í starfsnámi
Rúmlega þriðjungur (34,9%) nemenda á framhaldsskólastigi var í starfsnámi haustið 2024, lítið eitt færri en árin 2021-2023. Hlutfall nemenda í starfsnámi jókst frá 2017 til 2023 þegar það var 35,2%. Í upphafi þessarar aldar voru starfsnámsnemendur hærra hlutfall nemenda á framhaldsskólastigi en hæst var hlutfallið árið 2003 þegar 38,5% nemenda á framhaldsskólastigi voru í starfsnámi.

Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur hækkað meðal karla frá árinu 2017 en 44,3% karla voru í starfsnámi haustið 2024. Hlutfall nemenda í starfsnámi er lægra meðal kvenna en það var 24,2% haustið 2024.

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert.

Talnaefni
Yfirlit
Framhaldsskólastig
Háskólastig

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.