FRÉTT MENNTUN 01. JÚNÍ 2021

Nemendur í grunnskólum voru 46.688 haustið 2020 og hafa ekki áður verið fleiri nemendur í skyldunámi á Íslandi. Grunnskólanemum fjölgaði um 434 frá haustinu 2019 eða um 0,9%. Skýringin er sú að fleiri börn á aldrinum 6-15 ára búa á Íslandi en áður. Þessar tölur byggja á upplýsingum um nemendur í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.

Grunnskólanemendur með erlent móðurmál aldrei fleiri
Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2020 höfðu 5.611 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 12% nemenda, sem er fjölgun um 268 nemendur frá árinu áður. Hafa ber í huga að einhverjir þessara nemenda hafa einnig íslensku sem móðurmál. Langalgengasta erlenda móðurmál nemenda í grunnskólum er pólska sem er töluð af rúmlega 1.900 nemendum. Tæplega 400 börn tala ensku og rúmlega 350 börn hafa filippseysk tungumál sem móðurmál.

Í síðasta árgangi grunnskólans, 10. bekk, eru skráðir 523 nemendur með erlent móðurmál, 81 fleiri en árið áður. Sé horft til reynslu síðustu ára munu flestir þeirra koma til með að hefja nám í framhaldsskólum haustið 2021.

Nemendum með erlent ríkisfang fjölgaði einnig frá fyrra ári og voru 3.178 haustið 2020.

Starfandi grunnskólar eru 173 talsins
Alls starfa 173 grunnskólar á landinu skólaárið 2020-2021 sem er fjölgun um þrjá frá fyrra ári. Fjölgunin er vegna þess að haustið 2020 gengu til baka sameiningar grunnskóla í Hafnarfirði og í Reykjavík, bæði í Háaleitishverfi og Grafarvogi. Einkaskólar eru 13 talsins, sem er óbreyttur fjöldi frá síðasta skólaári, með rúmlega 1.300 nemendur, 140 fleiri en árið áður. Í sérskólum, sem eru þrír talsins, stunduðu 174 nemendur nám.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.