FRÉTT MENNTUN 30. APRÍL 2024

Nemendur í grunnskólum voru 47.507 haustið 2023 og hafa ekki áður verið fleiri nemendur í skyldunámi á Íslandi. Grunnskólanemum hefur fjölgað um 392 frá haustinu 2022 eða um 0,8%. Skýringin er aðallega flutningur fólks til landsins. Í fyrsta skipti eru yfir fimm þúsund nemendur í 10. bekk sem munu væntanlega flestir sækja um nám í framhaldsskólum haustið 2024. Þessar tölur byggja á upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.

Grunnskólanemendur með erlent móðurmál aldrei fleiri
Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2023 höfðu 7.361 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 15,5% nemenda, sem er fjölgun um tæplega 800 nemendur frá árinu áður. Hafa ber í huga að hluti þessara nemenda hefur einnig íslensku sem móðurmál.

Algengasta erlenda móðurmál nemenda í grunnskólum er pólska sem er töluð af 2.163 nemendum. Næstalgengasta erlenda tungumálið er spænska, sem rúmlega 600 börn hafa sem móðurmál, og arabíska sem er töluð af rúmlega 500 börnum. Hlutfallsleg fjölgun frá haustinu 2022 er mest á meðal nemenda sem tala spænsku (64,7%) og úkraínsku (54,3%) ef eingöngu er litið á tungumál sem töluð eru af fleiri en eitt hundrað börnum.

Að sama skapi fjölgaði nemendum með erlent ríkisfang frá fyrra ári. Þeir voru 4.976 haustið 2023 og hafði fjölgað um 862 (21,0%) frá árinu áður. Töluleg fjölgun var mest á meðal barna frá Venesúela, sem fjölgaði um 248, en nemendum frá Úkraínu og Víetnam fjölgaði um meira en eitt hundrað frá hvoru landi fyrir sig. Nemendum með íslenskt ríkisfang fækkaði um 470 á milli áranna 2022 og 2023.

Tæplega 30% grunnskólanemenda hafa erlendan bakgrunn
Ef bakgrunnur nemenda er skoðaður kemur í ljós að tæp 30% nemenda hafa erlendan bakgrunn en rúm 70% hafa ekki erlendan bakgrunn. Af þeim nemendum sem hafa erlendan bakgrunn er sá hópur stærstur sem er fæddur á Íslandi en annað foreldrið fæddist erlendis, en það á við um tæp 9% nemenda. Frá fyrra ári hefur mest fjölgað í hópi innflytjenda, en þeim fjölgaði um 805 í rúmlega 3.700, og eru tæp 8% nemenda. Innflytjendur eru þeir nemendur sem eru fæddir erlendis og eiga foreldra sem báðir eru fæddir erlendis.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.