FRÉTT MENNTUN 03. MARS 2009


Grunnskólanemendum fækkar frá síðasta skólaári

Nemendur í grunnskólum á Íslandi voru 43.511 haustið 2008, auk þess sem 135 börn stunduðu nám í 5 ára bekk í 5 skólum. Grunnskólanemendum hefur fækkað um 330 frá síðastliðnu skólaári, eða 0,7%. Gera má ráð fyrir að nemendum grunnskóla fækki næstu árin því að þeir árgangar sem eru að hefja grunnskólanám eru fámennari en þeir árgangar sem ljúka munu grunnskólanámi. Grunnskólanemendur á Íslandi voru flestir haustið 2003, 44.809. Þessar tölur koma úr gagnasafni Hagstofu Íslands, en Hagstofan hefur safnað upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert síðan haustið 1997.

Tæp 5% grunnskólanemenda hafa erlent móðurmál
Grunnskólanemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli fjölgar ár frá ári og hafa aldrei verið fleiri. Haustið 2008 eru 2.069 grunnskólanemendur skráðir með erlent móðurmál eða 4,8% allra grunnskólanema. Flestir eru pólskumælandi, 633 talsins, og hefur fjölgað um 148 milli ára, eða um rúm 30%. Þá fjölgar nemendum með filippeysk móðurmál um 24 frá fyrra ári og enskumælandi nemendum um 22.

Fjöldi nemenda í einkaskólum stendur í stað
Skólaárið 2008-2009 eru 9 einkaskólar starfandi á grunnskólastigi með 666 nemendur. Það er fjölgun um 2 nemendur frá síðastliðnu skólaári. Ekki hafa áður verið fleiri nemendur í einkareknum grunnskólum á Íslandi frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands haustið 1997. Nýr einkaskóli tók til starfa síðastliðið haust í Reykjavík og öðrum var lokað á Suðurnesjum, og stendur fjöldi einkaskóla því í stað frá árinu áður.

Alls starfa 174 grunnskólar á landinu og er það óbreyttur fjöldi frá fyrra ári. Nýir skólar tóku til starfa á árinu en aðrir voru lagðir niður eða sameinaðir öðrum skólum. Fjölmennustu grunnskólar landsins eru Árbæjarskóli með 759 nemendur og Rimaskóli með 693 nemendur. Fámennasti grunnskólinn er Finnbogastaðaskóli á Ströndum þar sem einugis 2 stúlkur stunda nám. Í sérskólum, sem eru 4 talsins, stunda 143 nemendur nám.

Færri nemendur eru á hvert stöðugildi kennara
Alls störfuðu 5.084 starfsmenn við kennslu og skólastjórnun haustið 2008 og eru 9,3 nemendur á bak við hvert stöðugildi kennara. Nemendum á stöðugildi kennara hefur fækkað ár frá ári, og voru 9,5 nemendur á hvert stöðugildi í fyrra. Haustið 1998 voru 13,3 nemendur á hvern kennara.

Að meðaltali eru 18,3 nemendur í bekk en þá eru sérskólar og sérdeildir ekki taldar með. Bekkjarstærð vex með hækkandi aldri nemenda. Að meðaltali eru fæstir nemendur í 1. bekk, eða 16,2, en flestir nemendur í 10. bekk, eða 19,7. Ekki eru til tæmandi upplýsingar um fjölda kennara sem kenna hverjum bekk en í sumum tilvikum er stórum bekkjardeildum kennt af fleiri en einum kennara. Þá hefur ýmiss konar samkennsla árganga farið vaxandi og er ekki eingöngu stunduð í fámennum skólum á landsbyggðinni.

Nánari tölulegar upplýsingar um nemendur í grunnskólum haustið 2008 má finna hér á vefnum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.