Nemendur á skólastigum fyrir ofan grunnskóla á Íslandi voru 44.758 haustið 2024 og hafði fjölgað um 1.312 frá fyrra ári eða um 3,0%. Nemendum fjölgaði á öllum skólastigum nema doktorsstigi þar sem nemendum fækkaði um 52. Á framhaldsskólastigi fjölgaði nemendum um 227 (1,0%), um 29 (1,9%) á viðbótarstigi og um 1.108 (5,8%) á háskólastigi neðan doktorsstigs. Þetta er viðsnúningur frá árinu áður þar sem nemendum fækkaði á öllum skólastigum nema viðbótarstigi. Á viðbótarstigi er nám sem bætist ofan á nám á framhaldsskólastigi en er ekki á háskólastigi.
Fleiri konur en karlar stunda nám ofan grunnskóla
Alls sóttu rúmlega 20.300 karlar nám og rúmlega 24.400 konur. Körlum við nám fjölgaði um 478 frá fyrra ári (2,4%) og konum um 834 (3,5%). Karlar voru 53% nemenda á framhaldsskólastigi, 77% á viðbótarstigi og 35% nemenda á háskóla- og doktorsstigi.
Tæplega 95% 16 ára nemenda sóttu nám á framhaldsskólastigi
Alls voru 94,7% 16 ára nemenda skráðir í nám á framhaldsskólastigi haustið 2024 en hlutfallið var 94,8% haustið 2023. Árin 2019-2022 var hlutfall 16 ára í framhaldsskóla yfir 95%. Lítið eitt lægra hlutfall 17-19 ára nemenda stundaði nám á framhaldsskólastigi haustið 2024 en haustið 2023.
Erlendir ríkisborgarar 44% doktorsnema
Erlendir ríkisborgarar voru 9,0% nemenda á framhalds- og háskólastigi haustið 2024 og hafa ekki verið fleiri. Hlutfallið var 8,2% haustið 2023. Hæst var hlutfall erlendra ríkisborgara á doktorsstigi, þar sem þeir voru 44,0% nemenda. Þegar litið er á fjölda erlendra ríkisborgara samtals á öllum skólastigum voru Pólverjar fjölmennastir, rúmlega 650 talsins en á þriðja hundrað nemenda voru frá Bandaríkjunum, Filippseyjum og Þýskalandi. Ef eingöngu er litið á doktorsstig voru Bandaríkjamenn fjölmennastir erlendra ríkisborgara, 35 talsins. Aðeins eru taldir með þeir nemendur sem hafa fengið íslenska kennitölu.
Sjá má sömu þróun þegar litið er á bakgrunn nemenda. Haustið 2024 voru þrír af hverjum fjórum nemendum án erlends bakgrunns og hefur það hlutfall ekki verið lægra. Þá voru 10,5% nemenda innflytjendur og hefur það hlutfall ekki verið hærra. Á doktorsstigi fellur tæpur helmingur nema í flokk innflytjenda, eða 48,3%. Þeir eru fjölmennari en þeir sem eru án erlends bakgrunns, en þeir voru 45,6% nemenda.
Rúmur þriðjungur nemenda á framhaldsskólastigi er í starfsnámi
Rúmlega þriðjungur (34,9%) nemenda á framhaldsskólastigi var í starfsnámi haustið 2024, lítið eitt færri en árin 2021-2023. Hlutfall nemenda í starfsnámi jókst frá 2017 til 2023 þegar það var 35,2%. Í upphafi þessarar aldar voru starfsnámsnemendur hærra hlutfall nemenda á framhaldsskólastigi en hæst var hlutfallið árið 2003 þegar 38,5% nemenda á framhaldsskólastigi voru í starfsnámi.
Hlutfall nemenda í starfsnámi hefur hækkað meðal karla frá árinu 2017 en 44,3% karla voru í starfsnámi haustið 2024. Hlutfall nemenda í starfsnámi er lægra meðal kvenna en það var 24,2% haustið 2024.
Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert.
Talnaefni
Yfirlit
Framhaldsskólastig
Háskólastig