FRÉTT MENNTUN 22. APRÍL 2020

Nemendur í grunnskólum voru 46.254 haustið 2019 og hafa ekki áður verið fleiri í skyldunámi á Íslandi. Grunnskólanemum hefur fjölgað um 350 frá haustinu 2018, eða um 0,8%. Skýringin er aðallega sú að stærri árgangur hóf grunnskólanám haustið 2019 en sá sem lauk grunnskólanámi um vorið. Þá fjölgar nemendum einnig vegna aðflutnings til landsins.

Alls voru 770 nýir nemendur í 2.-10. bekk, sem ekki voru í grunnskólum á Íslandi haustið 2018 og skiptast þeir nokkuð jafnt á milli íslenskra og erlendra ríkisborgara. Þessar tölur byggja á upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.

Grunnskólanemendur með erlent móðurmál aldrei fleiri
Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2019 höfðu 5.343 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 11,6% nemenda, sem er fjölgun um 469 nemendur frá árinu áður. Hafa ber í huga að einhverjir þessara nemenda hafa einnig íslensku sem móðurmál. Algengasta erlenda móðurmál nemenda í grunnskólum er pólska, sem er töluð af rúmlega 1.800 nemendum, og meira en 300 börn tala filippseysk mál eða ensku. Á þriðja hundrað nemenda talar litáísku, taílensku, arabísku eða spænsku.

Nemendum með erlent ríkisfang fjölgaði einnig frá fyrra ári og voru 2.900 haustið 2019.

Fjöldi nemenda með erlent móðurmál er á bilinu 427 til 660, þar sem fjöldinn var mestur í 5. bekk en minnstur í 1. bekk. Í síðasta árgangi grunnskólans, 10. bekk, eru skráðir 442 nemendur með erlent móðurmál, 29 fleiri en árið áður. Sé horft til reynslu síðustu ára munu flestir þeirra koma til með að hefja nám í framhaldsskólum haustið 2020.

Að meðaltali eru 19,3 nemendur í bekk
Að meðaltali eru 19,3 nemendur í bekk, en þá eru sérskólar og sérdeildir ekki taldar með. Fæstir eru í 1. bekk, eða 16,9 að meðaltali, en flestir í 9. bekk, eða 20,5. Ekki eru til upplýsingar um fjölda kennara sem kenna hverjum bekk en í sumum tilvikum er stórum bekkjardeildum kennt af fleiri en einum kennara. Í einhverjum skólum er árgöngum kennt saman og er það ekki eingöngu stundað í fámennum skólum á landsbyggðinni.

Starfandi grunnskólar eru 170 talsins
Alls starfa 170 grunnskólar á landinu skólaárið 2019-2020, sem er fjölgun um einn frá fyrra ári. Grunnskólinn í Grímsey starfar ekki á þessu skólaári en tveir nýir skólar tóku til starfa síðastliðið haust, Helgafellsskóli og Stapaskóli. Einkaskólar eru 13 talsins, sem er óbreyttur fjöldi frá síðasta skólaári, með tæplega 1.200 nemendur. Í sérskólum, sem eru þrír talsins, stunduðu 162 nemendur nám.

Fjölmennustu grunnskólar landsins skólaárið 2019-2020 eru í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur; Hörðuvallaskóli með rúmlega 900 nemendur og Varmárskóli með rúmlega 800 nemendur. Fámennasti grunnskólinn er Grunnskólinn á Borgarfirði eystra þar sem fjórir nemendur stunduðu nám haustið 2019.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.