FRÉTT MENNTUN 17. FEBRÚAR 2005

Rúmlega 44.500 nemendur við nám í grunnskólum
Nemendur í grunnskólum voru 44.511 haustið 2004, auk þess sem 126 börn stunduðu nám í 5 ára bekk. Nemendum hefur fækkað um 290 frá síðastliðnu skólaári. Gera má ráð fyrir að nemendum grunnskóla fari fækkandi næstu árin því þeir árgangar sem eru að hefja grunnskólanám næstu ár eru fámennari en þeir árgangar sem ljúka munu grunnskólanámi. Alls starfa 4.725 starfsmenn við kennslu og skólastjórnun og eru tæplega 11 (10,8) nemendur á bak við hvert stöðugildi kennara. Þessar tölur koma úr gagnasafni Hagstofu Íslands, sem safnar upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.

Grunnskólum hefur fækkað um 9 frá fyrra ári
Skólaárið 2004-2005 eru 178 grunnskólar starfandi á landinu og hefur þeim fækkað um 9 frá árinu áður. Nýir skólar eru 4 talsins en 13 skólar hafa verið lagðir niður eða sameinaðir öðrum grunnskólum frá síðastliðnu skólaári. Um leið fer meðalfjöldi nemenda á skóla hækkandi, og eru 250 nemendur að meðaltali í hverjum grunnskóla haustið 2004. Tveir grunnskólar eru með yfir 800 nemendur hvor, Árbæjarskóli í Reykjavík og Vallaskóli á Selfossi. Í 16 skólum eru færri en tuttugu nemendur og er Grunnskóli Mjóafjarðar fámennastur með 3 nemendur. Allir grunnskólar landsins nema einn eru nú einsetnir. Einkaskólum hefur fækkað um einn og stunda nú 430 nemendur nám í 7 einkaskólum eða tæplega eitt prósent nemenda. Auk þess sækja 117 5 ára börn nám í 5 ára bekk í einkaskólum. Fjölmennasti einkaskóli landsins er Skóli Ísaks Jónssonar. Að auki starfar ítalskur grunnskóli að Kárahnjúkum með 8 nemendur.

Rúmlega 200 grunnskólabörn hafa pólsku að móðurmáli
Um 3% grunnskólanemenda hafa annað móðurmál en íslensku. Alls hefur 201 barn pólsku sem móðurmál, 164 ensku og 140 tala filippseysk mál. Pólska hefur verið algengasta erlenda móðurmálið í grunnskólum frá haustinu 2002 en árin þar á undan var enska algengasta erlenda móðurmál grunnskólanema.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.